Slípar burt rispur og bíllinn verður eins og nýr

Guðmundur Einar Halldórsson segir að það færist í vöxt að …
Guðmundur Einar Halldórsson segir að það færist í vöxt að fólk vilji keramikhúða bílana sína.

Það er kannski ekki algengt að karlar séu æstir í keramik en þegar kemur að keramikhúðunarnámskeiðum Guðmundar Einars Halldórssonar á Selfossi þá eru þeir oftast í miklum meirihluta þótt konur láti líka sjá sig.

Guðmundur Einar er nefnilega fremstur meðal jafningja í því sem kallað er „detailing“ á bílum en það gengur út á að undirvinna lakk á bílum með sérstökum tækjum og tólum og keramikhúða þá svo í lokin til að kalla fram fallegan lit og áferð sem heldur kagganum hreinum lengur og ver betur fyrir óhreinindum.

„Ég hef verið með námskeið í nokkur ár þar sem ég hef verið að kenna fólki að keramikhúða bíla, massa þá, bóna og slétta lakkið. Þetta er þekkt alls staðar í heiminum, og þá sér í lagi í Bandaríkjunum, en hefur verið að ryðja sér hratt til rúms hér á Íslandi á síðustu árum,“ segir Guðmundur og bætir við að hann hafi lagt mikið á sig til að mennta sig í faginu og í dag er hann sá eini sem er faglærður, en hann hefur lokið bæði verklegu og bóklegu prófi frá International Detailing Association, sem eru alþjóðasamtök „detailera“ og tók sitt próf í Belgíu. Þá er hann einnig með kennsluréttindi frá tveimur keramikframleiðendum og þau sótti hann til Bretlands og Bandaríkjanna.

„Það sem við gerum svona í smáatriðum er að við tökum bíl og leiðréttum á honum lakkið. Við slípum rispur í burtu og leggjum svo efni yfir sem herðir yfirborð lakksins. Það gerir það að verkum að bíllinn verður mikið fallegri, það verður auðveldara að þrífa hann og hann rispast mikið síður. Þetta eykur að sjálfsöguðu verðgildi bílsins og þá sérstaklega ef maður fer vel með hann að innan sem utan,“ segir hann.

Af námskeiði sem Guðmundur var með fyrir Bílaklúbb Akureyrar.
Af námskeiði sem Guðmundur var með fyrir Bílaklúbb Akureyrar.

Vill láta kenna aðferðina í verkmenntaskólum

Guðmundur segir að „detailing“-aðferðin eigi rætur að rekja til Kaliforníu í Bandaríkjunum sem hann segir vera mekka „díteilingarinnar“ í heiminum. „Ég hef haft áhuga á fallegum bílum og öllu sem þeim fylgir frá því ég var pjakkur. Ég las fyrst um „detailing“ í einhverju Hot Rod-blaði fyrir mörgum árum og las þar líka um fyrsta kennarann, Ed Terwilliger, sem hefur kennt þetta á framhaldsskólastigi en hann býr einmitt í Kaliforníu og var núna að hætta eftir að hafa verið í þessu í um fimmtíu ár. Margir af fremstu mönnum í þessum bransa hafa lært hjá Ed, t.d. Jason Rose. Ég hitti hann þegar að hann var tekinn inn í frægðarhöll „detailera“ hjá IDA í byrjun árs 2020,“ segir hann og bætir við að sjálfur sé hann mikill talsmaður þess að koma þessu inn í verkmenntaskólana hér á landi. „Það er svo mikill vöxtur í þessu að maður hefur ekki undan svo það vantar svo sannarlega ekki eftirspurnina. Erlendis er vel þekkt að fólk sem vill fara vel með bílana sína fari með þá í „detailingu“ einu sinni í mánuði frekar en hefðbundinn þvott og bón. Þá er farið alveg í smáatriðin enda er þetta grunnurinn í því að bíllinn haldist fallegur að utan sem innan,“ segir Guðmundur sem hefur verið eldheitur bílaáhugamaður frá því að hann var krakki.

Námskeiðin afar vinsæl

Guðmundur segir að eftirspurnin eftir því að komast á námskeið hjá honum hafi verið mjög mikil upp á síðkastið en veiran hafi að sjálfsögðu truflað þau eins og flest annað.

„Ég var að fara af stað með stærri námskeið þegar Covid byrjaði en þurfti augljóslega að draga úr því og tók frekar menn í einkakennslu. Í byrjun september hyggst ég þó halda námskeið fyrir minni hópa. Það er auðvitað ódýrara fyrir menn að læra þetta sjálfir í stað þess að koma til mín með bílana sína og borga okkur fyrir að gera þetta,“ segir Guðmundur og bætir við að það kosti svona frá hundrað þúsund og alveg upp úr að láta keramikhúða bíl.

„Námskeiðið fer fram á Selfossi, er sextán klukkutímar og stendur yfir eina helgi. Í raun mætti segja að þetta sé ekki minni kennsla í því hvað á ekki að gera frekar en hvað á að gera. Svo þarf fólk að æfa sig og muna að það er ekki að gera skattframtal heldur bara vinna með efni og púða og einbeita sér að því að hafa undirbúninginn sem allra bestan. Flókni parturinn er aðallega að vinna undirlakkið vel, svo kemur hitt með æfingunni. Að setja húðina yfir er í sjálfu sér ekki meira mál en að bóna bíl þannig að það þarf enginn að stressa sig yfir því. Á námskeiðunum erum við heldur ekki að vinna með heila bíla heldur vinnum við á panelum, bílhúddum. Þarf að jú að vera hægt að gera mistök og læra af þeim“.

Hér má sjá Bentley sem Guðmundur gerði flottari en nýjan.
Hér má sjá Bentley sem Guðmundur gerði flottari en nýjan.

Nýir bílar og bílar með tilfinningagildi

Aðspurður hvort hægt sé að leiðrétta beyglur og dældir með keramikhúðun segir Guðmundur svo ekki vera en að hann sé í samstarfi við menn sem taki að sér það sem kallast PDR-réttingar. „Þá eru beyglurnar og dældirnar leiðréttar án þess að þær séu málaðar. Það eru yfirleitt Rússar sem eru í þessu hér á landi eða Lettar og Litháar enda er þetta kennt á háskólastigi í þeim löndum.

Guðmundur segir það kannski helst vera eigendur nýrra bíla sem kaupa þjónustuna en einnig er töluvert um að eigendur bíla sem hafa einhvers konar tilfinningalegt gildi vilji hafa þá sem fallegasta.

„Á námskeiðin kemur alls konar fólk, bæði ungir sem aldnir. Sá yngsti sem hefur komið er fimmtán ára og sá elsti á áttræðisaldri. Námskeiðin henta hvaða fagurkera sem er, bæði þeim sem hafa þekkingu á bílalökkum, til dæmis bílamálurum, og líka bara fólki sem hefur gaman af því að þrífa og bóna bíla til að þeir séu sem flottastir,“ segir bílaunnandinn Guðmundur og skýtur svo inn í lokin að það verði námskeið í september og að áhugasamir geti haft samband við hann í gegnum Detail Ísland á Facebook.

Bílar sem Guðmundur detailaði fyrir sýningu.
Bílar sem Guðmundur detailaði fyrir sýningu.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál