Brynja Baldursdóttir opnaði sýninguna Kom-andi á safnanótt í Listasafni Einars Jónssonar. Talið er að hátt í tvö hundruð manns hafi lagt leið sína í safnið umrætt kvöld en margir úr íslensku lista- og mennignarlífi létu sjá sig eins og til dæmis Jakob Frímann Magnússon, Lilja Pálmadóttir, Elísabet Ásberg og Guðjón Ketilsson.
Brynja á að langi farsælan feril sem myndlistamaður og hönnuður en hún lærði við Royal College of Art í London. Hún hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir list sína auk þess sem hún var bæjarlistamaður Fjallabyggðar árið 2023.
Með þessari sýningu er Brynja að leitast við að skyggnast inn í órjúfanlegt samspil komu og brottfarar, eilífa hringrás umbreytinga og andartaksins þar á milli.
„Einstakar hreyfingar okkar hið innra og ytra eru samofnar hreyfingum annarra sem hluti af stærri kosmískum dansi. Frá þessum sjónarhóli getur fólk skynjað sig sjálft sem samtímis eilíft „komandi“ og „farandi“ í straumhvörfum núvitundar í átt að stað sem enn er óljós,“ segir í tilkynningu. Sýningin stendur til 25. ágúst.