„Það krefst vinnu að líta vel út og líða vel. Þetta er fullt starf. Það má ekki svindla. Þetta er daglegt starf, frá mínútu til mínútu, sekúndu til sekúndu.“
Þetta skrifar dansarinn, tónlistarmaðurinn og pistlahöfundurinn Phyllis Sues á Huffington Post.
Sues segir lífið sjálft vera áskorun og það sé ýmist hægt að takast á við hana og gera eitthvað í því eða sitja á rassinum og gera ekki neitt. Hún ráðleggur okkur að taka áskoruninni, alveg burtséð frá því hvað við erum gömul.
„Ég finn ekki fyrir því að ég sé að verða níræð,“ skrifaði hún skömmu fyrir stórafmælið en Sues verður 92 ára þann 4. apríl næstkomandi.
„Ég finn hinsvegar fyrir því að mér líður jafn vel og áður líkamlega og jafnvel betur andlega. Ég æfi dans og hreyfi mig á hverjum degi. Þessi líkami þarf að vita hver ræður og að vera níræð en líða eins og ég sé tvítug er það besta sem hægt er að óska sér. Fólk er alltaf að spyrja mig hver sé galdurinn á bak við þetta hjá mér og svarið er einfaldlega: hreyfðu þig, lærðu og hlustaðu.“
Hún segir verðlaunin heilbrigða sál í hraustum líkama, segist fullkomlega sjálfselsk í því að líkami hennar og sál séu eitt og sama fyrirbærið og að hvorugt geti án hins verið. Sálin og líkaminn séu félagar sem leika sér og starfa sem ein heild. Það gagnist ekkert að sitja bara og ætla að gera allt á morgun, það þurfi að þjálfa hvoru tveggja frá fyrstu stundu annars sé þetta allt bara niður á við.
„Að dvelja við einhverja tölustafi og aldur er bara gildra. Það er ekki til neinn aldur, þetta snýst um að lifa lífinu til fulls hverja stund.“
Sues markaðssetti fatalínu þegar hún var fimmtug, gerðist tónlistarmaður og lærði bæði ítölsku og frönsku þegar hún var sjötug, fór í tangótíma og lærði loftfimleika um áttrætt og byrjaði svo í jóga þegar hún var 85 ára. Nú stundar hún jóga á hverjum degi.
„Það sem veitir mér innblástur er að læra eitthvað nýtt. Innblásturinn knýr svo aftur sköpunarkraftinn og sköpunin gerir lífið gott. Mér finnst gaman að gera tilraunir og óttast aldrei að prófa eitthvað nýtt. Þannig að það vafðist aldrei fyrir mér að læra loftfimleika þó ég væri orðin áttræð og að gerast tónlistarkona um sjötugt var heldur aldrei spurning eða nein tilviljun, mér var ætlað þetta.“
Phyllis dansar tangó, stundar jóga, sippar, gerir loftfimleikaæfingar, spilar tennis og fer í gönguferðir með púðluhundinn sinn. Hún segir jóga gefa okkur lífið sem við áttum ekki í gær.
„Það ræsir hverja frumu í líkamanum. Hver einasti vöðvi þarf fulla athygli. Ég lifi fyrir jóga og stunda það til að lifa.“
Sues hefur stundað dans frá því hún var unglingur og ferðast um heiminn í þeim erindagjörðum. Hún segist hafa komist að því að það sé gersamlega allt hægt svo lengi sem maður kann vel að meta sjálfan sig og það sem maður er að gera en Sues leggur jafnframt gríðarlega áherslu á þjálfun líkamans og ekki síður hugans.
„Ef þú þjálfar ekki líkama þinn daglega þá visnar hann upp. Ef þú þjálfar ekki hugann á hverjum degi þá missirðu hann. Þess vegna lærði ég bæði ítölsku og frönsku. Það er frábær heilaleikfimi að læra nýtt tungumál. Svo skoraði ég á sjálfa mig að læra að semja tónlist,“ skrifar Sues sem hefur bæði gefið út diska með tangótónlist og segist semja á hverjum degi.
„Að vinna og áorka einhverju bæði andlegu og líkamlegu gerir daginn þess virði að lifa honum til fulls. Ég gefst ekki upp. Það er hægt að standast tímans tönn. Haltu þér í formi og njóttu ferðalagsins. Segðu já við áskoruninni og kýldu á hana! Ég gerði það!" skrifar þessi fallega og frábæra fyrirmynd að lokum.
Hér má lesa nýjasta pistil hennar á Huffington Post og hér er Sues á Facebook.