Kvika sem hefur ekki sést áður á skaganum

Frá fyrsta degi gossins sem varð í júlí, því þriðja …
Frá fyrsta degi gossins sem varð í júlí, því þriðja á þremur árum. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Rúmar þrjár vikur eru liðnar frá því að eldgosinu lauk sem upp kom við Litla-Hrút á Reykjanesskaga þann 10. júlí. Gosið var það þriðja á jafnmörgum árum á skaganum og þykir til marks um að hafið sé nýtt tímabil aukinnar eldvirkni í landshlutanum.

Og sú aukna virkni þarf ekki að takmarkast við Reykjanesskagann, eins og Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjalla- og bergfræði, greindi frá í samtali við Morgunblaðið fyrr í mánuðinum. Vísaði hann til möttulstróksins undir Íslandi sem ásamt flekaskilunum hefur búið til landið og mótað það.

„Það bendir sumt til þess að möttulstrókurinn sé að eflast og að þetta séu afleiðingar af því. Maður veit það ekki fyrir víst en manni finnst það svo sem ekkert ólíklegt,“ sagði Þorvaldur.