Á bjartri hæð í fallegu húsi eftir Kjartan Sveinsson búa hjón með tvö börn. Þegar hjónin keyptu eignina, sem er í Kópavogi, var kom inn tími á endur bætur og fengu þau Halldóru Ósk Reynisdótt ur innanhússarkitekt FHI til þess að stýra för.
Hjónin hafa gaman af því að takast á við áskoranir og höfðu meðal annars tekið íbúð í miðbæ Reykjavíkur í gegn. „Í þetta skiptið fengum við Halldóru Ósk innanhússarkitekt FHI til að teikna upp allt og hanna og vera okkur innan handar þar sem allt var rifið út úr íbúðinni og hún algjörlega endurskipulögð. Þetta var svo stórt verkefni og krefjandi tími þar sem ég var gengin sjö mánuði með barn númer tvö. Einnig bjuggum við úti á landi sem gerði okkur erfitt fyrir að vera til staðar í hönnunarferlinu. Halldóra sá því um að hanna allt saman og við hjálpuðum við að velja liti og samsetningar. Að auki var það von okkar að geta flutt inn áður en barnið kæmi í heiminn en ýmislegt óvænt kom upp á eins og gerist gjarnan þegar farið er í framkvæmdir í eldri húsum þannig að það gekk ekki eftir. Við enduðum á að flytja inn aðeins síðar en áætlað var en erum mjög svo sátt við útkomuna.
Ég var með ákveðnar hugmyndir en Halldóra hjálpaði mér að koma þeim í framkvæmd og útfæra þær á mjög stílhreinan hátt. Benti hún mér á ýmsar praktískar lausnir og leiðir sem mér hefði aldrei dottið sjálf í hug,“ segir annar eigandinn um breytingarnar á íbúðinni.
Hverju var breytt?
„Íbúðin var algjörlega strípuð og öll rýmin voru endurskipulögð. Þau vildu til dæmis fá þvottahús inn í íbúðina svo þau þyrftu ekki að fara niður í kjallara og færa til baðherbergi,“ segir Halldóra Ósk.
Voru hjónin til í hvað sem er?
„Þau vildu hafa stílinn í takt við húsið að utan en húsið var byggt árið 1966 af Kjartani Sveinssyni. Þar af leiðandi óskuðu þau eftir að halda sama takti og völdu náttúrulega og hlýlega liti. Þau völdu einnig efni til að gera rýmin hugguleg, þægileg og þannig að þau myndu sóma sér vel með björtum og opnum rýmum íbúðarinnar. Annars var ekkert bannað í þessu verkefni og skemmtilegt hversu opin þau voru fyrir hugmyndum mínum.
Flísarnar sem við völdum í rýmin hafa mikinn karakter eins og terrazzo-flísarnar í forstofunni og inni á baðherbergi. Sama má segja um bugðóttu veggflísarnar inni í eldhúsi. Náttúrulegir og hlýlegir litir á viðarframhliðum fá einnig að njóta sín. Litirnir á blöndunartækjunum setja jafnvel sinn punkt yfir i-ið bæði inni á eldhúsi og á baðherberginu,“ segir Halldóra Ósk.
Hver kom með þá hugmynd að poppa heimilið upp með litum?
„Það var samvinna okkar allra. Þau voru óhrædd við að hugsa út fyrir rammann og leyfa náttúrulegum þáttum íbúðarinnar að njóta sín,“ segir Halldóra Ósk.
Aðspurð segir Halldóra Ósk fólk opnara fyrir því að lífga upp á heimilið með litum. „Gráir og hvítir tónar eru ekki eins ráðandi og var og mér finnst fólk tilbúið að feta ótroðnari slóðir í lita- og efnisvali. Það eru svo margir möguleikar til að umbreyta rými. Veggfóður kemur til dæmis sterkt inn en það býður upp á svo marga möguleika í dag í litum, mynstrum og áferðum fyrir hin ýmsu rými.“
Halldóra Ósk lagði upp með að hafa gott skipulag í eldhúsinu. „Þau eyða miklum tíma í eldhúsinu en matargerð er mikil ástríða hjá þeim. Samverustundir fjölskyldunnar eru því margar í og við eldhúsið en það er samliggjandi borðstofunni. Það var því nauðsynlegt að bæði flæði og skipulag væri haft í fyrirrúmi þegar eldhúsið var hannað. Hver skápur og skúffa hefur sitt hlutverk, eins og hver staður inni í eldhúsinu. Þannig geta þau nálgast hvert verkefni í eldhúsinu á þægilegan og auðveldan máta,“ segir hún.
Fjölskyldan er sérstaklega ánægð með hvernig hönnunin á eldhúsinu tókst til. „Ég er mjög ánægð með eldhúsið, hér er allt til alls og hérna eyðir maður miklum tíma með fjölskyldunni og býður gestum í kaffisopa,“ segir húsráðandinn.
Húsbóndinn á heimilinu sat ekki auðum höndum en hann er afar handlaginn sem kom sér einstaklega vel. „Hann sá um að smíða, græja og gera mestallt í íbúðinni og gerði það óaðfinnanlega. Hann sinnti allri verkstjórn á svæðinu og öllum þáttum með aðstoð frá fagmönnum. Húsbóndinn vill vara þá við sem íhuga að fara í framkvæmdir að það er mjög erfitt að leggja fiskibeinamynstursparket sjálfur,“ segir Halldóra Ósk að lokum.