Fór í aðgerð og uppgötvaði nýja leið

Harpa Hauksdóttir.
Harpa Hauksdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Harpa Hauksdóttir hefur óþrjótandi áhuga á heilsu og góðum lífsstíl. Eftir að hafa þurft að fara í aðgerð á fæti og fengið skjótan bata með LPG-tækinu ákvað hún að kaupa Líkamslögun sem sérhæfir sig í húðmeðferðum með tækinu. 

„Fyrir nokkrum árum þurfti ég að fara í smá aðgerð vegna æðaþrengsla á fæti. Læknirinn minn mælti með því að ég færi í LPG-tækið eftir aðgerðina til þess að fá meira líf í sogæðakerfið. Eftir nokkra tíma spurði sú sem var með mig í meðferðinni hvort ég sæi ekki mikinn mun. Mér fannst þetta skringilega orðuð spurning og sagði við hana að mér liði miklu betur, bólgurnar væru farnar og ég væri ekki með jafn mikinn bjúg. Þá sagði hún, en sérðu ekki muninn á húðinni? Þá fór ég að skoða hana og sá að húðin leit miklu betur út. Appelsínuhúðin var nánast horfin og húðin orðin miklu þéttari og fallegri. Þetta kom mér mikið á óvart því ég fór bara í LPG-tækið vegna þess að læknirinn vísaði mér þangað eftir aðgerðina,“ segir Harpa. Eftir þetta vaknaði forvitni og vildi hún vita meira um þetta tæki sem hafði hjálpað henni svo mikið. Það leiddi til þess að hún keypti fyrirtækið Líkamslögun sem er nuddstofa sem sérhæfir sig í sogæðanuddi. LPG-tækið er notað í húðmeðferðum, bæði fyrir andlit og fyrir líkama. 

„Ég er búin að fara tvisvar til Frakklands og læra og verð alltaf meira og meira heilluð af þessari tækni, hún hreinlega virkar. Ég var að taka inn eitt tæki í viðbót og er nú með þrjú tæki. Það er magnað hvað eitt tæki getur haft stór áhrif á líkamann og meðfram annarri hreyfingu hreinlega skipt sköpum í líðan,“ segir hún. 

Áður en Harpa festi kaup á Líkamslögun rak hún meðal annars Grand Spa á Grand hóteli og þekkir hún því vel til í líkamsræktarheiminum. Hún reynir að hugsa vel um sig og vill líka muna að það þarf ekki að æfa marga tíma á dag til þess að ná árangri. 

„Ég hef alltaf æft og í raun prófað allt mögulegt þegar kemur að heilsu og líkamsrækt. Ég hef fundið út að þessi hálftími á dag ef ekki er meiri tími gerir heilmikið og að halda sér við efnið er áhrifaríkara en að æfa daglega eins og fara eigi í maraþon í fyrramálið. Þá nefnilega er maraþonið minna mál. Og eftir þessu ætla ég að fara nú þegar ég hef gefið út að taka þátt á næsta ári,“ segir hún. 

Ljósmynd/Hulda Margrét Óladóttir

Þegar Harpa er spurð að því hvort íslenskar konur séu uppteknar af útliti sínu segir hún að þær séu bara mátulega uppteknar. 

„Ég er í hópnum sem bætir auðveldlega á sig og þarf að hreyfa mig mikið til þess passa í litlu buxurnar mínar,“ segir hún og hlær og segist sífellt vera að ala sjálfa sig upp og vera ekki of upptekin af því. Hún segir að kynsystur hennar séu miklu meira uppteknar af því að vera heilsuhraustar. 

„Það er gaman að sjá hvað öll umfjöllun um heilbrigði og nýjar leiðir til heilbrigðis vekja mikla athygli. Vellíðan og heilbrigði skila sér svo sem auka bónus fallegu útliti og sjálfstrausti. Þær sem hugsa vel um húðina og mataræði sitt hafa betra sjálfstraust og líður betur.“

Hvað gerir þú sjálf til að vera heilsuhraustari?

„Ég reyni að vera meðvituð frá degi til dags og reyni að hreyfa mig 2 - 4 sinnum í viku. Fyrir nokkrum árum fór ég að stunda sjósund sem er frábært. Ég er ekki í hópi þeirra sem synda sem lengst en ég syndi eitthvað og nýt þess að hafa þennan aðgang að ströndinni. Segi samt eins og allir hinir sem eru að busla þarna, vá hvað það væri gaman að hafa lengri opnunartíma. Ég fer svo auðvitað líka reglulega í LPG-tækið bæði með líkama og andlit,“ segir hún. 

Þegar hún er spurð út í mataræði sitt segist hún gæta þess vel að borða sjaldan unnar matvörur og meira lífrænt. Hún er þó ekki heilög og borðar súkkulaði stöku sinnum.  

„Skilaboðin um hvað við eigum og eigum ekki að borða eru oft ansi misvísandi. Ég held að það sem henti einum henti ekki öðrum. Ég er smám saman að finna út hvað fer best í mig enda ekki seinna vænna komin vel yfir tvítugt,“ segir hún og hlær. 

Hvernig heldur þú þér í formi?

„Ég æfi eins og áður segir nokkuð reglulega og finn þegar æfingin dettur út hvað hún hefur mikið að segja. Ég á þann draum að hlaupa hálfmaraþon og ætli það sé ekki bara best að gera það að markmiði hér og nú að hlaupa eitt svoleiðis á næsta ári á menningarnótt,“ segir hún. 

Harpa segist drekka tvö glös af sítrónuvatni á hverjum morgni. 

„Ég er alltaf með sítrónuvatn í könnu inni í ísskáp með lífrænni sítrónu. Ég geng svo nánast sofandi að ísskápnum og drekk þessi tvö glös, svo geri ég boost sem samanstendur af, engifer og helling af honum, þeim berjum sem ég á til í frysti, próteini, möndlum og rauðrófudufti. Ég geri yfirleitt nóg til þess að eiga í 2 - 3 daga og fæ mér glas daglega.“

Hver er mesta bylting í bjútíheiminum á síðustu árum?

„Er það ekki þessi tækni sem gerir svo mikið fyrir okkur? Og þar kemur LPG sterkt inn,  þegar meðferðin er alveg náttúruleg eins og hún er með LPG þá er um að gera að nota hana og taka tímann sem þarf fyrir sjálfa sig til þess að nýta nýjungar móralslaust,“ segir hún. 

Ljósmynd/Hulda Margrét Óladóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál