5 dýrustu einbýlin sem selst hafa 2023

Páll Pálsson fasteignasali hjá Pálsson fasteignasölu segir ágætis markað vera fyrir dýrari eignir á vissum stöðum á höfuðborgarsvæðinu, en nýverið birti fasteignasalan myndskeið með fimm dýrustu einbýlishúsunum sem selst hafa á árinu 2023 og fór það dýrasta á 575 milljónir króna. 

Erfið staða fasteignamarkaðarins hefur verið áberandi í umræðunni að undanförnu, en Páll segir markaðinn þó vera í nokkuð góðu jafnvægi að svo stöddu. „Það eru að seljast um það bil 400 til 500 eignir á mánuði að meðaltali sem er rétt undir meðal ári. Það virðast flestir geta keypt og flestir selt, en verðin hafa meira og minna staðið í stað frá því í ágúst 2022,“ segir Páll. 

„Það tekur þrjá til fjóra mánuði að selja eign í dag. Markaðurinn hefur hækkað um 0,8% á síðustu 12 mánuðum, en í júnímánuði var þó 1,1% lækkun,“ útskýrir Páll og bætir við að meðalfermetraverð á höfuðborgarsvæðinu sé um 710 þúsund í fjölbýli og 630 þúsund í sérbýli.

Markaður fyrir dýrari eignir á vissum stöðum

Í myndskeiði sem fasteignasalan birti á dögunum má sjá fimm dýrustu einbýlishúsin sem selst hafa á árinu 2023, en þar má sjá verð á bilinu 273 milljónir og upp í 575 milljónir króna. Páll segir ágætis markað vera fyrir dýrari eignum á stöðum eins og í Garðabæ, Seltjarnarnesi og miðsvæðis í Reykjavík.

„Framboðið hefur verið frekar lítið og sem dæmi má aðeins finna 19 eignir í fjölbýli eða sérbýli til sölu á fasteignavef mbl.is sem eru verðlagðar yfir 180 milljónir sem að mínu mati er frekar lítið. Eftirspurn eftir „réttu“ eigninni er talsverð og það er töluverður hópur sem er tilbúinn að borga mjög vel fyrir svokölluðu „réttu eignina“,“ segir hann. 

En hvaða fólk er að kaupa þessi hús?

„Flestir af þeim sem eru að kaupa einbýlishúsin er efnað fólk á miðjum aldri. Þá eru flestir af þeim sem kaupa sér dýrar íbúðir í fjölbýli fólk sem er að minnka við sig og er rétt yfir 60 ára aldurinn og eru að koma úr stærri, dýrari einbýlishúsum – fólk sem vill einfalda líf sitt.“

Meðalaldur fyrstu kaupenda nærri 31 ár

Páll segir ágætis eftirspurn vera eftir öllum tegundum eigna og á breiðu verðbili svo lengi sem þær eru á réttu markaðsverði. „Flestir virðast vera að mæta á opin hús hjá okkur á verðbilinu 60 til 75 milljónir króna og fyrstu kaupendur eru enn mikið að leita þrátt fyrir íþyngjandi reglur, en þeir eru helst í leit að 60 til 65 milljóna eignum. Um 26% kaupenda eru fyrstu kaupendur og meðalaldur fyrstu kaupenda er nærri 31 ár,“ segir hann.

„Það eru helst einbýlishús sem eru með ásett verð yfir 140 milljónir sem eru þyngri í sölu en markaðurinn fyrir 110 til 130 milljóna einbýlishúsum virðist vera nokkuð fínn. Þá hafa markaðirnir í kringum höfuðborgarsvæðið eins og Akranes, Selfoss og Reykjanesið verið þyngri en áður, en ég tel þó ekkert ólíklegt að það verði kippur á þeim mörkuðum núna í haust,“ bætir hann við. 

Tignarleg og vel staðsett einbýli

Eignirnar fimm sem um ræðir eiga það sameiginlegt að vera einkar glæsilegar. Fyrst á listanum er Bakkavör 12 á Seltjarnarnesi sem seldist á 273 milljónir króna. Húsið er 500 fm að stærð og teiknað af Kjartni Sveinssyni. 

Næst á listanum er Láland 7 í Fossvoginum, en sú eign er 390 fm að stærð og seldist á 310 milljónir. Árin 2007 og 2008 var byggt við húsið og það stækkað, en það var innanhússaritektinn Kristín Brynja Gunnarsdóttir sem hannaði endurbætur á húsinu að innan.

Við Hrólfsskálavör 8 við sjóinn á Seltjarnarnesi seldist 232 fm einbýlshús á 335 milljónir, en gatan hefur undanfarin ár verið eftirsótt meðal ríkra og frægra Íslendinga.

Á árinu seldist einnig fornfrægt 343 fm einbýlishús í miðbæ Reykjavíkur við Bergstaðastræti 70. Húsið var teiknað af Skarphéðni Jóhannssyni arkitekt og hannaði Hjalti Geir Kristjánsson húsið að innan. Húsið var friðlýst af forsætisráðherra hinn 10. nóvember 2014, en hinn 6. mars síðastliðinn seldist húsið á 355 milljónir.

Dýrasta einbýlið sem selst hefur á árinu er Túngata 20 í 101 Reykjavík. Húsið er afar fallegt að sjá og telur heila 510 fm, en það seldist á 575 milljónir króna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda