Miðaldra kona kann illa við eiginkonu fyrrverandi

Það getur verið dásamlegt að eldast og eiga skilið að …
Það getur verið dásamlegt að eldast og eiga skilið að elska og vera elskaður. mbl.is

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá miðaldra konu sem hefur áhyggjur af yngri eiginkonu fyrrverandi eiginmanns hennar. Að þurfa að umgangast hana í framtiðinni innan um börnin sín og barnabörn.  

Sæl.

Ég bið þig vinsamlegast að lesa þetta.

Ég er miðaldra kona. Fráskilin til margra ára og sakna míns fyrrverandi ekki. Svo fjarri því! Hann dró mig niður. Gerði lítið úr mér. Ég hef sem betur fer lítið þurft af honum að segja síðan við skildum, en nú finnst mér landslagið vera að breytast.

Við erum jafnaldrar. Á seinasta ári giftist hann miklu yngri konu. Ég hef aldrei verið kynnt fyrir henni, en í fyrra bað ég hann um að hitta mig og hjálpa með smá verkefni.

Við hittumst á kaffihúsi. Konan keyrði hann. Þau voru þá ekki gift. Hún kvaddi hann í dyragættinni á kaffihúsinu með kossum og faðmlögum. Þvílíkt „show“! Ég skildi þetta sem gjörsamlega misheppnaða leið til að gera mig afbrýðisama. Mér fannst þetta bara aumkunarvert „show!“

En það er annað sem gerir mig „fyrir fram“ pirraða og afbrýðisama. Það er að ég þurfi að hitta hana innan um væntanleg barnabörn „mín“. Hún á sjálf engin barnabörn enda miklu yngri en ég. Það gerir mig líka afbrýðisama.
 
Ég vil bara alls ekki kynnast þessari konu eða að hún hafi aðgang að fjölskyldu minni og mæti á komandi árum í fjölskylduboð minnar fjölskyldu.

Hún vill greinilega vera stórt númer í „minni fjölskyldu“ samanber kaffihúsakossa „show“-ið! 
                                                                                                                           
Gott að fá ráð til að losna við reiðina. Mér finnst konan vera að ryðjast inn í mína fjölskyldu. Ég reikna með að mínar tilfinningar séu ekki óalgengar í svona stöðu.

Fyrirframþakkir.

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sæl og takk fyrir að senda inn bréfið.

Gremja er vanalega vísbending um vanmátt. Stundum er erfitt að sjá það við fyrstu sýn og því auðveldara að sjá annað fólk sem fyrirstöðu. Hvað ef þú getur orðið hamingjusöm, glöð og frjáls innan um alla? Líka þinn fyrrverandi og eiginkonu hans.

Við sem vinnum með stjórnleysi á ástarsviðinu tölum stundum um að verða edrú af fólki. Þegar maður kemst á þann stað að vita eigið virði og þegar maður getur elskað sjálfan sig eins og maður er, þá elskar maður vanalega annað fólk þannig líka. Þá verður þörfin fyrir athygli og aðdáun annarra minni og löngunin til að stjórna lífi fólks í kringum mann nánast hverfur. Þá ferðu að sjá að allir eru í eins konar ferli. 

Ég er í engri aðstöðu til að vita hvort þau hafa verið að setja upp sýningu á kaffihúsinu eða hvort þau voru bara að kyssast bless. Það verður alltaf að vera þeirra mál og ekki gott að álykta um það fyrir fram. 

Staðreyndir málsins eru hins vegar þær að þið eigið börn saman. Öll börn þurfa bæði móður og föður. Það að hann sé að prófa sig áfram í ástinni, að hann hafi fundið sér eiginkonu sem hann er kvæntur, finnst mér bara vel gert hjá honum. Enda eiga allir skilið ást og umhyggju, sama á hvaða aldri þeir eru. 

Þú getur orðið frjáls í kringum þau, ef þú setur fókusinn á þig sjálfa. Hvað ertu að gera til að vökva þig og næra? 

Í dag eiga börnin þín og svo væntanlega barnabörn í framtíðinni, bara fleira fólk að elska þau. Kannski seinna mun svo koma að þér að kynna þinn maka inn í fjölskylduna. Ímyndaðu þér ef þú fyndir dásamlegan lífsförunaut! Hver veit á hvaða aldri hann verður eða hversu mörg börn eða barnabörn hann mun eiga. 

Hvernig myndir þú vilja að tekið væri á móti honum í fjölskyldunni ykkar? 

Við erum fyrirmyndir barna okkar á öllum aldri. Við eigum ekki börnin okkar þegar þau eru orðin fullorðin. Þá eiga þau sig sjálf. Þá þurfum við að bera virðingu fyrir hvað þau velja að gera tengt makavali sínu, börnum og fleira. Að mínu mati er stærsta gjöfin sem maður getur gefið börnum sínum að vera hamingjusamur og vinna úr málum sem trufla mann á lífsleiðinni. Það gefur þeim leyfi til að gera hið sama. 

Ég gef lítið fyrir aldursmun fólks í dag, því ég sé daglega konur á sextugsaldri sem eru í svipuðu formi (líkamlegu og andlegu) og konur á tvítugsaldri og öfugt. 

Aldur er afstæður og lífið getur verið yndislegt. 

Ég hvet þig því til að gefa ekki konu úti í bæ vald yfir þínu lífi þótt hún sé gift fyrrverandi eiginmanni þínum. Ef þú berð virðingu fyrir honum og hans vali, muntu finna að það verður þungu fargi af þér létt. Þú gætir þurft að fara í ráðgjöf og skoða hvaða hindranir verða í vegi fyrir því að þú getir sleppt og treyst á staðnum sem þú ert á í dag. 

Eins gæti verið áhugavert fyrir þig að skoða hvernig þú nálgast fólk í daglega lífinu. Mætir þú fólki sem jafningjum eða setur þú fólk fyrir ofan þig eða fyrir neðan? Finnur þú fyrir ást þegar þú ert á meðal fólks sem er jafningjar þínir? Eða þarftu að vera elskuð af stalli? Hvar setur þú þá maka þinn/elskuhuga? Ertu sjálf í ástarmegrun? Hvernig muntu botna setningu sem þessa: Karlmenn eru....

Ef undirliggjandi hugmyndir þínar um karlmenn eru ekki hlutlausar (eða jákvæðar), þá eru miklar líkur á því að þú þurfir að vinna úr því. Eins getur verið áhugavert að skoða hugmyndir þínar um konur. Sama á hvaða aldri þær eru.

Með kveðju Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál