Öll eigum við hliðar sem við erum ekki stolt af

Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldufræðingur heldur námskeið í að rækta innsæið.
Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldufræðingur heldur námskeið í að rækta innsæið.

Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldufræðingur stendur fyrir námskeiðinu Að tengjast eigin innsæi en námskeiðið fer fram á netinu. Hún segir að fólk með gott innsæi lifi hamingjusamara lífi en þeir sem eru ekki í neinum tengslum við innsæið.

„Þetta námskeið, ferðalag eða hvað við viljum kalla þetta heitir að tengjast innsæinu. Ég hef verið að velta fyrir mér alls konar tengslum í mörg ár, enda fjallar fjölskyldumeðferð fyrst og fremst um tengsl. Því meira sem maður skoðar tengsl því betur skilst manni hvar breytingarnar hefjast. Það er auðvitað ekki nýtt undir sólinni að upphafið er í eigin ranni en við getum heldur ekki tekið líf okkar og tengsl úr samhengi heldur. Það sem skiptir svo miklu máli hérna er að það hangir allt saman, ég – annað fólk og umhverfi mitt – tilgangur minn.

Ég held það sé hollt að skoða tengslin betur. Eitt er líka áhugavert að skoða. Það er hvað við erum með margt í okkar kerfi sem er að mestu ómeðvitað. Við veitum því enga athygli þótt við séum að upplifa sömu hlutina aftur og aftur og við reynum stundum að stjórnast í þessu tilfinninga- og hugsanakerfi með því að breyta fólkinu í kringum okkur. Endurtekningarnar gefa okkur stundum vísbendingar um það sem við getum skoðað og breytt ef það er það sem við viljum. Við notum kannski frávarp til að þurfa ekki að skoða eigin spegilmynd og svo framvegis. Gagnrýni okkar á öðrum getur verið mikil ef við erum ekki að þora að skoða hvað raunverulega á sér stað.

Við munum líka að skoða skuggahliðar okkar. Við erum öll með hliðar í okkur sem við erum ekki endilega stolt af og verjum oft töluverðri orku í að fela fyrir okkur sjálfum og auðvitað öðrum. Þar er stundum hroki, öfund, gremja og fleira sem eru þó allt tilfinningar sem gera okkur mennsk. Við munum skoða svolítið upprunafjölskylduna, það sem mótaði okkur. Hvað við höfum tekið með okkur og hvaða andlegu gjafir við höfum fengið. Við teiknum fjölskyldukort í því samhengi. Skoðum streituvalda í kringum okkur, förum inn í æfingar til að kyrra hugann og fleira.

Við erum þarna að nota ýmislegt úr fjölskyldufræðum, taugavísindum, áfallafræðum, núvitund, hugleiðslu, kenningum Piu Mellody og tengslakenningum svo eitthvað sé nefnt,“ segir Ragnhildur. 

-Á fólk almennt í basli með sitt eigið innsæi?

„Það eru margir í góðum tengslum við innsæi sitt. Það er samt þannig að áföll, steita og allt sem mögulega setur okkur í einhvers konar ójafnvægi eða þroskakreppu ýtir okkur oft inn í varnarkerfið. Kerfið þar sem við förum að sækja í fix utan við okkur til að leita að einhverjum friði eða sátt. Vinnum mikið, notum hugbreytandi efni, leitum eftir viðurkenningu, kaupum efnislega hluti í óhófi, borðum of mikið, gagnrýnum aðra eða gerum eitthvað annað sem tilraun til að finna vellíðan. Stundum verður streita mikil í lífi fólks, lífið er einfaldlega þannig í dag að það er mjög auðvelt að missa sambandið við innsæi sitt og þá eltum við langanir. Skólakerfið kennir börnum að ytra mat skipti miklu máli svo við lærum snemma að aðrir geti metið hversu mikið sjálfsvirðið er. Ég upplifi að margir séu svolítið að ströggla, finni of mikla streitu og kvíða. Tíminn stjórnar fólki mikið og við erum í stöðugu kapphlaupi,“ segir hún. 

-Hvað gefur gott innsæi okkur?

„Albert Einstein hélt því fram að innsæið væri náðargjöf en rökvísin dyggur þjónn. Við höfum skapað samfélag sem heiðrar þjóninn en gleymir oft og tíðum gjöfinni. Með innsæinu skynjum við eðli hlutanna og hlutverk tilverunnar frá innri veruleika. Það er afar dýrmæt gjöf að vera í þessum tengslum við kjarnann sinn. Ég myndi segja að innsæið gæfi okkur visku, vissu og innri frið. Við höfum öll upplifað augnablik þar sem við finnum fyrir þessari vissu. Þá er hugurinn oft nokkuð hljóður. Við náum tengslum við rýmið á milli stöðugra hugsana og við bara finnum hvað við þurfum og finnum til öryggis á þeirri leið sem við erum.“

-Lifir fólk, sem er með gott innsæi, betra lífi?            

„Já, ég myndi segja það. Streita kippir öllu úr sambandi oft og tíðum og þá erum við ekki alltaf að taka góðar ákvarðanir. Við erum til dæmis allt í einu farin að framkvæma eitthvað sem við ætluðum ekki, hvort sem það er í litlu hlutunum eins og að borða, gagnrýna eða annað eða að við séum að taka slæmar ákvarðanir sem hafa skaðleg áhrif á líf okkar. Við viljum öll finna sátt, og innsæið er leiðin að þeirri sátt held ég.“

-Hvernig náðir þú tökum á þínu innsæi?

„Sjálf var ég á þeim stað að reyna eftir fremsta megni að laga fólkið í kringum mig, láta það pirra mig, var uppfull af skömm vegna ákveðinna hluta, fannst lífið stundum ósanngjarnt og svo framvegis. Ég missti því tengsl við það sem ég þurfti í raun og veru og tók því ekki alltaf góðar ákvarðanir fyrir mig. Þá fer maður að sækja alls konar utan við sig, elta langanir sem hafa ekkert með þarfir að gera. Eins og einn yndislegur kennari minn, Kristbjörg Kristmundsdóttir segir oft, maður fer að elta langanapúkann. Ég myndi segja að ég sé á því ferðalagi að vera alltaf meira og meira í tengslum og er alls ekki búin að mastera það. En líf mitt og líðan breyttist mikið þegar ég náði að sortera hlutina sem voru oft og tíðum mér svo ómeðvitaðir að ég var ekki einu sinni í tengslum til að vita hvar ég átti að byrja.

Öll þau verkfæri sem ég er með í þessu námskeiði hef ég notað sjálf. Eitt skref í einu, fyrst er að setja hlutina í meðvitund, þora að sjá þá og viðurkenna og þá er hægt að fara að vinna. Skömm og sektarkennd lúra í því sem er ekki er sett á radarinn, því verður maður að minnsta kosti að viðurkenna að þessar tilfinningar eru þarna. Ég er svo heppin að starfa sem meðferðaraðili svo það er ekkert annað í boði en að vera stöðugt í þeirri vinnu að vera sem heiðarlegastur gagnvart sjálfum sér og öðrum.“

Þegar Ragnhildur er spurð að því fyrir hverja þetta námskeið sé segir hún að það sé fyrir alla sem séu á bataleið. 

„Námskeiðið er klárlega fyrir alla sem eru á bataleið og þroskaferðalagi. Fyrir þá sem eru orðnir þreyttir á að reyna að breyta umhverfi sínu,“ segir hún en hægt er að skrá sig á námskeiðið HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál