Fyrrverandi kona makans alltaf að trufla

Þegar fólk hættir í sambandi er mikilvægt að setja mörk …
Þegar fólk hættir í sambandi er mikilvægt að setja mörk og að setja sjálfan sig í fyrsta sæti. Ef fólk er stöðugt að tala enn þá saman, er þá sambandið búið? Ljósmynd/Thinkstockphotos

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér spyr kona hvað hún eigi að gera. Fyrr­ver­andi kona kærasta hennar sendir honum stöðugt skilaboð sem hann svrar alltaf samviskusamlega. Jafnvel þó að þau séu að eiga innilegar stundir saman. 

Hæ Elínrós,

Ég er svo döpur. Fyrrverandi kona kærasta míns er alltaf að senda honum skilaboð og trufla okkur. Alltaf bregst hann við og svarar þeim. Við erum kannski uppi í sófa að kyssast þegar síminn hans byrjar að pípa og þá bregst hann alltaf við. Nú er þetta komið þannig að við eigum engar innilegar stundir því við erum stöðugt trufluð. Hvernig get ég unnið í þessu án þess að allt fari í háaloft á milli okkar kærasta míns?

Kveðja, Þ

Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi er með grunnmenntun í sálfræði …
Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi er með grunnmenntun í sálfræði og fjölmiðlafræði. MBA frá Háskólanum í Reykajvík. Er NLP-ráðgjafi og fíkniráðgjafi sem séhæfir sig í meðvirkni. Ljósmynd/Eggert

 

Hæ Þ

Ég skil þig vel að vera döpur. Hegðunin sem þú lýsir er mjög markalaus.

Sambönd eru mjög mikið spari að mínu mati og þess vegna er svo gott að taka sér tíma og velta fyrir sér málunum. 

Það sem ég mæli með að fólk geri í stöðunni sem þú ert í er að skoða vel og vandlega hvernig kona þú ætlar að verða. Hvað dreymir þig um? Hvernig lífi viltu lifa? Getur þú náð þessum markmiðum döpur? 

Ef samband gerir okkur döpur þá er eitthvað sem þarf að skoða. Ein leið er að halda áfram í sambandi, setja mörk og vera duglegur að tala og tjá sig. 

Hins vegar getum við aldrei breytt öðrum. Markaleysi kemur strax í ljós, sér í lagi fyrir þá sem eru duglegir að vinna í meðvirkni og sjálfum sér. Það að hann svari kærustinni sem er stöðugt að tala við hann er bara ein birtingamynd markaleysis hans. Hann er þá það sem kallað er meðvirkur. 

Um leið og þú lest þetta, þá langar mig að þú setjir alla dómhörku til hliðar og horfir á málið út frá kærleika til þín og hans. 

Meðvirkni er ekki eins og flensa sem við grípum eina helgi og losum okkur við á viku. Meðvirkni er ferli sem tekur langan tíma að þróast og langan tíma að losna við. 

Ef þú vinnur daglega að því að verða konan sem þig langar að vera. Æfir þig í að setja mörk sjálf og trúir því raunverulega að þú eigir allt hið besta skilið. Þá gefur þú kærastanum tíma til að hætta með fyrrverandi. Vinnur í þér og sérð svo bara hvort þið eigið eitthvað saman í framtíðinni. Settu þér sjálfri ákveðin mörk þegar kemur að símanotkun, samfélagsmiðlum og fleira í þeim dúrnum. Það ýtir undir að þú sért meira á staðnum með fólki sjálf og ýtir einnig undir að þú náir að tengjast fólki betur. 

Ég get ekki ráðlagt þér að hætta með honum. Það væri rangt. Hins vegar er einnig rangt að reyna að breyta öðrum. Þannig að þú verður að sætta þig við hann eins og hann er, eða að taka þér stund og skoða: Af hverju er meðvirkur maður að tala inn í kerfið mitt núna?

Þegar við erum besta útgáfan af okkur, þá löðum við að okkur heilbrigða einstaklinga sem setja sjálfa sig í fyrsta sæti og sambandið sem þeir eru í hverju sinni verður í forgang.

Gangi þér sem allra best og takk fyrir traustið.

Kærar Elínrós.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Elínrós spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál