Nettengingar eru skipaskurðir nútímans
Ég stalst um daginn til að hlusta á Aðgát og örlyndi (e. Sense and Sensibility) í framúrskarandi flutningi leikkonunnar Rosamund Pike. Í nokkra daga fékk ég að fylgjast með hversdagsdramatík og strákastússi systranna Elinor og Marianne í kringum aldamótin 1800, og það er gaman hvað hegðun unglinga og fullorðinna hefur lítið breyst frá því Jane Austen skrifaði þetta hrífandi meistaraverk sitt. Draumar okkar, þrár og breyskleikar eru þau sömu tveimur öldum síðar og helsti munurinn að í dag skipuleggur fólk ráðahagi sína aðallega á Tinder, Grindr, Facebook og Instagram.
Það hefur verið sagt um skrif Austen að þau séu ef til vill ekki alveg nógu raunsæ, að minnsta kosti ef sögur hennar eru skoðaðar í gegnum linsu hagfræðinnar, því hlutfallið á milli heldri borgara og alls kyns þjónustufólks virðist óralangt frá því að geta talist í eðlilegu jafnvægi. Söguhetjurnar eiga alltaf nóg af peningum en vinna ekki stakt handtak, og fátt sem útskýrir hvaðan allur...