Söng fyrir Beyoncé og eltir nú söngdrauminn til Parísar

Söngkonan Viktoría Kjartansdóttir hefur alltaf verið heilluð af París í Frakklandi. Á dögunum rættist langþráður draumur þegar hún komst inn í tónlistarskólann Paris College of Music. Viktoría er mikil smekkmanneskja og hefur ásamt söngnum mikinn áhuga á listum og ferðalögum, en á Instagram-reikningi hennar má finna margar fallegar ljósmyndir sem hún hefur tekið í gegnum tíðina. 

Viktoría er fædd og uppalin í smáíbúðahverfinu í Reykjavík. Hún er stúdent frá Menntaskólanum í Hamrahlíð og hefur lokið grunnprófi í söng úr Félagi íslenskra hljómlistarmanna (FÍH). Síðastliðin ár hefur hún starfað í sérkennslu á leikskóla með langveika stúlku sem hún lýsir sem yndislegu starfi, en nú liggur leið hennar til Parísar þar sem hún mun hefja nám í söng við virtan tónlistarskóla í september. 

Hvenær byrjaðir þú að syngja?

„Ég fæddist nánast syngjandi og man bara ekki eftir mér öðruvísi en raula eitthvað lag,“ segir Viktoría sem var á yngri árum sérstaklega hrifin af söngleikjum á borð við Annie, Sound of Music og Mary Poppins. „Þegar ég var þriggja ára þá fór ég til Bretlands og söng My favorite things og Do-re-mi í kerrunni hástöfum, en bar allt vitlaust fram við mikinn fögnuð Bretanna sem hlustuðu og hlógu.“ Viktoría hafði farið í söngskóla Maríu Bjarkar áður en hún hóf nám við FÍH. Hún hefur einnig tekið þátt í hinum ýmsu verkefnum og hefur meðal annars sungið í brúðkaupum, í Íslensku óperunni og sem bakrödd. 

View this post on Instagram

A post shared by @viktoriakjartans

Áttu þér uppáhaldslög til að syngja?

„Ég hugsa að það séu La vie en rose með Édith Piaf, My funny valentine og The beautiful ones með Prince.“

Viktoríu þykir gaman að syngja falleg lög og segist ekki vera með neinn sérstakan söngstíl, en henni þykir mikilvægt að vera einlæg og trú lögunum sem hún syngur. Undanfarið hefur hún tekið upp gömul íslensk lög sem hún setur í nýjan búning. „Það er mögulega eitt það skemmtilegasta sem ég geri og elska að gera raddir, eða svokallaðar „harmonies“,“ segir Viktoría, en draumurinn hennar er að gefa út plötu. 

Viktoría heldur upp á margt tónlistarfólk og hljómsveitir. Þar má helst nefna Norah Jones, Queen og Amy Winehouse. Hún segir Pálma Gunnarsson vera í sérstöku uppáhaldi þessa dagana. „Textarnir hans eru svo flottir og ég tengi við þá um þessar mundir“. Viktoría segir þó helstu fyrirmynd sína vera söngdívuna Beyoncé, en hún fór einmitt á tónleika með henni árið 2016. „Hún rétti mér hljóðnemann og ég söng eina línu fyrir 80.000 áhorfendur,“ segir Viktoría. 

„Það sem hún sagði þegar ég var búin hefur alltaf setið í mér, en hún sagði „sing it girl“ og mér fannst það vera merki frá alheiminum um að ég ætti að elta söngdrauminn.“ 

View this post on Instagram

A post shared by @viktoriakjartans

 Af hverju valdir þú að fara til Parísar í nám?

„Ég hef alltaf verið heilluð af París. Ég fór oft þangað sem barn vegna þess að mamma mín bjó þar og talar frönsku“. Hún segir það hafa kveikt áhuga sinn á borginni og segir annað hafa fylgt í kjölfarið, svo sem matinn og menninguna sem hún segir skemmtilega ólíka íslenskri menningu. Viktoría er heilluð af frönskunni en hún lærði frönsku í menntaskóla og talar því aðeins frönsku þegar hún dvelur í Frakklandi. „Ég veit að það er hálfgerð klisja að segjast elska París, en ég fann bara strax svo sterka tengingu við þessa borg,“ segir Viktoría sem var aðeins 11 ára gömul þegar hún var farin að skrifa í dagbókina sína að sig dreymdi um að flytja til Parísar. „Ég hef alltaf vitað hvað ég vil og það var eiginlega enginn annar valmöguleiki sem kom til greina en París. Mér líður alltaf eins og ég sé komin heim þegar ég kem þangað.“ 

Viktoríu hafði langað til að fara í tónlistarskólann Berklee College of Music í Boston, en draumurinn var þó alltaf að búa í París. Svo komst hún að því að skólinn í París væri partur af „Berklee Global Partners“ og ákvað að sækja um. „Ég hélt ekkert að ég kæmist inn en ákvað samt að sækja um og komst í prufur,“ segir Viktoría sem söng franskt lag bæði á frönsku og íslensku í prufunum. „Svo fékk ég þær frábæru fréttir að þeir vildu fá mig. Það var æðisleg tilfinning, eiginlega ólýsanleg,“ segir Viktoría sem brosti út í eitt næstu daga. „Ég er mjög spennt að fá að halda tónleika í draumaborginni, læra að búa til tónlist og fá að syngja í París. Það er mögnuð tilfinning.“

Hverju ertu spenntust fyrir við að búa í París?

„Vá þetta er ekki erfið spurning, það er öll menningin og fegurðin í þessari flottu borg og þá kannski helst matarmenningin,“ segir Viktoría sem elskar franska osta, makkarónur, éclair og franskar bretónskar pönnukökur. Viktoría hefur líka mikinn áhuga á ljósmyndun, en hún segir Frakkland hafa veitt sér mestan innblástur í ljósmynduninni. „Það er eitthvað við byggingarnar, kennileitin, birtuna og andrúmsloftið sem ég get ekki útskýrt með orðum.“ 

View this post on Instagram

A post shared by @viktoriakjartans

Áttu þér uppáhaldsstað í París?

„Ég elska að fara með mömmu á hverfisbrasserie-ið okkar á Vaudeville í 2. hverfi sem er yfir 100 ára gamalt,“ segir Viktoría. Móðir hennar, Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir, bjó um tíma í París og á Viktoría því ekki langt að sækja áhugann á París. Viktoríu þykir einnig gaman að ganga í gegnum Palais Royal og Place des Vosges sem er dásamlegur garður í miklu uppáhaldi hjá henni. Viktoría mælir einnig með því að fara á Hôtel de la Marine safnið á Concorde-torgi, sem er eitt nýjasta safnið í París. Hún lýsir upplifuninni af safninu „eins og að fara meira en 200 ár aftur í tímann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál