Barnasýningin sem allir hafa beðið eftir frumsýnd

Kardemommubærinn verður loksins frumsýndur á laugardaginn.
Kardemommubærinn verður loksins frumsýndur á laugardaginn. Ljósmynd/Aðsend

Kardemommubærinn verður loks frumsýndur á Stóra sviði Þjóðleikhússins næstkomandi laugardag. Vegna áhrifa kórónuveirunnar hefur frumsýningu verið frestað tvisvar en nú er komið að hinum langþráða áfanga og leikhópurinn er sannarlega reiðubúinn að hrífa unga og eldri áhorfendur með sér. 

Dæmi eru um að börnin í leikhópnum hafi vaxið upp úr skónum sínum, en meira en ár er frá því að þau hófu undirbúning. Kardemommubærinn er ástsælasta barnaleikrit Íslandssögunnar. Ágústa Skúladóttir er leikstjóri verksins en fjórum sinnum hafa sýningar undir hennar stjórn hlotið Grímuverðlaun sem barnasýningar ársins. 

Þolinmóðu börnin sem hafa beðið í meira en ár og vaxið upp úr búningunum

Það var í september 2019 sem ríflega þúsund börn skráðu sig í leikprufur með von um að hreppa hlutverk í Kardemommubænum sem frumsýna átti í apríl síðastliðnum. Tvisvar sinnum hefur þurft að fresta frumsýningu vegna samkomubanns og dæmi eru um að börnin hafi þurft að  fá nýja, stærri skó og breyta hefur þurft einstaka búningi barna. En nú er loksins komið að því að áhorfendur geti séð dýrðina og raulað með lögunum sem allir kunna. 

Fjöldi leikara, barna og tónlistarmanna tekur þátt í þessari bráðskemmtilegu og kraftmiklu sýningu þar sem yndislegu sönglögin hans Egners gleðja jafnt unga sem aldna! Kardemommubærinn var fyrst sýndur í Þjóðleikhúsinu árið 1960 og er nú settur á svið í sjötta sinn.  
 
Ágústa Skúladóttir leikstjóri hefur tekist á við fjölda leikstjórnarverkefna og vakið mikla athygli fyrir stórkostlegar barna- og fjölskyldusýningar, sem og hugmyndaríkar og skemmtilegar sýningar fyrir fullorðna. Alls hafa tólf sýningar undir hennar stjórn fengið Grímutilnefningar sem barnasýningar ársins og fjórar þeirra hafa hampað Grímu. Nú styttist í að sjálfur Kardemommubærinn í leikstjórn Ágústu og kostulegir íbúar hans leiki lausum hala á Stóra sviði Þjóðleikhússins. 

Soffía frænka kann að siða óþekktarormana Jónatan og Jesper til.
Soffía frænka kann að siða óþekktarormana Jónatan og Jesper til. Ljósmynd/Aðsend

Örn Árnason sem hefur leikið alla ræningjana fær nú hlutverk Bastíans bæjarfógeta 

Með hlutverk ræningjanna fara þeir Hallgrímur Ólafsson, Sverrir Þór Sverrisson (Sveppi) og Oddur Júlíusson. Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og Ólafía Hrönn Jónsdóttir skipta hinu eftirsótta hlutverki Soffíu frænku með sér en Örn Árnason leikur Bastían bæjarfógeta að þessu sinni. Örn hefur náð þeim merkilega áfanga að leika alla ræningjana þrjá í fyrri uppfærslum á Kardemommubænum. 

Kardemommubærinn er yndislegur bær, fullur af skemmtilegum dýrum og litríkum íbúum. Þrennt ógnar þó friðsældinni í bænum, þrír kostulegir ræningjar, ógurlega ljónið þeirra sem elskar mjólkursúkkulaði og hin ráðríka og skapstygga Soffía frænka! Þegar ræningjarnir fá þá hugdettu að ræna sjálfri Soffíu frænku til að sjá um húsverkin fyrir sig færist heldur betur fjör í leikinn. 

Thorbjörn Egner og Þjóðleikhúsið

Thorbjörn Egner var afar fjölhæfur listamaður, fékkst við myndlist og samdi ljóð, sögur, leikrit og tónlist. Hann er einna þekktastur fyrir leikrit sín Dýrin í Hálsaskógi, Kardemommubæinn og Karíus og Baktus, en hann sendi einnig frá sér fjölda bóka, myndskreytti bækur og vann margskonar barnaefni fyrir útvarp. Hann lét til sín taka á ýmsum sviðum barnamenningar, og sá meðal annars um útgáfu lestrarbóka fyrir börn. 

Þjóðleikhúsið og Thorbjörn Egner tengjast sérstökum böndum. Verk hans hafa verið samofin starfi Þjóðleikhússins í um sex áratugi, eða allt frá því að Kardemommubærinn var frumsýndur hér árið 1960. Egner gerði leikmynd og búninga þegar Kardemommubælrinn , Dýrin í Hálsaskógi og Síglaðir söngvarar voru fyrst sýnd hér í Þjóðleikhúsinu. Egner kom einnig til landsins árið 1965 þegar frumuppfærslan var tekin til sýninga að nýju. Egner var mjög ánægður með sýninguna og svo vænt þótti honum um viðtökur verka sinna á Íslandi að hann gaf Þjóðleikhúsinu höfundarréttartekjur af þeim í hundrað ár. Þær tekjur hafa verið nýttar til að efla leikhúsmenningu fyrir börn á Íslandi.  

Jesper, Kasper og Jónatan.
Jesper, Kasper og Jónatan. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda