Byrjaði í neyslu 12 ára vegna eineltis

Tinna Guðrún og Elín eru stjórnendur Sterkari Saman. Fyrir miðju …
Tinna Guðrún og Elín eru stjórnendur Sterkari Saman. Fyrir miðju eru gestir þáttarins vinkonurnar Berglind og Katrín. Ljósmynd/Aðsend

Berglind Ýr eða Begga eins og hún er alltaf kölluð er nýjasti viðmælandi hlaðvarpsins Sterkari saman. Begga hefur verið laus við öll vímuefni í rúmlega tíu ár. Begga var aðeins tólf ára gömul farin að leita í hugbreytandi efni. Í seinni hluta þáttarins kemur Katrín vinkona Beggu og segir frá tengslum þeirra og verkefnum. 

Begga telur ástæðu neyslunnar vera mikið einelti sem hún varð fyrir sem barn og fann hún flóttaleið í áfengi og öðrum vímuefnum.

„Ég var lögð í mikið einelti í grunnskóla í Hafnarfirði sem endaði með því að fjölskyldan mín neyddist hreinlega til að flytja í annað bæjarfélag,“ segir hún í hlaðvarpsþættinum og bætir við að hún sé búin að fyrirgefa þeim þrátt fyrir að hafa ekki fengið afsökunarbeiðni.

„Ég fyrirgaf þeim fyrir mig sjálfa.“

Það sem einkenndi neyslu Beggu var algjört stjórnleysi frá byrjun. Ung fór hún í samband með strák sem fyrst um sinn var góður við hana. „Eftir eitt og hálft ár barði hann mig illa í fyrsta skipti og hótaði að henda mér í pressugáminn í vinnunni og pressa mig þar,“ segir Begga og bætir við að hún hafi á þessum tímapunkti í þeirra sambandi verið orðin það hrædd að hún trúði að hann myndi gera þetta.

Í þættinum segir Begga frá síðasta partíinu sem hún fór í með miklu yngri strákum en hún var gift á þeim tíma. Hún segir hvernig hún fann sinn botn og náði að snúa sínu lífi við.

Katrín, vinkona Beggu, kynntist henni fyrir algjöra tilviljun árið 2021. Hún sat stjörf og hlustaði á sögu vinkonu sinnar. „Berglind kom eins og stormsveipur inn í líf mitt eftir að hún keypti dagbók sem ég hafði gefið út og hún notaði fyrir son sinn, hún vildi að fleiri myndu njóta góðs af og varð sjálfskipaður markaðsstjóri hjá mér,“ segir hún og hlær. Í hlaðvarpsþættinum segir Katrín sögu sonar síns en vinkonurnar eiga syni sem átt hafa við vanda að stríða. Í kjölfar þess að dagbók Katrínar gagnaðist syni Beggu vel gerðu þær aðra dagbók að frumkvæði Beggu því henni fannst vanta auðvelda og aðgengilega leið til að vinna með tilfinningar. Begga segir: „Hugmyndin kom þegar ég átti mjög erfiðan dag, ég hringdi í Katrínu og spurði hvort við gætum ekki gert tilfinningabók.“

Katrín brosir og talar um að galdurinn sé að hleypa ólíku fólki að sér, hún hafi ekki vit eða þekkingu á ofbeldismálum eða vímuefnavanda en sé víðsýnni og fróðari eftir að hafa kynnst manneskju með svo ólíkan bakgrunn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál