Döpur yfir kynlífsleysinu

Ragnheiður Eiríksdóttir.
Ragnheiður Eiríksdóttir. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Ragnheiður Eiríksdóttir hjúkrunarfræðingur svarar spurningum lesenda um kynlíf. Hún gaf nýlega út bókina Kynlíf - Já takk, þar sem hún svarar spurningum Íslendinga um kynlíf.

Hæ Ragga

Ég er 50+, hraust, ágætlega menntuð, í góðu starfi, fjárhagslega OK, á yndislegt barn enn heima, nokkur flogin úr hreiðrinu, yndislegan mann … en ekkert kynlíf. Löngunin er ekki lengur til staðar. Maðurinn minn virðist ekki taka hlutina nærri sér (hann er eitthvað yngri) en ég veit svo sem ekki hvað hann hugsar, vill lítið ræða málin. Ég hef orðið töluverðar áhyggjur af ástandinu og er að velta fyrir mér hvort þetta sé eðlilegt ástand eða algengt fyrir konu á mínum aldri. Er einhver lausn á þessu eða er þetta bara búið spil?

Takk fyrir svar.

Með kveðju,

ein döpur yfir að hafa misst svo mikið.

Hæ fimmtíuplús.

Þú ert döpur yfir kynlífsleysinu og vilt breytingu. Það skil ég a.m.k. á bréfinu þínu. Þú spyrð hvort þetta sé búið spil og eðlilegt ástand … svarið við því er sirkabát svona: ef þið væruð bæði sátt við kynlífsleysi framvegis og sammála um fyrirkomulagið á heimilinu, aðeins að því gefnu væri hægt að kalla þetta eðlilegt ástand FYRIR YKKUR. Það er vissulega til fólk sem lifir góðu lífi í kynlífslausum samböndum, þá er vinskapur og virðing til staðar, eitthvað sameiginlegt sem búið er að byggja upp og þróa eins og heimilislíf og barnaskari, en einhvers staðar á leiðinni hefur slokknað á kynlífsneistanum sem einhvern tíma logaði glatt. Ef þannig samband á að ganga þurfa báðir aðilar að vera sáttir, en um leið og annar óskar breytinga skapast ójafnvægi sem á endanum leiðir til óhamingju. Ef kynlífsleysið verður óbærilegt í sambandi þar sem trúmennsku hefur verið heitið eru allar líkur á að sá þjáði velji að fá kynlíf og líkamlega nánd annars staðar, með svokölluðu framhjáhaldi, sem margir ættu nú að kannast við.

Ýmislegt getur haft áhrif á kynlöngun kvenna sem eru svo heppnar að fá að ná fimmtíuplús árum. Eitt af því mikilvægasta er minnkandi magn testósteróns í líkamanum. Jú rétt er að testósterón er nefnt eftir eistum og hefur oft verið kallað karlhormón - en það hefur heilmiklu hlutverki að gegna hjá konum líka og með dvínandi magni fer greddan oft þverrandi. Stundum er hægt að grípa til þess að gefa aukatestósterón sem læknir þarf þá að skrifa upp á - þú gætir rætt það við heimilislækninn þinn ef allt annað bregst.

En fyrst eru hér nokkur ágætis ráð til að auka kynlöngun sem þú gætir prófað að beita:

  1. Hugaðu að heilsunni - líkamlegt jafnvægi, nægur svefn, góð næring og holl hreyfing hafa góð áhrif. Hreyfingarleysi, ofþyngd og lélegt mataræði geta haft neikvæð áhrif á testósterónbúskap.
  2. Gerðu eitthvað fyrir sjálfa þig og settu það í forgang. Hvað það er fer algjörlega eftir þínum smekk - fyrir margar konur gæti þetta verið að taka tíma til að slaka á, fara í ræktina eða sund, bera krem á kroppinn, lesa góða bók, ganga í lekkerum fötum sem fara þér vel. Ef þú sinnir sjálfri þér vel geturðu minnkað streitu og aukið sjálfstraust og það svínvirkar á kynorkuna.
  3. Hugaðu að því kynferðislega. Prófaðu að lesa sexí sögur t.d. á literotica.com og leiða hugann að því sem kveikir í þér.
  4. Stundaðu kynlíf með sjálfri þér. Sjálfsfróun er algjör galdur og getur viðhaldið losta og greddu. Taktu þér tíma til að elska sjálfa þig, það eykur blóðflæði og gæti hjálpað til við að vekja þína innri kyngyðju úr dvala.

En fyrst og fremst hvet ég þig eindregið til að pína manninn þinn til að setjast niður með þér og ræða akkúrat þetta mál. Það er byrjunin hver svo sem útkoman verður. Þið verðið að komast að niðurstöðu sjálf því enginn annar mun gera það fyrir ykkur. Ef samtal er óbærilegt væri kannski ráð að kalla til hlutlausan þriðja aðila, t.d. kynfræðing, sálfræðing eða sambandsráðgjafa. En þið VERÐIÐ að tala saman.

Gangi þér vel,

Ragga

www.raggaeiriks.com

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Röggu spurningu HÉR.

mbl.is/AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda