Líður þér illa í vinnunni?

Ef þér líður illa í vinnunni gætir þú fundið fyrir …
Ef þér líður illa í vinnunni gætir þú fundið fyrir hinum ýmsu líkamlegu kvillum. ljósmynd/Pexels

Það eiga allir sína slæmu daga í vinnunni, það er þó ekki þar með sagt að viðkomandi þoli ekki vinnu sína. En þegar dögunum fjölgar og slæmur dagur verður að slæmri viku og slæm vika að slæmum mánuði, þá þurfum við að staldra við og velta hlutunum fyrir okkur.

Of mikið stress og álag getur eyðilagt heilsu fólks. Allt of margir eru fastir í starfi sem þeim líður ekki vel í og er að eyðileggja heilsu þeirra. Við áttum okkur oft ekki á því sjálf hver streitueinkennin geta verið. Líkaminn er stundum einu skrefi á undan okkur, það er því mikilvægt að fylgjast vel með heilsunni til að vita hvað er í gangi. Ef þú hefur upplifað eftirfarandi einkenni þarftu að velta fyrir þér hvort þú sért hamingjusamur/söm í starfinu þínu.

Þú getur ekki sofið

Það fyrsta sem sálfræðingar heyra um er að fólk getur ekki sofið. Fólk getur ekki sofnað eða vaknar á nóttunni því það getur ekki hætt að hugsa um vinnuna sína og öll verkefnin sem eru fram undan. Ein og ein nótt er ekkert til að hafa áhyggjur af, en þegar þær eru orðnar fleiri en færri er tími til að athuga málið.

Þú færð höfuðverki

Líkaminn reynir að verja okkur fyrir meiðslum með því að stífna upp. Þegar þú lítur á vinnustaðinn sem stað átaka getur líkaminn stífnað upp, sérstaklega í herðunum og hálsinum. Þar af leiðandi er líklegt að þú fáir höfuðverk.

Þú færð verki alls staðar

Stífleikinn orsakar ekki bara höfuðverki heldur einnig verki um allan líkama. Ef við erum sífellt stressuð og samskipti við yfirmenn eða samstarfsfólk eru kvíðavaldandi bregst taugakerfið við með þessum hætti.

Andlega heilsan versnar

Auknu álagi og stressi fylgir verri andleg heilsa. Þú ferð að kvíða fyrir því að fara í vinnuna. Þú kvíðir samskiptum við yfirmenn eða samstarfsfólk. Það getur leitt til þess að þér líður einnig illa utan vinnu.

Þú verður veikur mun oftar

Ef þú færð oft flensu, veltu fyrir þér hvernig þér líður í vinnunni. Fjöldi rannsókna sýnir að viðvarandi stress getur haft þau áhrif á ónæmiskerfið að þú verður oftar veikur.

Þú missir áhugann á kynlífi

Álag og stress getur haft áhrif á kynlíf og kynlífslöngun hjá öllum kynjum. Konur sem upplifa mikið stress í vinnunni og heima fyrir finna oft fyrir minni áhuga á kynlífi. Stress til langs tíma hjá körlum hefur einnig leitt af sér minni framleiðslu á testósteróni sem minnkar kynhvötina.

Þú ert alltaf þreyttur

Mikil og stöðug þreyta getur verið eitt einkenni þess að þér líður ekki vel í vinnunni.

Líkaminn er stundum einu skrefi á undan okkur, það er …
Líkaminn er stundum einu skrefi á undan okkur, það er því mikilvægt að fylgjast vel með heilsunni til að vita hvað er í gangi. ljósmynd/Pexels

Hvað er til ráða?

Taktu þér frí

Ef þú finnur fyrir öllum þessum einkennum og ert nokkuð viss um að vinnan sé orsakavaldurinn prófaðu að taka þér nokkurra vikna frí, ef þú getur. Það gefur líkamanum tíma til að vinna úr öllum neikvæðu áhrifunum. Náðu almennilegri slökun, hugleiddu og hreyfðu þig.

Breyttu neikvæðum hugsunum

Hugræn athyglismeðferð getur hjálpað þér að takast á við neikvæðar hugsanir sem orsaka hvernig þér líður. Sumir geta ekki hætt í vinnunni eða tekið sér frí. Fyrir þá er best að leita sér aðstoðar við að breyta hugarfarinu varðandi vinnuna.

Hættu

Líttu á þessar viðvörunarbjöllur sem merki um að þú eigir að hætta og finna þér aðra vinnu. Eins og áður hefur komið fram þá á þessi staða ekki við alla.

Heimild: Huffington Post.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál