Snjóþvegnir þarmar

Það þykir ekki sérlega gáfulegt að taka inn efni sem …
Það þykir ekki sérlega gáfulegt að taka inn efni sem snjóþvær þarma fólks. Ljósmynd/Freepik.com

Leitin að hinu fullkomna jafnvægi í lífinu getur verið flókið. Það getur tekið fólk heila mannsævi að finna rétta taktinn þegar kemur að heilsunni. Þess vegna langar mig að rifja upp sögu af tveimur vinkonum sem ætluðu aldeilis að gera gott mót, breyta hressilega um lífsstíl og verða tággrannar og glæsilegar í eitt skipti fyrir öll.

Þegar þær voru á þessum aldri voru fyrirmyndirnar mjög svangar fyrirsætur. Svokallað heróínlúkk var allsráðandi og því erfitt að leika það eftir nema taka inn sömu efni og notuð voru í teitum þess tíma.

Þessar vinkonur voru um tvítugt þegar þær réðu sér sérlegan heilsuleiðtoga sem vissi nákvæmlega hvernig þær gætu orðið eins og svöngu fyrirsæturnar. Og náttúrlega ennþá glæsilegri. Dömurnar voru fluttar að heiman og þótt þeim hefði liðið eins og þær vissu allt því þær skulduðu húsbréf þá vissu þær ekkert.

Af því þær vissu of lítið þá voru þær ginnkeyptar fyrir töfralausnum sem áttu að umbreyta þeim í eitthvað rýrara og minna. Draumurinn um jónaða vatnið er víða. Það sem var helst að trufla dömurnar var að þær borðuðu ennþá eins og óþekkir krakkar þótt þær væru í raun fullorðnar. Önnur þeirra var líka stundum á dufti sem var blandað í mat en var svo svöng að hún át ennþá meira í kjölfarið. Duftið virkaði því meira eins og lyftiduft.

Heilsuleiðtoginn var með allt á tandurhreinu. Hann fyrirskipaði algera hreinsun í mataræðinu og það yrði að fara 200% eftir ráðleggingunum – annars myndi ekkert gerast. Sykur, hveiti, mjólk, kaffi, egg, pasta, brauð, kleinuhringir, hrísgrjón og allt það þurfti að víkja. Löðrandi pasta með rjómasósu og túnfisksamlokur og kakómalt vék fyrir sojajógúrti og sellerístönglum með möndlusmjöri.

Ef dömurnar hefðu verið nægilega peningadrifnar hefðu þær selt einhverri sjónvarpsstöðinni sýningarréttinn á þessu raunveruleikasjónvarpi. Þær hefðu án efa fengið landsmenn til að valhoppa að skjánum þegar þær hófu hina heilögu þarmahreinsun. Það var auðvitað ekki nóg að borða bara sellerí og möndlusmjör. Það þurfti alvöru efni til að losa dömurnar við þennan 20 ára úrgang sem hafði safnast upp og var uppspretta alls ills.

Heilsuleiðtoginn sagði að það væri langbest að þrífa þarmana að innan með Hydrogen Peroxide. Ef þið gúgglið þetta efni kemur í ljós að það er vinsælt í dag sem hreinsiefni. Ekki þó til að hreinsa líffæri að innan heldur vaska, baðkör og flísar og svo virkar það vel til að snjóþvo gallabuxur.

Dömurnar byrjuðu hvern morgun á því að blanda Hydrogen Peroxide í vatn og svo var það drukkið á ógnarhraða því það bragðaðist ekki sérlega vel. Þegar búið var að taka það inn tók við inntaka á sítrónuvatni með pipar og hunangi. Það var hrært saman og drukkið á sama ógnarhraða og hreinsiefnið. Eftir að hafa tekið inn þessa heilsutvennu átu þær sojajógúrt dagsins og stundum nörtuðu þær í gulrætur líka.

Kílóin fuku af dömunum en þær voru ekkert sérlega ánægðar. Það var lítið fjör að drekka hreinsiefni og geta aldrei borðað sama mat og umhverfið. Þær gáfust því fljótlega upp og settu fókusinn á næsta æði sem greip þær.

Í dag eru þessar vinkonur reynslunni ríkari. Það hefði verið frábært ef þær hefðu vitað þá sem þær vita núna og það er að það gerist ekkert af sjálfu sér. Það er ekki til neitt í heiminum sem heitir frír hádegismatur og að efni sem blandað er út í vatn er skyndilausn – ekki framtíðarlausn. Fyrir utan náttúrlega hvað það er stórhættulegt að innbyrða efni sem eru ætluð til hreingerninga á baðherbergjum – ekki innyflum. Þær skammast sín svo mikið fyrir þetta að þær munu aldrei koma fram undir nafni.

Endir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál