Kærastan hætti með honum upp úr þurru

Íslenskur maður upplifir sorg eftir að kærasta hans hætti með …
Íslenskur maður upplifir sorg eftir að kærasta hans hætti með honum.

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu fær hér spurningu frá manni sem var sagt upp á dögunum. Hann leitar ráða því hann veit ekki hvernig hann á að bregðast við. 

Sæll.

Mig langar til að bera undir þig sambandsslit og hvernig sé best að vinna úr þeim. Svo er að nýlega sleit kona sambandi við mig eftir nokkurra ára samband. Sambandið var ástar-, trúnaðarvina- og félagasamband og ferðuðumst við saman og áttum góðar stundir en ég blandaðist aldrei inn í fjölskyldu hennar eða hún mína, þ.e. börn. Hún vinnur mikið og einkum um helgar og kvöldin. Hún tilkynnti mér óvænt aðeins nokkrum vikum eftir að við höfðum farið í frabært ferðalag saman að nú þyrfti hún að sleppa af mér hendinni því hún hefði ekki tíma fyrir mig vegna vinnu og ég ætti skilið aðra konu sem gæti gefið mér nægan tíma. Mér kom þetta mikið á óvart því aðdragandinn var enginn og bara degi áður hafði hún sent mér hlýjar kveðjur. Við afgreiddum þetta í síma en hún vildi ekki hitta mig og ræða málin. Hvernig er best að bregast við svona aðstæðum?

Kveðja, S.

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu.
Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu. mbl.is/Árni Sæberg

 

Góðan daginn og takk fyrir spurninguna.

Það er leitt að heyra hvernig komið er. Í mjög mörgum tilvikum þar sem um sambandsslit er að ræða kemur í ljós að annar aðilinn hefur hugleitt skilnað í langan tíma áður en makinn fær upplýsingar um það eða áttar sig sjálfur á ástandinu. Það verður eðlilega þungt högg þegar annar aðilinn telur að hlutirnir séu í lagi en fær svo að heyra að makinn vill slíta sambandinu.

Svarið við spurningunni gæti verið að gera meira af því sem þú ert að gera nú þegar með því að senda inn þessa spurningu, það er að segja: að tala um þetta við aðila sem þú treystir til þess að fá styrk og stuðning. Við erum öll tilfinningaverur og þurfum á öðrum að halda upp að vissu marki. Það er sjálfsagt mál að leita sér aðstoðar í svona málum og létta róðurinn með því að tala við aðra sem geta veitt skilningsríka hlustun og stuðning. Þetta getur verið góður vinur, ættingi, prestur eða ráðgjafi svo dæmi séu tekin. Það er eðlilegt að þú upplifir óþægilegar tilfinningar og líka mikilvægt að loka ekki á eðlilegt sorgarferli sem á sér stað þegar um sambandsslit er að ræða. Það líður hjá.

Varðandi hvernig þú eigir að bregðast við því að hún vilji ekki ræða málin frekar er í raun að bera virðingu fyrir því. Hún verður að fá að ákveða það fyrir sig og má það. Tíminn leiðir það svo í ljós hvort tækifæri skapast til þess að ræða þetta betur. Það gæti líka hjálpað þér að vinna úr málinu ef þú sendir henni bréf þar sem þú getur viðrað þína hlið á málinu, svo lengi sem það er gert með kærleikann að leiðarljósi.

Gangi þér allt í haginn.

Kær kveðja,

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimar spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál