Ákvað að skipta um fyrirmyndir

María segir það mikilvægt að hlusta á líkamann og sinna …
María segir það mikilvægt að hlusta á líkamann og sinna hans þörfum, það sé stór hluti af því að virða hann. Ljósmynd/Aðsend

María Hjarðar er nemi í mann- og sagnfræði við Háskóla Íslands. Hún vinnur á sambýli á vegum Reykjavíkurborgar.

María fór að velta líkamsvirðingu fyrir sér þegar hún var 18 ára. Hún hafði gengið í gegnum áföll og ákvað um sumarið að ná stjórn á eigin lífi. Hún ákvað að byrja á andlegu heilsunni en fyrir henni var eðlilegt að hata líkama sinn. Hún hafði aldrei velt því fyrir sér af hverju hún hataði líkama sinn eða sig sjálfa því hún var handviss um að henni ætti að líða þannig.

Þegar hún ákvað að breyta um hugarfar fann hún mikinn mun á því að skipta um fyrirmyndir. „Fyrst um sinn skoðaði ég mikið chubby-bunnies.tumblr.com sem er femínískur líkamsvirðingarvefur fyrir feitar konur. Þá fór ég að fylgja feitum fyrirsætum á Instagram í stað mjórra. En ég þurfti líka að læra að hætta að bera mig saman við aðrar konur og minna sjálfa mig á það reglulega að ég á skilið virðingu sama hvernig ég lít út, bæði frá sjálfri mér og öðrum.“

María segir það mikilvægt að hlusta á líkamann og sinna hans þörfum, það sé stór hluti af því að virða hann. „Ef hann er svangur gef ég honum næringu. Ef hann er þyrstur gef ég honum vatn. Ef mér líður illa með hann þegar ég lít í spegil minni ég mig á að sýna honum ást og virðingu. Ég segi ekkert við sjálfa mig sem ég myndi ekki segja við einhvern sem mér þykir vænt um.“

Hún segir vera mikilvægt að átta sig á því að maður á ekki minni virðingu skilið þó að maður sé feitur. „Sú sannfæring er sennilega mikilvægust þegar það kemur að því að takast svo á við fordóma samfélagsins sem gætu fylgt því að elska sjálfan sig skilyrðislaust.“ Hún telur það vera mikilvægt að virða líkama sinn vegna þess að það fylgir gríðarleg vanlíðan því að vera stöðugt óánægður með sjálfan sig. „Og það að hata líkamann sinn breytist í sjálfshatur og of harða sjálfsgagnrýni á öllum sviðum,“ segir María.

María gagnrýnir þau skilaboð sem samfélagið sendir þeim sem passa …
María gagnrýnir þau skilaboð sem samfélagið sendir þeim sem passa ekki innan staðalímyndanna. Mynd/Ísold Halldórudóttir

Fær innblástur frá femínisma

María segist alltaf hafa verið þrjósk og helst ekki viljað gera það sem aðrir segja henni að gera, sérstaklega ef hún á ekki að hafa val um það. „Samfélagið sagði mér að vera óánægð með sjálfa mig of lengi, og það var virkilega frelsandi að leyfa sér bara að gagnrýna þessi skilaboð sem maður fær dag hvern. Ætli það sé ekki aðallega femínismi sem veitir mér innblásturinn fyrir að skammast mín ekki fyrir það eitt að vera ég eins og ég er.“

María gagnrýnir þau skilaboð sem samfélagið sendir þeim sem passa ekki innan staðalímyndanna. „Samfélagið sendir konu þau skilaboð að hún sé röng, og minna virði heldur en grannir, „réttir“ einstaklingar. Konu finnst hún aldrei standa sig nógu vel eða geta verið stolt af neinu sem hún gerir vegna þess að hún upplifir sig einskis virði hvort eð er vegna útlits síns. Ég skammaðist mín oft fyrir það eitt að vera til vegna þess að ég tók aðeins meira pláss en aðrir. Það er rosalega brenglaður og sársaukafullur hugsanaháttur sem ég er viss um að plagi margan feitan einstaklinginn,“ segir María.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál