Margir til kallaðir – fáir útvaldir

Breskir fjölmiðlar velta nú vöngum yfir eftirmanni forsætisráðherrans umdeilda Borisar Johnsons, manns sem þekktur hefur verið fyrir flest annað en að binda sína bagga sömu hnútum og samferðamenn, í sæti leiðtoga Íhaldsflokksins. Teflir breska ríkisútvarpið BBC þar fram vænum hópi, reyndar á annan tug, leiðtogaefna.

Líklegast þykir að varnarmálaráðherrann Ben Wallace hreppi hnossið, kosningastjóri Johnsons árið 2017 sem einnig á að baki herþjónustuferil sem teygir sig til Þýskalands, Kýpur og Norður-Írlands þar sem hann vann sér það til frægðar að afstýra sprengjutilræði írska lýðveldishersins IRA. Wallace tók þingsæti árið 2005 fyrir kjördæmið Wyre og Norður-Preston. Lætur BBC þess enn fremur getið að þegar Wallace starfaði sem lífvörður við Buckingham-höll, innan raða skosku lífvarðanna svokölluðu, the Scots Guards, hafi hann komið sér upp hæsta barreikningi í sögu yfirmannamessans svokallaða, veitingastaðar yfirmanna í lífverðinum.