Aðstandendur zumba-dansara láta í sér heyra

Zumba-dans getur aukið gleðina um mörg prósent.
Zumba-dans getur aukið gleðina um mörg prósent. Ljósmynd/Colourbox

Hvað getur fólk gert til þess að lifa betra lífi 2022 en það gerði 2021? Það er auðvelt að lofa bót og betrun á fjórða degi ársins en kannski aðeins erfiðara að standa við það út mánuðinn eða jafnvel út árið.

Sérfræðingar mæla með því að fólk skrifi niður vonir og væntingar til tilverunnar til þess að verða ánægðara. En ef fólk á að skrifa niður vonir og væntingar þá þarf það að vita hvað það þráir svo það geti gert plön um bjartari framtíð. Sömu sérfræðingar segja að það séu meiri líkur á að vonir okkar og væntingar rætist ef við skrifum hlutina niður.

Fólk á þó alls ekki að skrifa niður einhver klisjuleg áramótaheit heldur ættu allir að einbeita sér að því að reyna að auka gleðina í eigin tilveru. Að sjálfsögðu eru leiðirnar misjafnar og áhugamál mörg en ef þú setur gleðina í forgrunn þá hlýtur eitthvað gott að gerast. Svo má ekki gleyma því að oft gerist eitthvað óvart sem við höfðum ekki hugmynd um að væri skemmtilegt. Við komumst náttúrlega ekki að því hvað er skemmtilegt ef við gefum aldrei neinu séns.

Ef 2021 er skoðað þá var tvennt áberandi mest í umræðunni þegar kom að heilsunni. Púlsmælar urðu ennþá vinsælli en áður og fólk fór í auknum mæli að láta mæla blóðsykurinn. Með því að mæla blóðsykurinn og fylgjast með honum getur fólk komið í veg fyrir lífsstílstengda sjúkdóma að einhverju leyti þótt það sé vissulega ekki hægt alltaf. Þegar fólk lætur mæla blóðsykurinn sér það oft að það er að borða einhvern algeran óþarfa sem kemur ójafnvægi á líkamsstarfsemina og auðvelt er að laga með örlítið breyttu mataræði. Án þess þó að lífið verði svo leiðinlegt að það sé ekki þess virði að lifa því.

Blóðsykursmælar hafa notið töluverða vinsælda og eru mjög sniðugir. Þeir eru tengdir við app og þannig er hægt að sjá nákvæmlega hvað við erum að borða sem keyrir upp blóðsykurinn og hvað ekki. Fólk sem er spennt fyrir tækninýjungum ætti að geta aukið gleði sína um nokkur prósent með því að skoða blóðsykursmæla nánar.

Svo voru það púlsmælarnir sem nutu vaxandi vinsælda á nýliðnu ári. Til þess að púlsmælingar séu marktækar þarf fólk að vita nákvæmlega hvernig púlsinn á að vera ef fólk ætlar að byggja upp vöðva, brenna fitu eða auka úthald og getu á íþróttasviðinu. Það er ekki einhver einn ríkispúls sem virkar fyrir alla þjóðina heldur þarf fólk að fara í allsherjar-heilsufarsmælingu til þess að fá þessar upplýsingar. Fyrirtæki eins og Greenfit hafa hlotið lof fyrir sín störf og hjálpað mörgum að lifa betra lífi. Einhverjir þurftu að minnka sykurneyslu og svo kom í ljós hjá mörgum í kringum mig sem hafa farið í slíka mælingu að fólk var gjarnan að æfa af of miklum ákafa.

Svo miklum ákafa að það átti jafnvel í erfiðleikum með að ná raunverulegum árangri á íþróttasviðinu. Sem er líklega öfugt við það sem flestir halda. Margir halda að þeir standi í stað í ræktinni af því þeir æfi ekki af nægilega miklum krafti. Það á kannski við einhverja en svo eru enn aðrir sem þurftu bara á því að halda að doka við, anda ofan í maga og hvíla sig meira til þess að ná árangri.

Púlsmælar eru svo sniðugir að þeir geta látið latasta fólk í heimi langa til að fara út að hjóla eða í ræktina. Einhverjir mælar eru þannig hannaðir að fólk fær tölvupóst eftir hverja æfingu þar sem því er hrósað svo mikið að því dettur ekki í hug að hreyfa sig án þess að hafa þessa græju á sér. Þetta gerði það að verkum að í stað þess að lufsast í ræktina tvisvar í viku var undirrituð farin að mæta fjórum, fimm eða sex sinnum í viku. Fjörið jókst þó allverulega þegar zumba og latin fitness komust á dagskrá enda getur enginn hoppað og skoppað í takt við tónlist ef það er lágskýjað.

Helsta vandamálið sem undirrituð stendur frammi fyrir núna er að einn danskennarinn fór til Brasilíu í sjö vikur og ekki er komið inn í stundaskrá hver leysir hann af. Hitt vandamálið er að heimilisfólk mitt er svolítið að anda í poka. Það vonar heitt og innilega að þessi kona hætti að æfa sig í að tverka upp við stofuvegg í takt við latínó-tónlist. Ef þið sjáið auglýstan stuðningshóp fyrir aðstandendur zumba- og latin fitness-iðkenda þá vitið þið hverjir voru stofnmeðlimir.

Áfram 2022!

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál