Besta leiðin til að fá það sem þú vilt í kynlífinu

Áslaug er kynfræðingur og hefur sérstakt lag á að tala …
Áslaug er kynfræðingur og hefur sérstakt lag á að tala um það sem enginn þorir að ræða. Oddvar

Einungis 9% af fólki, samkvæmt rannsóknum, er ánægt með kynlífið sitt án þess að tala um það. 91% er óánægt með kynlífið og getur ekki talað um það heldur. Samskipti eru lykilatriði að mati Áslaugar Kristjánsdóttur kynfræðings til að auka ánægjuna í svefnherberginu. Í þessu viðtali útskýrir hún árangursríkustu leiðirnar til að fá það sem manni langar á þessu sviði.

Áður ræddum við um mikilvægi samnings á milli hjóna þegar kemur að kynlífi.

„Það er svo algengt í samskiptum okkar við maka okkar, fjölskyldu, vini eða í vinnu að við föllum í samskiptagryfjuna. Þar sem okkur virðist vera auðveldara að fara inn í reiðitilfinningar og tjá okkur um hvað vantar í staðinn fyrir að nota árangursríkari leiðir til tjáskipta og segja hvað okkur langar,“ segir hún og tekur dæmi. „Þegar ég segi þú gerir ekki nóg af einhverju, þá er ég ekki að útskýra hvað ég vil meira af. Rifrildi í parasamböndum er yfirleitt svona: Þú ert alltaf úti og ekki nógu mikið heima. Ég geri allt! Þá svarar makinn: Þú mátt fara meira út ef þú vilt, ég skal vera heima. Þannig myndast misskilningur, þar sem fyrri aðilinn var kannski að biðja um meiri „við“ tíma en gerði það óskýrt.

Betra er að biðja bara um meiri tíma með maka sínum í staðinn fyrir að vera óskýr og bjóða upp á höfnun í sambandinu. Öll pör þurfa að ákveða hversu mikið af sambandinu er ég og svo við saman.“

Áslaug kemur með annað dæmi: „Þig langar aldrei í mig. Í staðinn mætti segja, mig langar í meiri kossa og kynlíf. Gætum við ákveðið að kyssast alltaf fyrir og eftir vinnu?“

Að þora að biðja og tala við maka sinn er …
Að þora að biðja og tala við maka sinn er grundvöllur að góðu kynlífi að mati Áslaugar. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Þetta virkar sannfærandi þannig að leikir eru alveg úti?

„Leikir sem eru skemmtilegir eru inni en ég er algjörlega á móti keppni í samböndum. Því þegar þú ert að keppa við makann þinn þá tapar alltaf annar aðilinn og sambandið með. Auðvitað er gott að hafa leiki í kynlífinu sjálfu, en ekki klækjaleiki í samskiptum sem verða á undan kynlífinu.“

Af hverju þarf fólk kynlífsráðgjöf?

„Ég held að við fæðumst ekki hæf í sambönd, heldur sé það lærð hegðun sem við þurfum að tileinka okkur. Eins tel ég að það sé ekki endilega gott að apa allt upp eftir því hvernig hlutirnir voru gerðir heima hjá okkur. Við þurfum að horfa á kynlíf líkt og hvert annað verkefni í þessu lífi. Við þurfum að trúa að við getum fengið aðstoð til að gera hlutina áhugaverðari og betri og þurfum oft og tíðum að læra nýjar formúlur á bak við hlutina svo þeir haldi áfram að þróast og vera áhugaverðir.“

En af hverju verður kynlíf stundum leiðinlegt?

„Af því að við trúum því að kynlíf í langtímasamböndum sé leiðinlegt. Að erótíkin deyi og fantasíur og dagdraumar eigi ekki heima í alvörusamböndum. Við heyrum þetta alla ævi. Eins verður kynlíf leiðinlegt ef þú telur þig vita allt um makann þinn og ef þú telur þig eiga maka þinn. Það er mjög algeng hugsanavilla. Þá hættir fólk að trúa því að eitthvað óvænt geti gerst og eitthvað nýtt og spennandi eigi heima í kynlífssambandinu.“

Hvernig eigum við þá að hugsa þetta?

„Við þurfum að þjálfa okkur í að hugsa erótískt. Við þurfum að velta fyrir okkur hvernig kynlíf við viljum eiga. Hvernig myndi það líta út? Svo þarf maður að prófa sig áfram. Maður byrjar kannski á að biðja um parakvöld á morgun eða í vikunni og síðan ákveður maður að undirbúa sig vel fyrir það eins og maður gerir fyrir allt sem skiptir mann máli í þessu lífi.“

Hvernig fer þessi undirbúningur svo fram?

„Alveg eins og undirbúningur fyrir hvað annað. Sem dæmi, ef ég ákveð að fara á Jómfrúna og fá mér smurbrauð, þá fer af stað hugsun um hvernig þetta verður. Ég sé fyrir mér hvernig ég kem mér á veitingastaðinn, hvar ég ætla að sitja, hvað ég ætla að velja af matseðlinum, íhuga hvort ég ætla að fá mér desert og hvað ég mun drekka með máltíðinni.

Að sama skapi þarf maður að leggja hugsun í kynlífið, sjá það fyrir sér og búa til söguna.“

En svo er kúnstin að panta ekki alltaf það sama af matseðlinum?

„Já, þetta er eins með kynlíf og allt annað. Við verðum að breyta frá því reglulega. Þetta er eins og með rútínuna í ræktinni, við þurfum að hafa fjölbreyttar æfingar til að ná árangri. Það þarf að koma vöðvunum á óvart, reyna á nýja vöðva svo að þeir vaxi.“

Hvaða nýja hluti er hægt að prófa?

„Við erum með fimm skynfæri og við getum hugsað um að virkja þau öll til að stækka það mengi sem kynlífið er. Sem dæmi gæti hluti af undirbúningi verið að velta fyrir sér hvaða ilmur mér finnst sexy. Ég get sett þann ilm á mig, keypt ilmkerti og þar fram eftir götunum.“

Hvað hindrar það að við getum átt gott kynlíf?

„Kannski sú hugsun að við þorum ekki að trúa að við getum breyst eða makinn okkar þori að prófa eitthvað nýtt með okkur. Að velta fyrir okkur hvaða væntingar við höfum til kynlífsins. Ég held að það sé því miður reglan en ekki undantekningin. Einungis 9% af fólki samkvæmt rannsóknum er ánægt með kynlífið sitt án þess að tala um það, þar er því yfirgnæfandi meirihluti sem er annaðhvort ánægur með kynlífið og getur ekki talað um það heldur eða er ánægður með kynlífið af því það talar um það,“ segir hún og bætir við að af þessum sökum megi segja að undirrótin sé samskiptaleysi fólks um hvað það vill.

„Þori ég að gera hluti með maka mínum sem ég hef verið með í 20 ár, eða þarf ég að fá mér nýjan maka til að vera ný útgáfa af mér? Þetta er ein af fjölmörgum ástæðum þess að fólk heldur fram hjá eða lýkur samböndum af því að það þorir ekki að biðja um hlutina heima hjá sér.“

Áslaug segir að margar konur á hennar aldri hafi ekki lært eða þori ekki að vera kynverur og eru jafnvel ekki vissar um að það sé fyrir þær. „Margar konur yfir fertugt hafa aldrei velt því fyrir sér hvað þær vilja og okkur er talin trú um það að kynlíf sé ekki fyrir okkur.“

Hvað með líkamann?  Skiptir hann máli?

„Sjálfsmynd mín og líkamaímynd mín er oft tengt fyrirbæri. Það eru eins og við vitum ekki allir líkamar jafnréttháir í þessu samfélagi. Þarna þarf að vinna gegn samfélagslegu meini. Þú mátt elska þig sama hvernig líkaminn þinn lítur út. Allir líkamar eru fallegir á sinn hátt. En þarna kemur samfélagsundiraldan sterk inn. Það þarf að vinna með þetta betur. Því það er mjög ólíklegt að ég njóti kynlífs ef ég er með lágt sjálfsmat. Neikvæð líkamsímynd er í línulegum tengslum við minni ánægju í kynlífi.“

Hvað með forðun í samböndum? 

„Þegar makinn er hangandi inn í stofu þangað til að sá sem hann er með er sofnaður, er það vanalega túlkað sem áhugaleysi. En þegar betur er að gáð er ástæðan oftar kvíði. Forðun er algeng þegar einstaklingur tengir kvíða og kynlíf saman. Þá getur verið um frammistöðukvíða að ræða, ótta við að langa ekki eða að hlutirnir séu ekki eins spennandi og þeir voru og þar fram eftir götunum.“

Áslaug segir að markmið kynlífsráðgjafar sé mjög oft að aftengja kvíða við kynlíf, og tengja kynlíf við notalega, þægilega upplifun. „Að læra að stjórna kvíðanum og fá taugakerfið til að vinna með manni en ekki á móti. Taugakerfið þarf að vera stillt á rólegheit og meltingu en ekki hrökkva, stökkva, frjósa til þess að við getum notið kynlífs.“

Eins ráðleggur Áslaug þeim sem eru að kljást við höfnun vegna forðunar að fara fram og spyrja: „Ertu ekki að koma upp í rúm af því að þú ert hætt/ur að vera skotin/nn í mér?  Þá fáum við stundum óvænt svör eins og: Nei alls ekki ég er bara hrædd/ur um að ég sé ekki að standa mig.“

Þegar kemur að stjórnsemi og undanlátsemi í kynlífi segir Áslaug að samtal sé til alls fyrst og fólk þurfi að setja mörk fyrir kynlíf. „Eins er fínt að fólk skiptist á að stjórna í kynlífinu. En stjórnsemi og gagnrýni er aldrei af hinu góða. Betra er að nota orð eins og: Leyfðu mér að sýna þér hvernig mér finnst gott að láta snerta mig þarna, eða má ég leiðbeina þér með þetta. Það er betri nálgun.“

Hvað geta áhugasamir um gott kynlíf gert eftir að hafa lesið þetta viðtal?

„Ég og Íris Eik Ólafsdóttir, félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur, erum að hefja ný námskeið á Domus Mentis geðheilsustöð fyrir pör sem vilja bæta samskipti sín og eiga skemmtilegra samlíf. Þetta er áhugaverð tilraun af erlendri fyrirmynd sem hefur virkað vel og ætti því að virka vel hér einnig. Þetta er stutt námskeið, þar sem fólk fær fræðslu og leiðbeiningar um árangursríkar leiðir í samskiptum sem geta bjargað samböndum og svo heimaverkefni. Þar sem þetta er námskeið en ekki meðferð er það valfrjálst að sinna heimaverkefnum. Fólk þarf ekki að óttast að gerð verði krafa um að vera í  hópi 5-6 para og ræði kynlíf sitt. Fólk deilir því sem það vill, en engin krafa er gerð um persónulegar upplýsingar. Markmiðið er að hafa gaman í hópi og fá góðar leiðbeiningar til að bæta sambandið sitt.“

Sjá meira á www.dmg.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál