Pása frá glansheiminum

Marta María Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is.
Marta María Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is. Ljósmynd/Kári Sverriss

Sumarfrí er tími endurhleðslu og nýrra hugmynda. Að fá frí frá daglegu amstri fær fólk til að hugsa öðruvísi og mögulega breyta eins og einum eða tveimur ósiðum. Eitt af þeim atriðum sem fólk mætti venja sig af er að vera alltaf með símann í andlitinu.

Ég man ekki hvenær ég heyrði það fyrst að fólk ætti alls ekki að sofa með símann í svefnherberginu sínu. Ætli þetta hafi ekki verið í kringum 1996 þegar fyrstu GSM-símarnir voru að ryðja sér til rúms. Í þá daga voru það aðallega greifar landsins sem gátu leyft sér slíkan munað að geta talað við fólk á meðan þeir keyrðu um bæinn eða fóru í bankann. GSM-sími var stöðutákn þess tíma. Svo breyttist það.

Svo fór að bera á upplýsingum um að símanotkun væri kannski ekki sérlega heilsusamleg. Einhverjir sögðu að rafbylgjur símanna væru krabbameinsvaldandi og fleira í þeim dúr. Einhvern tímann las ég viðtal við konu sem vildi meina að hún hefði fengið brjóstakrabbamein því hún var alltaf með símann í brjóstvasanum á skyrtunni sinni. Ég hef ekki hugmynd um hvort það er rétt eða ekki. Það eina sem ég veit er að áhyggjur fólks varðandi GSM-síma hafa færst úr því að vera líkamlega heilsuspillandi yfir í það að það sé slæmt fyrir andlega heilsu að vera alltaf í símanum. Það er meira að segja talað um það að ungbörn geti upplifað tengslarof ef móðir er í símanum þegar hún gefur brjóst. Svefnsérfræðingar segja að fólk eigi alls ekki að vera í símanum fyrir svefninn ef það vilji sofa vel.

Síðan ég eignaðist GSM-síma hef ég hlaðið símann á náttborðinu. Ég hef notað hann óspart og hagað mér hræðilega illa. Farið í símann um leið og ég vakna og jafnvel sofnað út frá honum á kvöldin.

Í sumarfríinu, þegar fólk hefði átt að ná hinni fullkomnu slökun, var ég hinsvegar komin með verk í öxlina. Verkurinn var auðvitað vegna streitu og álags. Hann var líka vegna slæmrar líkamsstöðu sem ég var búin að koma mér upp til þess að geta verið í símanum án þess að vekja manninn minn. Þetta gekk svolítið út á að liggja á öxlinni á hlið og hafa símann mjög nálægt gólfinu svo birtan truflaði hann ekki.

Eftir að hafa rætt þetta nokkuð ítarlega tókum við ákvörðun um að setja upp hleðslustöð frammi á gangi. Þar yrðu símar hlaðnir yfir nóttina og í stað þess að hanga í símanum að gera ekkert uppbyggilegt neyddist ég til að lesa bækur á pappír. Þetta var mjög erfitt fyrstu vikurnar og ég saknaði þess innilega að geta ekki lækað myndir og sent hnyttin skilaboð á vini. Svona er maður ófullkominn.

Það sem gerðist í kjölfarið var að við hjónin fundum bæði fyrir mjög miklum létti. Það getur verið svo íþyngjandi að vera hluti af heimi og taka inn upplýsingar sem þú hefur kannski engan áhuga á að hafa. Við upplifðum það að lifa miklu betra lífi þegar við gátum bara verið tvö í okkar búbblu. Í okkar búbblu er enginn að sperra sig, enginn að ráðast á neinn, ekki verið að „cansela“ neinum og enginn að monta sig af því að hann eigi betra dót en þú.

Ef síminn er farinn að vera aðeins of fyrirferðarmikill fyrir þinn smekk mæli ég með því að þú hvílir símann þinn og gefir þér frí frá glansheiminum. Við fullorðna fólkið þurfum líka okkar takmarkaða skjátíma eins og börnin. Ef við ætlum að ala börnin okkar vel upp þá þurfum við að byrja á okkur sjálfum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál