Sterkari eftir erfiða lífsreynslu

Vala er ein af þeim konum sem framkvæmir í lífinu …
Vala er ein af þeim konum sem framkvæmir í lífinu og lætur ekkert stoppa sig. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vala Sólrún Gestsdóttir tónlistarkona fékk heilaæxli árið 2018 sem hún lýsir eins og stormi þar sem hún upplifði alls konar tilfinningar. Hún segir það hafa gefið sér styrkinn til að treysta innsæi sínu og drifkraftinn til að framkvæma. Í leit sinni að fallegra lífi hafi hún svo fundið tónheilun sem hún býður nú upp á í Shalom. 

Vala segir að árið 2020 hafi verið öðruvísi og afar lærdómsríkt. Hún lítur á árið sem hreinsunarárið mikla.

„Við vorum lokuð inni og þurftum að vera mikið með sjálfum okkur og sambýlisfólki. Það er breyting á þeim lífsstíl sem við þekkjum. Breytingar hrinda af stað keðjuverkun. Það er svo allur gangur á því hvað hver og einn gerir með sína breytingu. Ég er ekki ein um það að finnast ég hafa fengið langþráða þögn til að heyra í sjálfri mér og rými til að leita inn á við. Þetta ástand nýttist mér vel í minni sjálfsvinnu og námi. Ég fagna einfaldleikanum. Megi hann vera kominn til að vera!“

„Þeir sem eru í takt­in­um eru í flæðinu, með vind­inn …
„Þeir sem eru í takt­in­um eru í flæðinu, með vind­inn í bakið, en hinir þurfa að berj­ast áfram og finnst ekk­ert ganga upp.“ mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vala greindist með heilaæxli árið 2018 þegar yngra barnið hennar var einvörðungu tveggja vikna gamalt.

„Æxlið reyndist góðkynja og þótt ég hafi verið heppin þar tel ég verkefnið hafa tekið á mig því það kom samhliða því að sinna ungbarni og dóttur minni sem þá var fjögurra ára. Ég missti heyrn á öðru eyra en þess vegna fannst æxlið þegar kannað var hvað amaði að heyrninni.

Ég fór í höfuðuppskurð og svo í geislahnífsmeðferð í Hamborg. Það bendir flest til þess að sagan af æxlinu endi þarna en þetta var hundleiðinlegt verkefni að takast á við. En við tók við uppbygging og nýr taktur hjá mér og fjölskyldunni minni.“

Í hljóðheilun færðu vindinn í bakið

Það er ekki að undra að Vala Sólrún Gestsdóttir tónlistarkona starfi við hljóðheilun í dag, enda segir hún hljóð hafa heilunarmátt og þannig geti hún samhæft starfið og ástríðuna sem hún hefur alltaf fundið fyrir tengt hljóðfærum. Hún starfar hjá Shalom meðferðarstöð þar sem hún býður upp á áhugaverða meðferð með tónum.

„Ég hef alltaf spilað á hljóðfæri en mitt fyrsta hljóðfæri var víóla. Ég hef menntun í hljóðfræðum, BA í tónsmíðum og mastersgráðu í sköpun, miðlun og frumkvöðlastarfsemi frá Listaháskóla Íslands. Ég er að vinna með tónhvísl eða hljóðgaffla sem virkja orkukerfi líkamans. Einfalda útskýringin er að upplifunin er endurnærandi djúpslökun en áhrifin geta líka grafið upp bældar tilfinningar og sársauka sem vilja heilun; tilfinningar sem þarf að horfast í augu við til að komast áfram og auðveldar okkur að komast á næsta stig og þroskast.

Vala býður upp á hljóðheilun í Shalom.
Vala býður upp á hljóðheilun í Shalom. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásamt hljóðgöfflunum spila ég meðal annars á kristallsskálar til að dýpka upplifunina enn frekar. Ég elska að spila á þær.“

Hvert er upphafið að tónheilunarferðalagi þínu?

„Þetta ferðalag er löngu byrjað og byrjaði miklu fyrr en ég var meðvituð um. Menntun mín sameinast öll í hljóðheiluninni og líka það hver ég er. Ég hef alltaf leitað í ljósið, viljað tjá mig með sköpun og viljað hjálpa öðrum og gefa af mér.

Í hljóðheilun fæ ég að nýta menntun mína og persónueinkenni og ég fæ að skapa. Allt mitt líf hef ég stefnt hingað. Lífið er eins og allt annað á stöðugri hreyfingu, orka sem flæðir áfram og ég hef lent í nokkrum stormum þar sem ég fékk að upplifa alls konar. Þannig öðlaðist ég styrkinn til að treysta innsæinu og drifkraftinn til þess að framkvæma, hefja leit að fallegra lífi.“

Hvað gerir hljóðheilun?

„Allt hefur sinn takt. Hjartsláttur, flóð og fjara, árstíðir og hringrásir. Við erum öll flísar úr sama berginu og erum þannig öll hið sama. Við höfum týnt alheimstaktinum og erum úr takti. Við vitum alveg hverjir eru í takti og hverjir ekki, við finnum það. Orkan segir okkur það. Þeir sem eru í taktinum eru í flæðinu, með vindinn í bakið, en hinir þurfa að berjast áfram og finnst ekkert ganga upp. Ég hef verið þar og vá hvað það er erfitt. Allt verður erfitt.

Hljóðgafflarnir bera heiti pláneta, tungla og sólar í sólkerfinu okkar. Þeir gefa frá sér sömu hljóðbylgjur, tíðni og fyrirbærið í sólkerfinu sem þeir heita eftir. Bylgjur gafflanna ferðast inn í líkamann og inn að kjarna okkar sem man taktinn. Þannig getum við komist inn í taktinn okkar, í flæðið, og leyst upp tilfinningaflækjur, stíflur sem hefta flæðið í taktinum.

Viljum við ekki lifa í takti við okkur sjálf og alheiminn?

Lífið þarf ekki að vera barátta en getur og á að vera fallegt flæði ef við erum tilbúin að gera heimavinnuna okkar.

Ég vil taka það fram að hljóðheilun getur ekki skaðað á nokkurn hátt.“

Er komin heim í sig sjálfa

Hvaða áhrif hefur tónheilun haft á líf þitt?

„Öll mín menntun, sjálfsvinna, reynsla og leit í ljósið hefur komið mér í takt við sjálfa mig og

þannig fann ég leiðina sem ég veit að er mín rétta leið. Það var mikil vinna þar að baki, en svo þess virði að horfast í augu við sjálfan sig nákvæmlega eins og maður er. Ég vissi alltaf og fann að takturinn var ekki réttur alveg eins og ég finn núna að ég flýt áfram í öruggum alheimstakti. Ég er komin heim í mig sjálfa.“

Hvað er góð heilsa í þínum huga?

„Við erum hugur, sál og líkami. Sálin getur verið kærleikur og ljós og líkaminn er umgjörðin. Allir þessir þættir þurfa að vinna að sameiginlegum markmiðum svo jafnvægi geti skapast. Jæfnvægi færir okkur síðan góða heilsu og vellíðan.“

Andstæðan við góða heilsu er svo ójafnvægi og alls konar ruglingur að mati Völu.

Fjölskyldan á brúðkaupsdag Völu og Einars Björgvins nýverið. Á myndinni …
Fjölskyldan á brúðkaupsdag Völu og Einars Björgvins nýverið. Á myndinni eru þau Embla, Vala, Lilja Sól, Úlfar Nói og Kolbrún Una ásamt brúðhjónunum. mbl.is/Erna Soffía
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál