Þór lærði tantra hjá jógamunkum

Þór Jóhannesson jógakennari.
Þór Jóhannesson jógakennari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þór Jóhannesson er einn vinsælasti jógakennarinn um þessar mundir. Hann er að fara af stað með námskeið í World Class á nýju ári þar sem hann kennir fólki að ná jafnvægi á hvolfi. Þór hefur góða nærveru. Hann er í flæðinu og stendur reglulega upp og sýnir líkamlega hvað hann meinar með orðunum.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Það kemur því ekki á óvart þegar hann útskýrir hvernig jóga var hans leið til að stíga út úr tungumálinu, í raun aðferð til að taka í burtu blekkingarhuluna, hleypa innsæinu að; til að sjá allt hið raunverulega í lífinu.

„Eins og lífið sjálft snýst jóga um ferðalagið, reynsluna og upplifanirnar, en ekki endilega endastöðina sjálfa,“ segir hann í upphafi.

Þeir sem stunda jóga undir handleiðslu Þórs segja að tímarnir séu eins og góð kvikmynd. Hver og einn getur farið á sitt stig í líkamlegu æfingunum. Andlega ferðalagið sé svo undir hverjum og einum komið.

Fólk talar um að finna tengingu við eitthvað gott og kærleiksríkt í tímunum hans, kærleikann, hið æðra, Guð, eða hvað sem fólk kýs að kalla almættið sem færir frið og kyrrð í hjartað.

„Ég lærði tantra hjá ananda marga-jógamunkum í Danmörku. Ananda, sem þýðir „sæla“, og marga, sem þýðir „leið“, er ákveðin aðferð sem byggist á fornri tantra-hugmyndafræði.“

Þór segir frumhugmyndir tantra fela í sér að tengja við hið æðra, að finna jafnvægi í ljósinu og myrkrinu; hinu karllæga og hinu kvenlæga sem er að finna innra með hverri manneskju. „Tantra tengist ekki kynlífi á þann hátt sem hinn vestræni heimur setur það fram. Í raun tengist það kynlífi ekki á neinn hátt að öðru leyti en því að í tantra er allt kærleikur. En auðvitað er kærleikur í kynlífi líka rétt eins og í kaffibollanum sem þú útbýrð fallega á kaffistofunni.“

Þór segir það að kyrra hugann og uppgötva að Guð er ást og að það býr kærleikur í öllu áhugaverða vegferð sem taki langan tíma að feta.

Þór er einnig menntaður í hatha-jóga, sem er sú tegund af jóga sem mest er iðkuð í hinum vestræna heimi.

„Maður lærir ekki jóga með því að fara á námskeið, maður klárar í raun og veru aldrei menntun sína í jóga. Þú heldur alltaf áfram að læra. Námið er bara fyrsta skrefið inn í þennan heim.“

Þór segir nýja hluti fram undan á þessu ári þar sem hann ætlar að opna fyrir hinum almenna iðkanda tíma sem hingað til hafa einungis verið kenndir á lokuðum námskeiðum. „Fókusinn er á að kenna fólki að hvolfa sér. Fyrsti tíminn verður 5. janúar. Tíminn heitir hot yoga-core og öfugar stöður og verður klukkan 13 á laugardögum í World Class í Laugum.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Að sigrast á óttanum

Hann útskýrir að þegar við stöndum á fótunum séum við í raun og veru komin með reynslu í að halda jafnvægi. „Líkamsminnið er þannig að við þurfum ekkert að hafa lengur fyrir jafnvæginu. Þegar við hvolfum okkur þurfum við hins vegar að læra frá grunnpunkti upp á nýtt að halda jafnvægi. Eitt af því fyrsta sem við þurfum að sigrast á er óttinn við að detta, alveg eins og við þurftum að gera þegar við vorum lítil börn að læra að ganga nema núna á hvolfi. Munurinn á fullorðnu fólki og börnum er að börnin hafa eldmóðinn til að ná jafnvæginu og örva sig í jafnvægisleitinni en við fullorðna fólkið sættum okkur við hálfa uppskeru. Þess vegna stoppum við okkur oft af í þessari vinnu með því að ná jafnvægi við veggi.“

Þór lýsir tímunum á eftirfarandi hátt. „Við byrjum á því að lenda á dýnunum. Síðan hitum við upp með sólarhyllingu, leggjum grunninn að öfugu stöðunum með því að styrkja miðjuna með „core“-æfingum, tökum fyrir eina til þrjár útvaldar stöður í hverjum tíma, gefum okkur svo 10-15 mínútur í að leika okkur, þar sem hver og einn getur ráðið hvar hann vill æfa sig með aðstoð. Síðan reynum við að klára með örstuttri „savasana“ eða lokaslökun.“

Hann segir að það að standa á höfði eða höndum hafi margvísleg áhrif á fólk; heilinn fái meira súrefni, hjartað hægi á sér í öfugri stöðu og það hafi sýnt sig að öfug staða hafi mjög góð áhrif á ónæmiskerfið. „Þar sem eitlarnir draga í sig óhreinindi og eiturefni úr líkamanum er einstaklega gott að velta sér við til að pressan frá aðdráttarafli jarðar færi þessa uppsöfnun eiturefna til innan kerfisins.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Mikilvægi þess að halda jógastöðum

Hvað geturðu sagt mér um tímana þína? Þú kennir líkamlegt jóga en þeir sem hafa mætt til þín í tíma tala um hvernig þú blandar hinu andlega við á mörgum stigum – í raun séu engir tveir að fara í sama tímann hjá þér.

„Í jógastöðunum miða ég allar æfingar að því að uppskera djúpu áhrifin á bak við hverja stöðu. Til dæmis með því að leyfa líkamanum að þrýsta á eða losa um, inn á líffæri eða innkirtlastarfsemi svo dæmi séu tekin.“

Þór stendur upp og tekur dæmigerða jógastöðu og útskýrir hvernig hnéð á honum styður við kviðinn og myndar þannig þrýsting sem losar ákveðna orku úr læðingi á tilteknu svæði.

„Í jógafræðunum er talað um hvernig líkaminn er í fimm lögum, hinum fimm „koshas“. Þá er verið að tala um efnislíkamann, orkulíkamann, hugarlíkamann, andlega líkamann og síðan fimmta lagið sem er alsælulíkaminn eða uppljómunin.“

Að mati Þórs förum við í gegnum jógastöðurnar ekki einungis til að opna og styrkja efnislíkamann heldur einnig orkulíkamann og í framhaldinu opna fyrir tengingu við andlega líkamann. „Með því að þjálfa líkamann erum við líka að vinna með orkulíkamann. Í orkulíkamanum finnum við jafnvægið á milli karl- og kvenorkunnar. Þú getur komið í tíma til mín og einungis æft efnislíkamann en þú getur einnig komið og tekið skrefið dýpra inn í þessi orkufræði.“

Þór reynir að halda sig við einfaldleikann í öllu því sem hann gerir en á auðvelt með að fara á flug þegar hann ræðir bæði upphafið að því að hann fór í jóga og síðan það sem er honum ofarlega í huga.

„Ástæðan fyrir því að ég fór að ástunda jóga á sínum tíma var að tími var kominn á mig að hætta að vera eitthvað sem ég ekki var. Að losa mig við úreltar hugmyndir sem pössuðu ekki lengur inn í líf mitt. Það var kominn tími á að ég hreinsaði til í kringum mig, brytist út úr gamalli arfleifð, m.a. því sem í dag er kallað eitruð karlmennska, og færi inn í meiri kyrrð nær kærleikanum.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Yin og yang

