Er smástreita að eyðileggja svefninn og drepa gleðina í lífi þínu?

Ágústa Johnson framkvæmdastjóri Hreyfingar.
Ágústa Johnson framkvæmdastjóri Hreyfingar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Erum við almennt nógu vel vakandi gagnvart ýmsum streituvöldum og/eða streitueinkennum eða þekkjum við einkennin yfir höfuð? Margir álíta sem svo að streita sé ekkert til að hafa áhyggjur af nema þegar stór áföll dynja á okkur s.s. andlát nákominna, erfiður skilnaður, atvinnumissir og langvarandi fjárhagsáhyggjur sem án nokkurs vafa má telja víst að séu verulegir streituvaldar sem trufla svefninn og geta haft alvarleg áhrif á andlega heilsu þína,“ Ágústa Johnson framkvæmdastjóri Hreyfingar í sínum nýjasta pistli: 

Vísindin leiða þó líkur að því í vaxandi mæli að annars konar streita, þ.e. litlu áreitin í lífinu, stundum nefnd smástreita (e.micro-stressor) sé í raun talsvert lúmskari og hafi meiri áhrif en okkur grunar.

Með öðrum orðum, það þarf í raun ekki stórkostlega ógæfu í líf okkar sem mælist 10 á streituskalanum til að valda okkur mikilli andlegri vanlíðan og svefnleysi. Röð lítilla streituvaldandi atvika sem dynja á okkur stöðugt yfir skamman tíma geta haft mjög neikvæð áhrif á líðan okkar, skap og svefnmynstur.

Hvað er smástreita?

Smástreitu má lýsa sem litlum atvikum sem ein og sér myndu vart valda mikilli streitu en þegar þau dynja á okkur hvað eftir annað á skömmum tíma geta þau valdið andlegu heilsunni okkar skaða. Því oftar sem slík atvik koma upp því meiri vanlíðan geta þau valdið, t.d. svefntruflunum og erfiðleikum með að festa svefn. Slíkt mynstur getur fljótt undið upp á sig og valdið mikilli vanlíðan sem leitt getur af sér kvíða og alvarlegra andlegt ástand ef ekkert er að gert.

Dæmi um smástreitu 

Þú ferð á fætur að morgni, seinna en þú ætlaðir og hefur þig til fyrir vinnuna, rekur augun í að stór blettur er í fötunum sem þú ætlaðir að klæðast. Ert í tímaþröng og í vandræðum með að finna viðeigandi klæðnað. Á leið til vinnu lendir þú í slæmri umferðarteppu sem tefur þig enn frekar svo þú mætir of seint á fund með yfirmanni þínum sem biður þig um að taka að þér aukaverkefni en þú hefur ekki enn lokið við verkefnið sem þú áttir að skila af þér í gær.  Þú ofhleður dagskrána þína iðulega og finnst þú bregðast fólki þegar ekki næst að klára allt. Liggur andvaka, ofhugsar samræður sem þú áttir og rífur sjálfa(n) þig niður vegna þess.  

Minni háttar atriði sem þessi ættu ein og sér ekki að buga okkur eða fylla okkur vanlíðan og kvíða, en röð af þeim gæti gert það.

Smástreitu mætti e.t.v. lýsa sem litlum sprungum sem myndast í gleri, þær veikja það en brjóta það ekki. Haldi sprungur áfram að myndast mun glerið á endanum springa. Á sama hátt geta slíkir brestir orðið á þínu sálartetri eftir langt tímabil hlaðið af litlum ertandi og streituvaldandi atvikum. Flestir geta tekist á við áreiti í ákveðinn tíma en ef það safnast upp til lengri tíma nær það þér að lokum og þú endar sem taugahrúga þjökuð af svefnleysi og þaðan af verra.

Hvernig tökumst við á við svefntruflanir og smástreitu? 

Leyfum ekki streitunni að safnast upp. Lærðu að þekkja og stjórna áreitinu þegar það verður á vegi þínum. Taktu eftir því, þá geturðu einangrað tilvikin og lært að þekkja þau.  Gott ráð er að skrásetja á kvöldin líðan þína og tilfinningar. Með því að skrifa niður neikvæðu tilfinningarnar færðu útrás og jákvæða leið til að sleppa út pirringi, reiði og gremju. Það tekur úr biturðina og takmarkar þá stjórn sem slíkar tilfinningar hafa á þér.  Talið er að slíkt geti losað þig undan því að vera andvaka vegna slíkra tilfinninga.

Stjórnaðu streitunni áður en hún nær stjórn á þér

Aðrar leiðir til að koma í veg fyrir að smástreitan taki frá þér gleðina og svefninn er að hafa tiltæk „tæki“ til streitustjórnunar. Þrautreyndar og áhrifaríkar leiðir má t.d. nefna núvitund, hugleiðslu, slökun, öndunaræfingar, reglulega hreyfingu og kröftuga áreynslu.  

Nú þegar framundan er í senn dásamlegur tími jólahátíðar en á sama tíma e.t.v. einn mesti streitumánuður ársins, er vert að huga vel að okkur sjálfum. Leyfðu ekki litlu streituvöldunum að ná þér. Það þarf ekki að baka 7 sortir, þrífa heimilið hátt og lágt með skápum, rúðum og gardínum og hafa þéttskipaða veisludagskrá alla aðventuna.  Ekki hlaða þinn eigin vegg sem þú munt eiga í erfiðleikum með að komast yfir. 
Erum við ekki komin á þann stað árið 2021 að aðventan er tími til að njóta, gleðjast, kveikja á kertum, slaka á og hugleiða það sem veitir okkur ánægju og hugarró. Hitta góða vini á kaffihúsi, eiga ljúfar stundir við lestur og gefa sér reglulega tíma fyrir ræktina, góða slökun og spa. Það besta er að það eru einkum við sjálf sem getum haft áhrif á okkar líðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál