Fann sig ekki í hefðbundnum störfum

Ósk Tryggvadóttir á stultum í sýningu á Kýpur.
Ósk Tryggvadóttir á stultum í sýningu á Kýpur. Ljósmynd/Aðsend

Hin 21 árs gamla Ósk Tryggvadóttir fann sína hillu í lífinu þegar henni var boðið að starfa sem dansari og eldgleypir í Bretlandi og á Kýpur. Hún kom heim til Íslands síðasta haust og stofnaði í framhaldinu Flame Entertainment á Íslandi sem kemur fram í veislum og skemmtistöðum á Íslandi og dansar og leikur listir með eld. 

Ósk er með bakgrunn í fimleikum og hefur alltaf haft mikinn áhuga á dansi og að koma fram.

„Ég hef alltaf átt erfitt með að vinna venjulega vinnu og hef alltaf reynt að leita í skemmtibransann eða í leiklistarbransann. Ástríðan mín er dans, leiklist, og að skemmta. Í janúar árið 2019 flutti ég til Brighton í Englandi í von um að öðlast meiri þekkingu og reynslu í dans- og skemmtanabransanum. Ég þurfti ekki að leita lengi þangað til að tækifærin komu til mín,“ segir Ósk og útskýrir hvernig ævintýrið að Flame Entertainment hófst.

Ósk tók þátt í Led-ljósasýningu á Kýpur.
Ósk tók þátt í Led-ljósasýningu á Kýpur. Ljósmynd/Aðsend

„Ég var á skemmtistað að skemmta mér eitt kvöldið með nokkrum vinum þegar stelpa kom til mín og kynnti sig með nafninu Abby Erin. Hún sagði mér frá fyrirtækinu sínu Abby Erin Entertainment og að hún væri að leita að fólki til fara fyrir hönd AE-Entertainment til Ayia Napa á Kýpur til að dansa og skemmta. Að sjálfsögðu hoppaði ég glöð á það tækifæri og sagði já.

Til að byrja með vann ég hjá AE-Entertainment sem dansari og flöskustelpa á skemmtistöðum í Brighton. Þegar nær dró sumri var ég send í School of Fire í London á námskeið til þess að læra að spúa eldi. Ástæðan fyrir því að eg var send í að læra eldspúarann var að á Kýpur var ég að fara taka þátt í eldsýningum ásamt því að dansa og ég þurfti líka að læra ganga á stultum. Ég var í Ayia Napa á Kýpur frá júní til ágúst 2019. Þetta var klárlega skemmtilegasta og besta lífsreynsla sem ég hef nokkurn tímann öðlast og varð gjörsamlega ástfangin af þessum heimi.“

Ósk að gleypa eld.
Ósk að gleypa eld. Ljósmynd/Aðsend

Þegar Ósk kom heim í október ákvað hún að stofna sinn eigin skemmtikraftahóp í anda þess sem hún starfaði fyrir erlendis.

„Mér fannst það tilvalið því ég hef ekki séð neinn annan gera þetta á Íslandi nema sirkusinn en hann einbeitir sér ekki beint að klúbbum, útihátíðum og veislum líkt og við gerum. Um leið og ég kom heim til Íslands sendi ég öllum vinkonum og vinum skilaboð um hugmynd mína um að stofna þennan hóp. Flestallir tóku mjög vel í þetta og voru mjög spenntir fyrir þessu. Svo byrjuðu tækniæfingar varðandi eldinn og dansinn. Það eru allskonar rútínur sem notaðar eru í að dansa með eld til þess að fanga athygli áhorfenda úti í sal. Við æfðum einu sinni í viku og ég hafði opnar æfingar út október og nóvember en í desember negldi ég niður fastan hóp fyrir Flame Entertainment,“ segir Ósk sem segir að í hópnum séu núna tíu stelpur og einn strákur. Fólkið er vinir Óskar úr fimleikum, dansi og leiklist.

Siggi flikk er í hópnum. Hér sést hann með eldstaf.
Siggi flikk er í hópnum. Hér sést hann með eldstaf. Ljósmynd/Aðsend

„Atriðin sem við sýnum í klúbbum og í veislum eru eldsýningar, þar sem við dönsum með eld og spúum eldi. Við gerum líka Led Light-sýningar þar sem við dönsum með glóandi vönd og stafi og gerum alls kyns rútínur. Við göngum einnig á stultum og klæðum okkur alltaf í búninga til að búa til smá fantasíu eða til þess að fylgja þemanu á viðburðinum.

Þær Ósk, Guðrún og Laura leika listir með eld.
Þær Ósk, Guðrún og Laura leika listir með eld. Ljósmynd/Aðsend

Ósk og félagar koma fram í efnislitlum klæðnaði en það er þó ekki gert til þess að bjóða upp á ögrandi framkomu. Ástæðan fyrir fatavalinu er mikið öryggisatriði.

„Þó að búningur okkar geti verið efnislitlir og við dansandi uppi á sviði eða inni á skemmtistað þá er það ekki til að ögra áhorfendum eða neitt slíkt. Þetta er hreinlega bara skemmtun og flott aðdráttarafl. Að hafa skemmtikrafta á þínum viðburði mun algjörlega gefa veislunni þinni meira líf og skemmtilega hluti að sjá.“

Ósk með eld fyrir framan Austur.
Ósk með eld fyrir framan Austur. Ljósmynd/Aðsend

„Þegar við erum með eldsýningar þá er öruggara fyrir okkur að vera í færri fötum heldur en fleiri vegna áhættunnar á að kveikja í klæðnaðinum okkar. Svo er líka eitt sem heitir að „body burna“ þar sem við dönsum með eldinn og látum hann snerta húðina á okkur. Í þeim tilfellum til dæmis má ekki vera í síðerma bolum eða buxum. Það er fullt af öryggisatriðum sem við þurfum að fylgja.“ 

Laura á nýjars sýningu á Austur,
Laura á nýjars sýningu á Austur, Ljósmynd/Aðsend

Hópurinn kom fram á Austur á hrekkjavökunni og um áramótin en Ósk er bara rétt að byrja. Framtíðin er björt hjá athafnakonunni ungu sem segir fullt af spennandi hlutum í bígerð. 

„Það er von mín að fólk sjái okkur sem flotta og frábæra skemmtikrafta sem það getur ráðið til að sýna í veislum og á viðburðum. Að við verðum það þekkt og eftirsótt að við myndum fara sýna á útihátíðum og um allt Ísland. Ekki væri leiðinlegt ef við myndum verða þekktari úti í heimi og fá gigg um allan heiminn. Það er mitt markmið fyrir Flame Entertainment,“ segir Ósk að lokum.

View this post on Instagram

How Mesmerising !! @osk98 . . . . FIRE FANS 🔥

A post shared by Flame Entertainment 🔥 (@flamexentertainment) on Jan 10, 2020 at 7:40am PST



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál