Góð sala en engin læti

Tryggvi Gunnarsson og Friðrik Sigþórsson.
Tryggvi Gunnarsson og Friðrik Sigþórsson. Ljósmynd/Snæfríður Ingadóttir

Meiri samvinna ætti að vera á milli byggingaraðila, bæjaryfirvalda og fasteignasala þegar byggingarsvæði eru skipulögð. Þetta er skoðun tveggja fasteignasala á Akureyri, þeirra Friðriks Sigþórssonar og Tryggva Gunnarssonar. Þeir væru til í að sjá fleiri eignir byggðar samkvæmt eftirspurn íbúa og finnst að kalla ætti fasteignasala að skipulagsvinnu. 

„Það er verið að byggja íbúðir sem er ekki þörf fyrir á meðan það eru ekki til eignir sem markaðurinn kallar eftir. Þetta þarf að spila saman,“ segir Tryggvi Gunnarsson, fasteignasali hjá Eignaveri á Akureyri, sem sestur er niður ásamt fasteignasalanum Friðriki Sigþórssyni hjá Fasteignasölu Akureyrar til þess að ræða fasteignamarkaðinn á Akureyri. Töluvert hefur verið byggt á Akureyri að undanförnu en að þeirra sögn er eftirspurn eftir nýju húsnæði þó alls ekki fullnægt. „Það vantar minni einbýlishús með bílskúr og eins meira af tveggja til þriggja herbergja íbúðum,“ segir Friðrik.
„Ég skil ekki út af hverju fasteignasalar, sem vita hvað fólk vill, koma ekki að skipulagningu hverfa. Við búum hér öll í einu stóru samfélagi og við viljum að allir hafi góða búsetu. Ég er ekki að tala um að fasteignasalar séu í einhverjum launuðum störfum hjá bænum heldur að þeir séu bara kallaðir til í undirbúningsferlinu. Því hver þekkir þarfir og óskir bæjarbúa betur heldur en fasteignasalar? Við erum alla daga í beinu sambandi við fólk sem er að leita sér að húsnæði og vitum því hvað vantar á markaðinn,“ segir Tryggvi.

Hann segir að það hafi verið nokkuð um það að byggingaraðilar leiti álits hjá fasteignasölum varðandi það hverskonar eignir þeir eigi að byggja og það hafi reynst vel. Hinsvegar séu byggingaraðilar bundnir af skipulagi bæjarins og geti því heldur ekki alltaf byggt það sem vantar.

„Þess vegna finnst mér að bæjaryfirvöld ættu að taka upp tólið og taka tveggja tíma fund með nokkrum fasteignasölum til að átta sig á stöðunni. Við gætum komið okkar hugmyndum inn sem myndi koma þeim til góða sem hér ætla að búa.“

Jafnvægi komið á markaðinn

Mikil spenna hefur einkennt fasteignamarkaðinn á Akureyri á undanförnum árum en nú virðist hann vera kominn í eðlilegra ástand. „Sem betur fer er komið jafnvægi á markaðinn þá bæði hvað varðar kaupendur og verð. Fyrir einu og hálfu ári var markaðurinn rosalega seljandavænn og barist var um hverja eign. Núna er komið meira jafnvægi og er markaðurinn aðeins að slá meira yfir í það að verða kaupendavænn. Verð er að setjast og eðlilegt verðbil að myndast á milli nýbygginga og eldra húsnæðis,“ segir Tryggvi. Friðrik tekur undir þetta og segir að salan sé góð þó að ekki séu nein læti og hlutirnir gangi ekki eins hratt og áður. Hann bætir við að ánægjulegt sé að sjá unga fólkið aftur vera komið út á markaðinn. „Þegar síðustu kjarasamningar voru gerðir voru fyrstu kaupendum gefin ákveðin loforð og það hægði svolítið á markaðinum. Nú er unga fólkið komið aftur af stað. Á árunum 2016-17 var töluvert um það að Reykvíkingar væru að kaupa orlofseignir á Akureyri og það ýtti fyrstu kaupendum út af borðinu. Núna er mun minna um það og unga fólkið á meiri möguleika á litlu íbúðunum.“

Ungt fólk vill búa á Akureyri

Nokkur umræða hefur verið um það að fólksfjölgun á Akureyri sé ekki nægjanleg en Tryggvi bendir á að ekki megi aðeins horfa á strípaðar tölur í þeirri umræðu. „Við skulum líka gleðjast yfir því þegar ungt fólk í foreldrahúsum kýs að búa hér áfram og vill fjárfesta í húsnæði hér frekar en að fara á leigumarkaðinn í Reykjavík fyrir 250 þúsund á mánuði.“ Þeir segja að í Hagahverfi sé hægt að fá vel skipulagðar glænýjar þriggja herbergja íbúðir kosti í kringum 30 milljónir. „Það er ekki eðlilegt að fólk sem er að kaupa sína fyrstu íbúð á Reykjavíkursvæðinu þurfi að borga 50-60 milljónir fyrir sambærilegar eignir,“ segir Tryggvi og Friðrik bætir við.

„Við sjáum líka að foreldrar úti á landi eru mikið að hjálpa til. Þegar kannski tvö börn eru komin til Akureyrar, eitt í háskóla og eitt í framhaldsskóla þá er miklu gáfulegra að kaupa íbúð fyrir börnin heldur en að leigja. Annars finnst mér ungt fólk vera mjög ábyrgt í fasteignakaupum. Það er mjög upplýst og skiptir um húsnæði í minni stökkum en áður. Eins falla mun færri á greiðslumati í dag en fyrir nokkrum árum. Fólk veit betur hvað það getur og er ekkert að bjóða í eitthvað sem það ræður ekki við.“

Núllpunkturinn 20 milljónir

Talið berst að fasteignaverði á Akureyri og segja fasteignasalarnir að meðal fermetraverð á nýjum tveggja herbergja íbúðum sé 400 þúsund en 300-350 þúsund á eldri byggingum og er þá sýnu hæst í Giljahverfi. Eins segja þeir að varla komi lengur eign á sölu undir tuttugu milljónum, það sé því nýi núllpunkturinn á Akureyri. Hagahverfi er nýjasta hverfi Akureyrar og liggur það syðst í bænum. Það er að mörgu leyti allt öðruvísi heldur en önnur hverfi bæjarins, því byggðin þar er þétt og blanda af blokkum, einbýlum og raðhúsum. „Ég persónulega er ekki hrifinn af þessu skipulagi og finnst skrýtið að þeir sem eru að kaupa sér einbýli séu með blokk í bakgarðinum. Mér finnst eðlilegra að hafa skýrari skiptingu á milli mismunandi bygginga,“ segir Friðrik en Tryggvi er öllu jákvæðari.

„Ég held að Hagahverfið, þegar það er fullbyggt, verði rosalega umhverfisvænt hverfi. Strætóinn kemur t.d. ekki inn í hverfið heldur verða íbúar að ganga út á aðalbrautirnar. Ég held að það verði mjög barnvænt hverfi þegar fram í sækir.“

Tryggvi vísar í elsta hluta Naustahverfisins sem mörgum fannst skrýtið þegar það var að byggjast upp.

„Nú þegar hverfið er orðið rótgróið er fólk mjög ánægt með að búa þar og finnst skipulagið gott. Ég spái því að það sama muni gerast með Hagahverfið.“ Báðir eru þeir sammála því að í framtíðinni þurfi menn að leggja meiri metnað í skipulagsmál og að bæjaryfirvöld verði að horfa enn betur á heildarmynd hverfa því þannig má koma í veg fyrir skipulagsslys. „Fyrst og fremst þarf þó að hugsa um að byggja eignir sem íbúarnir vilja búa í en auðvitað helst fleira í hendur eins og atvinnutækifæri og þjónusta svo bærinn verði ákjósanlegur að búa í,“ segir Tryggvi og slær þar með botninn í umræðurnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál