Byrjaði í neyslu 13 ára og endaði í fangelsi

Tinna Guðrún og Hlynur Kristinn Rúnarssons stjórna Það er von. …
Tinna Guðrún og Hlynur Kristinn Rúnarssons stjórna Það er von. Eva Löve er í miðjunni.

Eva Löve prófaði fyrst hugbreytandi efni aðeins 13 ára gömul. Hún var ekki gömul þegar hún var komin á götuna en ásamt því að neyta fíkniefna beitti hún ofbeldi. Eva er 28 ára gömul í dag og segir sögu sína í hlaðvarpsþáttunum Það er von.

Eva var krefjandi barn, ólst upp í Reykjavík til 13 ára aldurs en þá lá leiðin til Akureyrar með móður og systkinum. „Uppeldið var bara A og Ö, eftir því hvort ég var að tala við mömmu eða pabba,“ segir Eva. Móðir Evu reyndi allar leiðir sem ráðlagt var til að ná til hennar en þegar ekkert gekk náði hún í föður hennar. Hann var raddsterkur og það tók oft ekki langan tíma fyrir Evu að fara eftir hans fyrirmælum.

Eftir einelti og eftir að Eva varð utanvelta félagslega prófaði Eva hugbreytandi efni aðeins 13 ára gömul. „Loksins var friður í hausnum á mér,“ segir Eva sem ánetjaðist efnunum. „Þegar ég vildi komast í efnin mín þá var ekkert sem stoppaði mig, mamma reyndi oft að vera fyrir mér en ég færði hana. Við lentum oft í slagsmálum á meðan litli bróðir minn var grátandi inni í herbergi.“

Eva var send á Stuðla þar sem hún upplifði meiri reiði. Henni leið ekki eins og hún fengi aðstoð þar og kynntist fleira fólki og nýjum neysluleiðum. Á öllum þeim stöðum sem Eva var send á sem unglingur upplifði hún alltaf að komið væri fram við hana eins og hún væri einskis virði og illa komið fram við krakkana.

15 ára gömul kom Eva heim úr vistun eftir langan tíma og fór í samband með eldri strák og byrjaði að búa. Neyslan þróaðist og lífið breyttist mikið. „17 ára labbaði ég inn á fyrsta AA fundinn minn og tengdi við alla og himnarnir opnuðust í annað skipti á ævinni en ég seldi mér það að ég væri svo ung að kannski gæti ég alveg stjórnað þessu.“

Eftir þetta tók við algjört stjórnleysi, neyslan jókst mikið, hún notaði allt sem hún komst í. „Ég höfuðkúpu- og rifbeinsbraut sambýliskonu mína,“ segir Eva um þetta tímabil. Hún náði ekki að fyrirgefa sjálfri sér fyrir þetta og endaði á götunni, 18 ára gömul.

Á götunni þróast neyslan þannig að hún vaknaði upp eftir þrjá mánuði af óminnisástandi og var hún farin að sprauta sig. „Ég ranka við mér á dýnu sem er búið að æla á og pissublaut, sé að höndin á mér var götótt eins og svissneskur ostur.“

Eftir þetta áfall varð Eva fyrir líkamsárás en slapp naumlega. Hún var ekki tilbúin að játa sig sigraða og vildi hefna sín. Hún átti samt sem áður pláss á Hlaðgerðarkoti þremur dögum seinna. Nóttina áður en hún átti pláss í meðferð reyndi Eva að taka eigið líf til þess að losa fólkið sitt undan þjáningum en það fór ekki eins og hún ætlaði.

Eins og margir einstaklingar með fíknisjúkdóm reyndi Eva að stjórna neyslunni sjálf. Kláraði ekki meðferð í þessari tilraun en var enn hrædd. Faðir hennar setti mörk í fyrsta skipti og það var mikill skellur fyrir hana þó hún skilji það vel í dag. Á ákveðnum tímapunkti flúði Eva vanlíðanina og aðstæðurnar og fór til Spánar. 

Eva gafst upp á að reyna að eignast eðlilegt líf og hélt að þetta yrði hennar hlutskipti. Eva átti í stormasömum samböndum við karlmenn og fann fyrir mikilli gremju, ótta og reiði. „Ég var farin að meiða aðra til þess að fyrirbyggja að þeir myndu meiða mig. Ég stjórnaðist af ótta og það kom út í reiði,“ segir Eva.

Eva hafði lent í því sem unglingur að fara í óminnisástand af reiði. „Það brast eitthvað innra með mér, tók með mér hafnaboltakylfu og hníf og set á mig grímu.“ Eva var dæmd í fimm ára fangelsi, á þessum tíma sá hún sig sem fórnarlamb en hefur allt aðra sýn á málið í dag og hefði viljað bregðast öðruvísi við. Í þættinum segir hún hvernig það var að vera í fangelsi, sitja með því sem hún hafði gert og hvernig hún gat nýtt sér fangelsisvistina. Hún klúðraði nokkrum tækifærum sem hún fékk en græddi það að hún neyddist til að horfast í augu við sjálfa sig.

Það má hlusta á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál