Þegar þú ert í átaki og jólin banka upp á

Þórey Kristín Þórisdóttir.
Þórey Kristín Þórisdóttir. mbl

„Jólin eru oft erfiður tími fyrir þá sem vilja taka sig á í mataræðinu eða hreyfa sig meira.  Ég þekki þetta alveg sjálf. Það flæðir allt í eplaskífum, jólakökum, jólakonfekti, laufabrauði, jólaglöggi og svo má lengi telja. Ef þú ert ein/n af þeim sem eru í togstreitu vegna jóla og mataræðis þá er það hugsanlega það versta sem þú getur gert þér. Togstreita veldur yfirleitt samviskubiti og ofan í það kemur stress sem er ekki gott fyrir meltinguna eða þyngdina,“ skrifar Þórey Kristín Þórisdóttir í sínum nýjasta pistli: 

Eitt meðferðarúrræði í sálfræðinni sem ég er mjög hrifin af (ACT) snýr mikið að gildum fólks. Þú getur haft gildi eins og „hreyfing“, „hollusta“ eða „hreysti“ en þú getur líka haft gildi eins og fjölskylda. Jólin er tími þar sem fjölskyldan er mikið saman og það að borða með öðrum er mjög félagsleg athöfn. Ég persónulega er ekkert stærsti aðdáandi eplaskífa. Þær eru fullar af hvítu hveiti og baðaðar í sykurleðju. Á hinn bóginn eru þær stór hluti af jólamenningunni hérna í Danmörku og ég sit ekki hjá og afþakka þegar sonur minn kemur hlaupandi til að færa mér eplaskífu í jólakaffi skólans. Þessi fjölskyldugildi mín vega mun þyngra á þessum árstíma en mín gildi varðandi gott mataræði.

Ég er ekki að hvetja neinn til að missa sig í gleðinni og enda með of háan blóðþrýsting út af söltuðum og sykruðum mat. Hins vegar bið ég ykkur um að staldra aðeins við og hugsa um jólin með öllum sínum freistingum í gildum frekar en samviskubiti.

Allur þessi jólamatur fer líka betur í gegnum meltinguna ef honum fylgir ekki samviskubit eða innri togstreita.

Jólin má að auki líta á sem góðan tíma til að reyna að halda í hreyfinguna. Það eru margir frídagar þar sem hægt er að fara í góðan göngutúr, sund eða ræktina. Það ætti að vega eitthvað upp á móti öllu þessu jólasukki.

Það ætti eflaust heldur ekki að koma neinum á óvart að það er gjarnan lítið að gera hjá heilsumarkþjálfum í desember miðað við janúar þegar er oft mjög mikið að gera. Ef þú ert ein/n af þeim sem ert búin/n að hugleiða lengi að taka sjálfan þig í gegn þá mæli ég með að hætta að fresta og taka þetta föstum tökum í janúar. Að byrja í desember er frekar óraunhæft miðað við allar freistingarnar en þó alls ekki ómögulegt. Það fer allt eftir markmiðunum, viljanum og forgangslistanum.

Fyrst og fremst eigum við samt að njóta jólanna á bæði andlegan og líkamlegan hátt. Stress, samviskubit og innri átök stuðlar ekki að gleðilegum jólum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál