Ógleymanlegur afburðamaður
Henry Kissinger lést rúmlega eitt hundrað ára gamall í vikunni sem leið. Það er hár aldur. Víða um heim er gert ráð fyrir því, að menn láti af störfum rétt rúmlega sextugir og annars staðar þegar hallar undir sjötugt. Og þeir sem myndu þiggja slíkt boð gætu því hugsanlega átt 30-40 ár fram undan, sem er venjulegur starfsaldur núorðið, ekki síst ef horft er til þeirra sem ljúka almennu háskólanámi og leggja að auki stund á einhverja sérfræði áður en horfið er alfarið út á vinnumarkaðinn eins og algengt er. Kissinger var raunar störfum hlaðinn áður en hann féll frá á heimili sínu. Fyrir aðeins fáeinum mánuðum brá Kissinger sér til Kína til að eiga viðræður við forsetann þar, og aðra þá ráðamenn sem næstir voru honum. Þegar hann kom heim úr hinu langa ferðalagi, fáeinum vikum áður en hann lést, átti hann viðræður á heimili sínu við Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, sem staðið hefur í stórræðum heima fyrir, en hafði orðið að bregða sér á fund í aðalstöðvum SÞ, af vígvellinum og fela...