Andrea Eyland, höfundur bókarinnar Kviknar, frumsýndi fyrsta þáttinn í seríunni Líf kviknar í Bíó Paradís í vikunni. Þættirnir eru sýndir hjá Sjónvarpi Símans Premium og þegar Andrea mætti á frumsýninguna í bíóinu var hún búin að raka af sér allt hárið.
„Ég þráði frelsið sem fylgir því að taka allt hárið af. Ég byrjaði að vinna í þáttunum þegar Björgvin Ylur var nokkurra vikna en hann er núna fimm mánaða. Þessi tími hefur verið alveg magnaður en ótrúlega krefjandi líka. Þannig að ofan í hormónin sem fylgja barneign var álagið töluvert og hárið hreinlega lak af mér. Í stað þess að berjast við að fela það leyfði ég dætrum mínum að klippa það og raka. Það er reyndar líka í tengslum við annað verkefni sem er enn þá leyndarmál,“ segir Andrea.
Hvaða viðbrögð hafa þættirnir fengið?
„Ótrúleg viðbrögð, ég átti alls ekki von á þessu. Skilaboðin og kveðjurnar eru óteljandi og ég er svo meyr og þakklát en fáranlega stolt. Mér þótti til dæmis mjög vænt um þegar ein sagði mér að hún hafði glímt við svo mikið andlegt álag þegar hún átti sín börn og vildi óska að þessi þættir hefðu verið til sýnis á þeim tíma. Mér fannst tilgangi þáttanna vera náð með þessum orðum og ég vona svo innilega að tilvonandi foreldrar sem finnst foreldrahlutverkið vera yfirþyrmandi geti séð von í öllu sem rætt er í þáttunum.“
Hvers vegna fannst þér þú þurfa að gera þessa þætti?
„Það hefur verið draumur til nokkurra ára að láta bókina lifna við eftir að hún kæmi út og þegar það gerðist síðustu jól, fór hugurinn á fullt. Ég viðraði þessa hugmynd við Þórhall hjá Sagafilm sem tók vel í hana en sagði, eðlilega, gefðu bókina út fyrst. Ég prófaði reyndar að kynna verkefnið fyrir RÚV á hugmyndadögum en þeir sögðu nei. Að sjálfsögðu brunaði ég beint til Sagafilm og Þórhallur hafði sannarlega ekki misst trúna á mér, mörgum árum seinna, fyrir það er ég mjög þakklát.
Þessar sögur og reynsla foreldranna sem eru viðmælendur þáttana er of mikilvæg til að vera ekki sögð. Það eru mörg málefni órædd og sum tabú og ég hafði þörf til að gefa þeim rödd, Líf Kviknar er rödd foreldra í barneignarferlinu. Við getum langflest tengt við það sem fjallað er um og vonandi opnast umræða um líðan og tilfinningar enn meir eftir að fólk horfir á.“
Ertu búin að ákveða hvað þú gerir næst?
„Ég er aldrei búin að ákveða neitt en ég ætla mér ýmislegt. Líklega fer ég seint í 9-17 vinnu. Bækur fyrir börn um samsettar fjölskyldur, átaksverkefni fyrir bugaðar mæður, sería tvö af Líf kviknar, þýðing á Kviknar og erlend framleiðsla á sjónvarpi tengt Kviknar er á döfinni. Ég á svo stórkostlegt fólk í kringum mig og markmið lífsins er að sýna dætrum minum að við getum allt ef við ætlum okkur það því draumar rætast um leið og við byrjum að framkvæma þá,“ segir hún.