Þór útskýrir hugmyndir á bak við guðdómlega kven- og karlorku sem býr hið innra. „Við þekkjum flest hugtakið yin og yang úr austurlenskri heimspeki. Hugmyndin um karl- og kvenorkuna innra með okkur er í anda yin og yang: karlorkan gefur og kvenorkan tekur við og skapar. Grundvöllur hinnar guðdómlegu orku, sem hefur einmitt snúist svo átakanlega við í okkar samfélagi. Þessar öfugsnúnu birtingarmyndir orkunnar eru svo augljósar þeim sem hafa kynnst þessum fræðum, sem m.a. útskýra togstreituna milli hins karllæga og kvenlæga í heiminum sem við búum í. Ég fer aðeins inn á þetta í tímunum mínum, en á mjög varfærnislegan hátt, því hugtökin eru gildishlaðin og skiljanlega erum við mannfólkið á mismunandi stöðum í þessum málum. Ef við æfðum okkur aðeins meira í þessu myndi að mínu mati skapast meiri friður á milli þessara ólíka póla; fyrst innra með okkur og síðan manna og kynja á milli. Hinn raunverulegi andlegi vöxtur er fólginn í því að þessar tvær tegundir orku styðji hvor aðra en séu ekki í innbyrðis baráttu.“

Þór er með stórt tattú á bakinu sem táknar þessa vegferð hans að innri karlmennsku og sigurinn yfir henni, sem leysti úr læðingi og kom honum í samband við sína innri kvenorku. Myndin sjálf er endurgerð styttu eftir Einar Jónsson sem heitir „Úr álögum“. „Myndin er um riddarann sem sigrað hefur drekann og leyst konuna úr álagahamnum.“

Jóga leiðin út úr óheilbrigðum lífsstíl

Hann segir jóga eina af mörgum leiðum til að upplifa gott líf, heilbrigt mataræði skipti einnig máli og það hvernig maður hagar sér í þessu lífi. „Sem jógi trúi ég á karma, ég vil ekki búa til slæmt karma í kringum mig og af þeim sökum borða ég ekki kjöt sem dæmi. Eins vil ég ekki dvelja í fortíðinni, ég vil ekki skilgreina mig út frá einhverju sem gerðist í fortíðinni. Ég reyni eftir bestu getu að hreinsa upp í kringum mig og í mínu tilviki var jóga leiðin út úr ákveðum lífsstíl sem einkenndist af fíkn og óheilbrigðu lífi. Ég fagna allri umræðu sem hefur verið að undanförnu um margvíslegar leiðir út úr fíknihegðun. Í jóga erum við að hreinsa karma, ná jafnvægi í orku og tengjast hinu æðra. Í mínu tilviki er tantra leiðin. Ég hafði farið hina hefðbundnu 12 spora leið – en mér leið illa í þeirri orku sem ég fann á 12 spora fundum þar sem karlorkan var m.a. mjög hrá og „aggressív“. Það varð til þess að ég dvaldi í sífelldri gremju og togstreitu, bæði innra með mér og við ytra umhverfi. Ég hélst því illa edrú innan þessa samfélags þótt mér finnist 12 spora hugmyndakerfið til fyrirmyndar. Í dag, án þess að vera að telja sérstaklega, fagna ég lengsta tímabili mínu í heilbrigðum lífsstíl,“ segir hann. Þór fagnaði fjórum árum án allra hugbreytandi efna 8. desember síðastliðinn.

Þór er ekki fórnarlamb þegar hann ræðir þennan hluta lífs síns, heldur er hann á því að allir séu að reyna sitt besta en við mannfólkið séum langt frá því að vera andlega upplýstar verur. „Enda trúi ég því að mannfólkinu dugi varla ævin öll til að ná því markmiði að verða upplýst (enlightened).

Jóga gaf mér líf mitt til baka og það er það sem ég reyni að gefa áfram í mínum tímum. Að stíga út úr tungumálinu og fá tækifæri til að hreyfa sig í átt að betri andlegum og líkamlegum þroska er hluti af ferðalaginu í leitinni að tilgangi lífsins. Gleymum ekki að jóga snýst um ferðalagið, reynsluna og upplifanirnar og að kærleikurinn er alltaf allt,“ segir hann að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál