Gæti ég verið að þróa með mér kaupfíkn?

Íslenskur spilafíkill veltir fyrir sér hvort hann sé kominn með …
Íslenskur spilafíkill veltir fyrir sér hvort hann sé kominn með kaupfíkn eftir að hann hætti að spila með peninga. Ljósmynd/Unsplash

Alma Haf­steins­dótt­ir, fíkni- og fjöl­skyldu­markþjálfi, sér­hæf­ir sig í spilafíkn. Hún svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. 

Hæ Alma

Ég er spilafíkill, búinn að vera óspilaður nú í 5 ár. Bý í litlu samfélagi og því hef ég ekki getað notað fundi þar sem þeir eru allir í Reykjavík. Ég notaðist fyrst til að byrja með við fundi á netinu. Í dag er ég ekki að díla við löngun til að spila en er alveg ferlegur í fjármálum. Ég er ekki kominn í neinar skuldir eða þannig og er reyndar búinn að borga allar skuldir en er heldur ekki að safna neinum peningum. Mér finnst ég geta leyft mér allt eins og ég sé að bæta mér upp allan tímann sem ég var að spila. Þá gat ég aldrei tekið þátt í neinu eða leyft mér neitt. Þegar ég var að spila þá gat ég aldrei keypt mér neitt og ef ég keypti mér eitthvað þá seldi ég það seinna þegar mig vantaði pening. Núna þarf ég að fara að taka á þessu og verða ábyrgari og byrja að safna fyrir íbúð og búa mér til varasjóð. Svo hefur mér verið bent á að mögulega sé ég að þróa með mér kaupfíkn, er það mögulegt? Og hvað ráðleggur þú mér varðandi fjármálin?

Kveðja, T

Alma Hafsteinsdóttir starfar sem fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi með áherslu á …
Alma Hafsteinsdóttir starfar sem fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi með áherslu á spilafíkn.

Sæll T

Til hamingju með árangurinn, fimm ár. Fyrst til að byrja með upplifa margir einmitt þetta að eiga að pening og geta leyft sér hluti sem þeir áður gátu ekki. Nauðsynlegir hlutir hafa verið látnir bíða þar sem ekki var til peningur þar sem allir peningar fóru í fjárhættuspil. Allt þetta er mjög eðlilegt og misjafnt hvað þetta tímabil er langt hjá hverjum og einum. Það kemur svo að þeim tímapunkti hjá flestum að viðkomandi vill meira. Og með meira meina ég að fólk vill gera framtíðarplön. Það sem stundum virðist trufla spilafíkla er að þeir vita hversu öflug spilafíkn er og hingað til hefur fólk ekki getað gert nein plön eða hafa mögulega gert þau en byrjað að spila áður en hægt var að framkvæma þau. Þetta er líka mjög eðlilegt. Núna ert þú búinn að sýna sjálfum þér að þú getur hætt og ert búinn að vera hættur í fimm ár og því alveg óhætt að gera plön og leyfa þér að trúa að þú getir þetta. Það sem ég ráðlegg þér er að byrja að leggja til hliðar hægt og rólega. Ekki ætla þér of mikið og gerðu raunhæf plön. Með þessu getur þú einnig séð hvort þú sért að þróa með þér kaupfíkn eða ekki. Ef það reynist þér erfitt að sleppa ónauðsynlegum hlutum þá er  mögulegt að þú sért orðinn háður því að kaupa þér eitthvað. Hamingjan og batinn felst ekki í hlutum.

Gott er að gera lista yfir hvað þú þarft og mögulega gera þriggja mánaða plan til að byrja með og sjá hvernig það gengur. Ef þér gengur vel með þriggja mánaða planið þá myndi ég ráðleggja þér að taka stöðuna aftur að þeim tíma liðnum og mögulega leggja meira til hliðar. Mikilvægt er að setja sér markmið og ef þú ert t.d. að safna fyrir útborgun í íbúð að skrifa niður hvað þú þarft að safna miklu og skipta því svo í áfanga. Mundu bara að þetta langhlaup og markmiðið er vera spilalaus en æfa þig í að vera að ábyrgur í fjármálum og það tekur tíma. Svo framarlega sem þú ert spilalaus þá eru þér allir vegir færir.

Gangi þér vel

Kær kveðja,

Alma Hafsteins

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Ölmu spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál