„Þetta snýst bara um að vera sterkur“

Berglind lenti í þriðja sæti í keppninni Sterkasta kona Íslands …
Berglind lenti í þriðja sæti í keppninni Sterkasta kona Íslands síðastliðið haust. Ljósmynd/Aðsend

Það eru ekki margar konur sem keppa í aflraunum en hjúkrunarfræðineminn Berglind Rós Bergsdóttir er ein þeirra. Berglind náði þriðja sæti í keppninni Sterkasta kona Íslands í september en tíu mánuðum áður eignaðist hún sitt fyrsta barn.

Ólíkt kraftlyftingum þar sem keppt er í hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu geta keppendur í aflraunum þurft að lyfta grjóti, hlaupa með þunga hluti og jafnvel draga bíl. „Það er ekkert voðalega mikið af konum í sportinu á Íslandi sem er mjög leiðinlegt af því þetta er svo ótrúlega skemmtileg íþrótt, það er svo góður mórall. Ég hef verið að keppa í hestum síðan ég var pínulítil, þar er allt öðruvísi stemming enda færðu bara einkunn sem er bara mat dómarans. Í aflraunum er það bara tíminn eða kílóin sem skipta máli,“ segir Berglind og bætir við að það ríki mikil stemming í kringum keppninar.

Snýst um að vera sterkur

„Þegar maður er að keppa í aflraunum þá þarf maður að vera góður í öllum greinunum af því þú veist ekkert í hvaða grein þú ert að fara að keppa. Þetta snýst bara um að vera sterkur. Þú þarft að undirbúa þig með því að lyfta og þjálfa alla hluta líkamans. Í keppninni sjálfri snýst þetta um að hafa höfuðið rétt skrúfað á af því maður kemst mjög langt á þrjóskunni,“ segir Berglind sem æfir í Jakabóli sem er aflraunalíkamsræktarstöð sem Magnús Ver á. „Ég er að æfa eftir prógrammi frá einkaþjálfara sem heitir Einar Kristjánsson. Svo inn á milli tek ég svona aflraunaæfingar þar sem ég er bara að lyfta atlassteinum eða taka bóndagöngu.“

Aflraunafólk þarf meðal annars að búa sig undir að geta …
Aflraunafólk þarf meðal annars að búa sig undir að geta lyft þungu grjóti. Ljósmynd/Aðsend

„Eftir fyrsta árið mitt í menntaskóla hætti ég í körfubolta, prófaði CrossFit í nokkrar vikur, fór svo að æfa á stað sem heitir KraftBrennzlan á Selfossi. Árið 2014 byrjaði ég að þyngja og þyngja og þá var ein kona sem ég var að æfa með sem hafði verið að keppa áður og og var að skipuleggja Sterkustu konu Íslands,“ segir Berglind. Konan hvatti hana til að taka þátt og Berglind átti ekki eftir að sjá eftir því. „Ég var með og keppti og var í síðasta sæti en það var bara svo ógeðslega gaman að ég hef keppt á öllum mótum sem ég hef getað keppt á síðan þá.“

Æfði alla meðgönguna

Berglind þurfti að taka sér hlé frá keppni þegar hún varð ólétt af sínu fyrsta barni. „Ég tapaði ekkert rosalegum styrk þannig. Ég æfði alveg þangað til daginn áður en ég fór upp á fæðingardeild. Ég lyfti bara eins og líkami minn leyfði. Ég var alveg að passa mig en það er allt í lagi að gera það sem þú getur ef þú hefur getað gert það áður,“ segir Berglind og segir að hún hefði ekki farið að hlaupa maraþon á meðgöngunni þar sem hún hefur aldrei hlaupið maraþon. „Ég létti um alveg 50 kíló og gat ekki gert allar æfingarnar en ég mætti samt alltaf, það var bara eins og sálfræðitími fyrir mig að mæta í ræktina. Ég byrjaði að æfa þegar stelpan mín var svona þriggja, fjögurra vikna og byrjaði bara rólega. Ég er allan tímann búin að passa mig að vera ekki að meiða mig. Það gekk bara vel og ég náði að keppa fyrst í júní eftir að ég átti hana í nóvember og svo varð ég þriðja sterkasta kona Íslands í september.

Berglind æfir þrisvar til fimm sinnum í viku auk þess að vera í fullu námi í hjúkrunarfræði og með fjölskyldu. Það þarf því mikið skipulag til þess að púsla öllu saman. Berglind skipuleggur sig alltaf kvöldið áður. „Þannig þú farir ekki bara út í daginn og vitir ekkert hvað planið er. Ég er alltaf búin að ákveða kvöldið áður, skoða stundatöfluna, er ég að fara í tíma fyrir hádegi? Ef ekki þá skutla ég í leikskólann og fer þá beint á æfingu.“

Vill fá fleiri stelpur í aflraunir

Berglind segir að viðhorf fólks hafi breyst síðan hún byrjaði að stunda aflraunir þó svo það komi mörgum á óvart. Fyrir nokkrum árum hafi fólk haft orð á því að hún ætti ekki að vera að lyfta, það væri of karlmannlegt. Núna segir hún fordómana helst liggja í því að fólk telji hana vera að eyðileggja á sér bakið eða vera á sterum. „Það er svo erfitt stundum fyrir fólk að samgleðjast þegar einhverjum gengur vel,“ segir Berglind.

„Við erum allar mjög opnar og við erum allar mjög til í að fá fleiri stelpur í sportið,“ segir Berglind að lokum og hvetur allar þær stelpur, sem hafa áhuga á að reyna, að hafa samband við einhvern sem er í íþróttinni.

Berglindi finnst gaman að keppa í aflraunum.
Berglindi finnst gaman að keppa í aflraunum. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál