Það er áfall að greinast með krabbamein

Hildur Björk Hilmarsdóttir var aðeins 23 ára gömul þegar hún greindist með bráðahvítblæði. Við tók löng og erfið geisla-og lyfjameðferð sem bar árangur og Hildur náði heilsu á ný. En það varði aðeins í rúm tvö ár, uns hún var aftur greind með bráðahvítblæði. Það kallaði á mergskiptaaðgerð í Svíþjóð með tilheyrandi lyfjameðferð í kjölfarið, sem reyndi afar mikið á líkama og sál. Þegar Hildur var sem veikust hét hún því að ef hún myndi hafa þetta af, þá ætlaði hún að gera hvað hún gæti til að styðja við fólk sem væri í sömu sporum og hún.

Árið 1999 varð svo til Kraftur – Stuðningsfélag fyrir ungt fólk með krabbamein og aðstandendur. Hildur var stofnandi og fyrsti framkvæmdastjóri félagsins, sem barðist meðal annars fyrir auknum andlegum stuðningi við sjúklinga og aðstandendur og betri endurhæfingu sjúklinga eftir meðferð. Félagið hefur vaxið og dafnað síðan og er eitt allra öflugasta aðildarfélag Krabbameinsfélags Íslands.

Hildur, sem er upphaflega kennari að mennt, er nú komin í stjórn Krabbameinsfélagsins, er farsæl í starfi og á fallega fjölskyldu. En hún er sérstaklega stolt að hafa stofnað Kraft, félag sem hefur hreinlega breytt lífi fjölda fólks sem greinst hefur með krabbamein ungt að árum í blóma lífsins.

Hildur Björk Hilmarsdóttir er eitt af 70 andlitum Krabbameinsfélagsins á afmælisárinu 2021. Við ætlum að birta 70 myndir eða myndskeið af fólki sem hefur komið við sögu í baráttunni gegn krabbameinum í 70 ára sögu félagsins. Krabbameinsfélagið er rekið fyrir sjálfsaflafé með stuðningi frá íslenskum almenningi og fyrirtækjum. Við hvetjum fólk til að fylgjast með á instagram og facebook, myllumerkið er #70andlit

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál