Kalla Lóa var líka jójó stelpa

Kalla Lóa Pizarro býr á Spáni og sinnir fjarþjálfun.
Kalla Lóa Pizarro býr á Spáni og sinnir fjarþjálfun. Ljósmynd/Aðsend

Kalla Lóa Pizarro, fjarþjálfari og eigandi smáforritsins Team K., þjálfar Íslendinga í fjarþjálfun frá Spáni. Kalla Lóa segir fjölbreytt mataræði lykilatriði að heilbrigðum lífstíl en það hentaði henni ekki að vera á ströngu mataræði. Í dag hreyfir Kalla Lóa sig til þess að líða betur og segir ræktin besta vörnin gegn þunglyndi og kvíða í sínu tilfelli. 

„Það var alltaf stefnan mín að flytja hingað, það var bara spurning hvenær,“ segir Kalla Lóa um ástæðu þess að hún ákvað að flytja til Spánar. Hún á ömmu á Spáni og segist alltaf hafa liðið eins og heima hjá sér í landinu. 

Kalla Lóa flutti til Spánar um stundar sakir árið 2012 og var alfarin fyrir tveimur árum. Hún er ánægð á Spáni en segir ákvörðunina ekki hafa verið auðvelda. „Ég viðurkenni að þetta var smá erfið ákvörðun fyrst þar sem ég var í þremur vinnum, með heimili og bara vel stödd fjárhagslega á þeim tíma. En þetta var draumurinn minn svo ég stökk á það. Þar sem aðal vinnan mín á þessum tíma var einkaþjálfun gat ég tekið fjarþjálfunina með mér út. Hún var ekki svo mikil á þeim tíma þar sem ég hafði ekki mikið verið að einblína á hana. Ég vildi aðallega sinna einkaþjálfun og var það alltaf stefnan að sinna því hér úti. En eftir að ég fór að kynna mér tekjumöguleikana betur snarbreyttist sú hugsun. Ég keypti mér mitt eigið app, byggði það upp og fór alla leið í fjarþjálfun.“

Kalla Lóa segir ekkert mál að sinna starfinu frá Spáni. Það eina sem hún getur ekki gert er að mæla stelpurnar sem hún þjálfar. „Ég hef hvort sem er alltaf verið meira fyrir myndir. Við notumst því við fyrir og eftir myndir. Ég er svo óendanlega þakklát að starfa við það sem ég elska að starfa við og að búa þar sem ég elska að búa. Ég hef einmitt mjög oft grínast með það að ég hafi fæðst í vitlausu landi því ég er svo ekki gerð fyrir þennan kulda á Íslandi,“ segir hún og hlær. 

Kalla Lóa er dugleg að æfa og líður þannig betur …
Kalla Lóa er dugleg að æfa og líður þannig betur andlega. Ljósmynd/Aðsend

Var eins og jójó

Kalla Lóa átti það til að vera rosalegt jójó eins og hún orðar það. Líkamsrækt var þó alltaf mikil ástríða og hún var snögg að koma sér í form aftur. „Ég byrjaði mjög ung að fá áhuga á þessum lífstíl. Þegar ég var um 12 ára tók ég æfingar inn í herberginu mínu og svo þegar ég var um 14 ára fór ég á fyrstu ræktaræfinguna. Draumurinn minn var alltaf að verða einkaþjálfari og 2016 lét ég loksins þann draum rætast.“

Það sést langar leiðir að Kalla Lóa er í hörku formi. Hún segir að sú staðreynd að hún hafi verið mikið jójó og átt í erfiðu sambandi við mat hjálpa sér í vinnunni. 

„Ég á mjög auðvelt með það þar sem ég þekki matarfíknina svo rosalega vel og tengi sérstaklega vel við jójó stelpurnar,“ segir hún þegar hún er spurð hvernig henni gangi að setja sig í spor þeirra sem eru að byrja í ræktinni. „Ég fer alltaf vel yfir með þeim hvernig ég fór að því að tækla þetta og ná loksins tökum á þessu. Það tók mig mörg ár að finna út hvað hentaði mér best svo ég ætlast aldrei til að stelpurnar nái þessu á nokkrum vikum. En ef við gefumst aldrei upp, lærum betur hvað virkar fyrir okkur og hvað ekki, þá mun þetta takast.“

Kalla Lóa á auðvelt með að setja sig í spor …
Kalla Lóa á auðvelt með að setja sig í spor þeirra sem eru að byrja í ræktinni og eiga það til að vera eins og jójó eins og hún orðar það. Ljósmynd/Aðsend

Eitt sem Kalla Lóa hefur lært er að borða fjölbreytt og segist hún vera löngu hætt á hinu týpíska fitnessfæði. Hún býr til hollari og kaloríulægri útgáfu af mat sem er í uppáhaldi hjá henni. Hún býr meðal annars til pizzu úr tortillapönnukökum, borðar próteinpönnukökur, próteinmöffins og próteinbúðing og ís. 

Lykilatriðið er að finna sér mataræði sem manni finnst gott því enginn heldur út á mataræði þar sem þarf nánast að pína ofan í sig matinn. Ég gerði það sjálf í mörg ár enda var ég alltaf að springa reglulega og jójóaði samkvæmt því. Eftir að ég fór að kynna mér þetta betur og áttaði mig á að þetta týpíska fitnessfæði er ekki það eina sem virkar þá fór þetta að ganga mun betur. Ég passa að að ég fái næringu úr öllum fæðuflokkum en einnig pæli ég líka rosalega í kaloríunum í hverri fæðu. Ég vil komast upp með að borða sem mesta magn fyrir sem fæstar kaloríur. Þannig verðum við saddari, minni líkur á sukki og við eigum auðveldara með að innbyrða færri hitaeiningar en við brennum, ef það er markmiðið.“

Formið er aukaatriði

Hvað gefur það þér að mæta á æfingu og vera í góðu formi? 

„Vá, ég veit ekki hvar ég væri ef ég hefði ekki æfingarnar í lífinu mínu. Það er alveg sama hvað gengur á hjá mér, æfingar ná undantekningarlaust að láta mér líða betur. Ég verð jákvæðari, ég hugsa skýrar, líkaminn er í mun betra standi þar sem ég er bakveik og ég verð bara stútfull af lífshamingju. Ég hef þurft að vera á þunglyndis- og kvíðalyfjum en ég þarf ekkert á því að halda í dag. Ræktin er mín besta vörn gegn kvíða og þunglyndi. Formið er bara aukaatriði miðað við hvað þetta gerir mikið fyrir andlegu hliðina. Ég æfi fimm til sex daga vikunnar en ég missi ekkert vatn þótt ég komist ekki á æfingu eins og var hér áður fyrr.“

Áður fyrr var Kalla Lóa alveg ómöguleg ef hún sleppti æfingu. Í dag er hún mun rólegri sem skýrist meðal annars á því að hún hefur meiri stjórn á mataræðinu. Ef hún sleppti því að mæta æfingu þýddi það að hún leitaði í kexpakkann. 

Kalla Lóa var lifir góðu lífi á Spáni þar sem …
Kalla Lóa var lifir góðu lífi á Spáni þar sem hún ræður vinnutímanum sjálf. Ljósmynd/Aðsend

Er munur á að æfa eins og fitnesskeppandi eða bara venjuleg kona sem þarf líka að sinna fjölskyldu og heimili?

„Fyrir mitt leyti er lítill munur, ég æfi með jafnmiklum metnaði og þegar ég keppti í fitness. En ég hef líka betri tök á því þar sem ég er heimavinnandi og ræð tímanum mínum sjálf. Þegar ég vann í World Class þurfti ég oft að pína mig að taka æfingu eftir vinnu þó ég var að vinna á stöðunni svo ég skil vinnandi mæður mjög vel. Trikkið er að vera alltaf með æfingadótið með sér ef að maður ætlar bruna beint á æfingu eftir vinnu. Því að stoppa við heima og ætla rétt að setjast í sófann er stórhættulegt.“

Var hörð við sjálfa sig

Ertu harður þjálfari?

„Ég var það en er það ekki í dag, nei. Ástæðan er sú að ég var alltaf ofurhörð við sjálfa mig. Ég leyfði mér aldrei neitt en leyfði mér svo allt þegar ég loksins leyfði mér. Svo lá ég kannski restina af deginum í fósturstellingu að deyja í maganum. Um leið og ég fór að breyta þessu mynstri hjá mér fór ég á sama tíma að breytast sem þjálfari.“

Hver er lykillinn að góðum árangri?

„Að vera ekki of harður við sig, hafa trú á sjálfum sér, vera þolinmóður og númer eitt, tvö og þrjú er að gefast ekki upp! Við lendum öll í að detta úr lestinni en ef þú hoppum alltaf inn aftur tekur hún okkur þangað sem við ætlum okkur, ég lofa.“

Samviskubitið er versti óvinurinn

Líkamsvirðing er alltaf meira í umræðunni og að fólk megi vera eins og það er. Hvað finnst þér sem einkaþjálfari um þá umræðu?

„Ef fólki líður vel á það að sjálfsögðu að fá að líta út eins og það vill. En þegar fólk er liggur við farið að hvetja hvort annað að vera bara sátt í mikilli yfirþyngd er þetta komið út í rugl að mínu mati. Ef þetta sama fólk væri að ráðleggja fólki að borða hollara eða hreyfa sig meira væri það allt annað mál. Því staðreyndin er sú að ef þú berð virðingu fyrir líkamanum þínum að þá viltu lifa heilbrigðum lífstíl.“

Samviskubit gerir engum gott að sögn Köllu Lóu.
Samviskubit gerir engum gott að sögn Köllu Lóu. Ljósmynd/Aðsend

Hvað eiga sófakartöflur sem vilja byrja hreyfa sig og léttast að byrja á því að gera? 

„Byrja á að setja sér lítil markmið. Ekki ætla að mastera allt á fyrstu vikunni. Byrja rólega og vera með það eitt markmið, að reyna gera betur en síðast. Ef þú varst til dæmis vön eða vanur að borða nammi öll kvöld en tekst að ná því niður í fjögur kvöld fyrstu vikuna er það frábært. Næstu viku reynirðu svo að minnka það niður í þrjú kvöld og svo koll af kolli,“ segir hún. 

„Samviskubit er oft versti óvinur okkar þegar kemur að þessum lífstíl. Fólk missir sig í áti einhvern daginn og nagar sig svo af samviskubiti restina af deginum. Jörðum samviskubitið, leyfum okkur að vera mannleg og bara höldum áfram,“ segir Kalla Lóa að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál