Róðurinn þyngist hjá Þjóðverjum

Olaf Scholz Þýskalandskanslari mætti á opnun bílasýningarinnar í Frankfurt í …
Olaf Scholz Þýskalandskanslari mætti á opnun bílasýningarinnar í Frankfurt í gær og þótti óvenju vígalegur með nýjan augnlepp en hann slasaðist við íþróttaæfingar fyrir skemmstu. Þýska hagkerfið er við frostmark. AFP

Þýskir stjórnmálamenn eru ekki þekktir fyrir að vilja lækka álögur né fyrir að hafa mikinn metnað fyrir því að gera stjórnsýsluna skilvirkari – ef eitthvað er hafa þeir þótt helst til ólmir að seilast í vasa skattgreiðenda og skapa alls kyns nýjar reglur, flækjur og kvaðir.

Er það kannski til marks um hversu alvarlegar horfurnar eru í Þýskalandi að ríkisstjórn Olafs Scholz skyldi tilkynna fyrir viku að gripið verði til umfangsmikilla aðgerða til að létta byrðum af atvinnulífinu og draga úr skrifræði.

Kom tilkynningin í kjölfar tveggja daga vinnulotu ríkisstjórnarflokkanna þriggja: SDP, Græningja og FDP, í sumarhöll kanslaraembættisins, Schloss Meseberg, um klukkustundar akstur norður af Berlín. Er talið líklegt að með vinnulotunni hafi Scholz viljað þétta raðirnar en borið hefur á töluverðri spennu á stjórnarheimilinu að undanförnu.