Fólk í sambúð hefur allt aðra réttarstöðu

Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem var í 20 ár í sambúð og telur að hún hafi verið hlunnfarin. 

Góðan dag,

ég var í sambúð í 20 ár og við eigum saman eina dóttur. Við skildum fyrir 2 árum og var ætlunin að skipta eignunum í góðu. Við áttum fasteignir sem voru skráðar 50/50. Annað var skráð á hann (2 bílar og fellihýsi) sem hann lét mig ekki fá neitt af, en lét dóttur okkar fá annan bílinn sem var lítið verðgildi í. Sá bíll var reyndar keyptur handa henni upphaflega og mig minnir að ég hafi borgað hann. Ég keypti hans hluta af sumarhúsi sem við áttum (fékk fasteignasölu til að meta verðgildið á sumarhúsinu áður).

Það sem ég er að velta fyrir mér er að ég borgaði fasteignalánið á íbúðinni niður um tæpar 2 milljónir með skuldaleiðréttingunni á sínum tíma (+ það að hann borgaði enga reikninga af íbúðinni síðustu 2 mánuðina) en hans skuldaleiðrétting fór ekki í að greiða lánið niður heldur fékk hann hana í formi persónuafsláttar til sín á 4 árum. Með réttu finnst mér að ég hefði átt að fá meira en hann fyrir íbúðina vegna þessarar niðurgreiðslu en hann vill ekki heyra á það minnst og segir þá að ég hafi fengið sumarhúsið of ódýrt. Seinasta eignin var seld á síðasta ári lokagreiðslan fyrir hana var í júlí 2017. Er of seint fyrir mig að gera eitthvað í þessu eða get ég það yfir höfuð, ég var á sínum tíma svo fegin að losna og búin að heyra frá fólki að ég ætti engan rétt á meiru svo ég ætlaði ekkert að gera í þessu. En þetta er samt alltaf að naga mig svo mig langar að fá svör við þessu.

Kveðja, XXX

Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður.
Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður. mbl.is/Valgarður Gíslason

Sæl. 

Ég skil þig þannig að þið hafið ekki verið gift. Þar af leiðandi gilda hjúskaparlög ekki um skiptin ykkar á milli.

Það er grundvallarmunur á réttarstöðu hjóna og sambúðarfólks við skilnað/sambúðarslit. Þegar um óvígða sambúð er að ræða skiptir máli hvernig þið skráðuð eignir ykkar opinberri skráningu. Meginreglan er sú að við sambúðarslit tekur sá aðili við þeim eignum sem hann er skráður fyrir. Þið áttuð fasteignina 50/50 og skiptuð henni þannig við sambúðarslitin. Þú hefur ráðstafað þínum séreignarsparnaði inn á lánið en hann ekki. Nú þekki ég ekki frekari forsendur hjá ykkur og því er erfitt fyrir mig að segja nákvæmlega til um hvað þú getur gert í stöðunni. Ef þið hafið alltaf greitt jafnt af íbúðinni þar til þú greiðir lánið niður um 2 milljónir, auk síðustu tveggja afborgana getur það mögulega hafa skapað þér frekari rétt, þ.e. með því gætir þú hafa eignast meira í fasteigninni en fyrrverandi sambýlismaður þinn og hefðir þar af leiðandi átt að fá meira út úr henni við skiptin. Hins vegar þegar sambúðin er orðin svona löng og fjárhæðin er ekki hærri en 2 milljónir króna myndi ég telja ólíklegt að þessi ráðstöfun hafi verið þess eðlis að hún skapaði þér meiri rétt en opinbera skráningin um fasteignina segir til um, mögulega komu tímabil þar sem hann greiddi meira en þú og öfugt, eða lagði meira til heimilisins.

Varðandi bifreiðarnar og ferðahýsið þá eru dæmi þess, þegar fólk hefur verið í svo langri sambúð eins og þið voruð, að dómar hafi fallið á þann veg að slík fjárhagsleg samstaða hafi verið talin með aðilum að rétt hafi þótt að skipta eignum jafnt, þrátt fyrir að aðilar hafi ekki verið í hjúskap og þvert á opinbera skráningu. Það væri því ekki útilokað fyrir þig að huga að þessu varðandi annan bílinn (þar sem hinn kom í hlut dóttur ykkar) og ferðahýsið. Þar sem þið fenguð verðmat á sumarbústaðinn á sínum tíma sem virðist ekki hafa verið mótmælt þá getur þú vísað þeim rökum hans um að þú hafir fengið bústaðinn of ódýrt til föðurhúsanna.

Sönnunarbyrðin um að slík fjárhagsleg samstaða hafi verið á með ykkur að réttlæti jöfn skipti á eignum þvert á opinbera skráningu hvílir á þér. Hafirðu hug á að fara þessa leið þarftu að sækja um opinber skipti á búi ykkar til héraðsdóms og verður þá settur skiptastjóri yfir búið sem sér um að skipta því.

Hafi áður verið gerður samningur ykkar á milli um skiptin fer um hann eftir ákvæðum samningalaga og almennum reglum samningaréttarins, sama má segja um kaupsamninginn um fasteignina. Þær reglur hafa að geyma leiðir til ógildingar á samningum sem teljast ósanngjarnir, en mikið þarf að koma til svo að þeim sé beitt.

Í grunninn myndi ég telja, miðað við gefnar forsendur, að það sé á brattann að sækja fyrir þig að ná fram frekari rétti, sérstaklega varðandi fasteignina.

Kær kveðja, 

Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Heiðrúnu Björk spurningu á smartland@mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál