Þorvaldur Davíð til Oxford

Þorvaldur Davíð Kristjánsson er að flytja til Bretlands þar sem …
Þorvaldur Davíð Kristjánsson er að flytja til Bretlands þar sem hann mun stunda MBA-nám við Oxford-háskólann. ljósmynd/Baldur Kristjáns

Þorvaldur Davíð Kristjánsson var nýverið í viðtali við Smartland þar sem hann útskýrði ástæðu þess að hann sóttist eftir stöðu bæjarstjóra á Seyðisfirði. Eftir að hafa íhugað málið vandlega hefur hann nú dregið umsókn sína til baka og heldur á vit nýrra ævintýra þar sem hann hefur hlotið inngöngu í hinn virta Oxford-háskóla í Bretlandi. Þar mun hann leggja stund á „Executive“ MBA-nám á næstu misserum. Það er greinilegt að það er mikil lukka yfir námsferli leikarans, þar sem hann er með grunnmenntun frá Juilliard-háskóla í New York. Nú bætist Oxford-háskólinn við ferilskrána. Oxford þykir einn besti háskóli heims. Albert Einstein og Bill Clinton sóttu gráðu sína í þann skóla á sínum tíma. 

Hafði dreymt um framhaldsnám

Var þetta óvænt?

„Já, það má segja það. Mig hafði lengi dreymt um að fara í framhaldsnám erlendis og í þetta tiltekna nám. En ég vil samt byrja á að taka fram hvað ég er ánægður að hafa sótt um starf bæjarstjóra á Seyðisfirði og vil ég sérstaklega þakka öllu því frábæra fólki sem ég kynntist í gegnum það ferli. Ég styrkti gömul kynni og stofnaði til nýrra og kynntist þessum yndislega bæ aðeins betur. Þegar ég sá hverjir sóttu um kom mér ánægjulega á óvart hvað það voru margir góðir umsækjendur með mikla reynslu. Það fékk mig líka til að hugsa hvort ég væri reiðubúinn í svona stóran slag á þessum tímapunkti. Svo eftir mikla íhugun var ákvörðun tekin að ná í menntun sem undirbýr mig þá betur fyrir e.t.v. sambærilegar áskoranir þegar ég kem aftur heim.

Við fjölskyldan höfum sammælst um að fara út í nám. Það er líka mikil gjöf til barnanna að fá annan menningarheim og tungumál í forgjöf. Svo á næstu mánuðum munum við koma okkur fyrir saman úti í Bretlandi. Síðan sest ég á skólabekk aftur, í þetta áhugaverða nám í þessum góða skóla. Svo já, ég er svo sannarlega mjög auðmjúkur og þakklátur og þarf í raun að klípa mig í handlegginn til að átta mig á að þetta sé ekki draumur.“

Í sama skóla og Albert Einstein

Fjölmargir þekktir einstaklingar hafa lagt stund á nám við Oxford-háskólann. Þar á meðal Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, ljóðskáldið T. S. Eliot, Albert Einstein og leikarinn Hugh Grant svo einhverjir séu nefndir.

„Þetta stjórnunarnám mun veita mér aðgang að fjölmörgum tækifærum. Það mun gefa mér tæki og tól til að takast á við áskoranir á sviði stjórnunar sem og gefa mér sterkt alþjóðlegt tengslanet sem er einstaklega dýrmætt.“

Þorvaldur Davíð þekkir það að vera í alþjóðlegu umhverfi. Saga hans í Juilliard er einstök. Þá sér í lagi þar sem hann var styrktur í gegnum námið, m.a. af Robin Williams leikara. „Einn duglegur nemandi á tveggja ára fresti getur fengið stuðning frá sjóðnum hans Robin Williams. Jessica Chastain er t.d. ein af þeim sem hefur fengið slíkan styrk,“ segir Þorvaldur Davíð brosandi og bætir við. „Námið í Juilliard sýndi mér fram á áhrifamátt góðrar menntunar. Hún breytti alla vega lífi mínu til hins betra. En núna þarf ég að setja orkuna upp og út til að finna lausn á því að fjármagna námið í Oxford. Það verður spennandi að takast á við það verkefni. Það eru engar hindranir í þessu lífi, bara leiðir sem maður þarf að finna. Ég trúi því. Maður þarf bara að vera opinn fyrir umhverfinu og tækifærum og treysta að lífið taki mann þangað sem maður á að fara. Ég hefði verið mjög hamingjusamur með að flytja á Seyðisfjörð og leggja mitt af mörkum til hins góða samfélags sem þar er, en ég er líka alveg viss um að sú reynsla sem ég mun fá úr náminu í Oxford muni gera mig enn betur í stakk búinn til að láta gott af mér leiða í framtíðinni,“ segir hann í lokin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál