„Ég var fastur í myrkrinu og í neyslu“

Natalie Narvaez Antonsdóttir og Þórir Kjartansson.
Natalie Narvaez Antonsdóttir og Þórir Kjartansson. Ljósmynd/Heiða Helgadóttir

Þórir Kjartansson og Natalie T. Narvaéz Antonsdóttur þurftu virkilega að berjast fyrir hjónabandi sínu eftir að alvarlegt áfall skók undirstöðu lífs þeirra um tíma. Þau eru komin fyrir vind eftir mikla sjálfsvinnu og saman rækta þau hvort annað og fjölskyldu sína. Saga Þóris er saga áfalla, einmanaleika, ótta og vanrækslu en líka upprisu, gleði og sigurs. Natalie aftur á móti var leitandi en fann réttu leiðina þegar hún sá leikrit í Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu í Reykjavík og fann það sem hafði vantað í líf hennar. Steingerður Steinarsdóttir ræddi við þau fyrir Samhjálparblaðið: 

Þórir svaf oft í bílakjallara Ráðhúss Reykjavíkur þegar verst var komið fyrir honum. Í dag er hann húsvörður í því húsi og á í góðum samskiptum við borgarstjóra og aðra er vinna þar. En þegar honum leið verst hafði hann sætt sig við að örlög hans yrðu að búa á götunni.

„Ég var kominn á þann stað í mínu lífi að ég var fastur í myrkrinu og í neyslu,“ segir hann. „Þetta líferni var farið að hafa mikil andleg áhrif á mig. Ég fór inn og út af geðdeild en þar fann ég öryggi um stund. Það var komið að þeim tímapunkti að ég hefði svipt mig lífi ef ég hefði þorað því. Mig langaði mest að eyða mér einhvern veginn því ég sá engan tilgang og eygði enga von um að ég gæti orðið edrú. Ég var ofboðslega reiður og bitur út í allt og alla. Ég kenndi í raun öllum öðrum um en sjálfum mér. Það er staða sem maður lendir oft í þegar maður er á þessum stað. Ég vissi bara ekki mitt rjúkandi ráð.“

Leyndarmálið var þung byrði að bera

Áttir þú eitthvert bakland, einhverja sem þú gast leitað til?

„Það var svo mikil skömm í lífi mínu að mig langaði ekki að leita til neins, vildi bara vera í friði því mér fannst enginn skilja mig. Foreldrar mínir eru báðir alkóhólistar og ég missti mömmu mína fyrir um það bil tíu árum. Pabbi minn er virkur alkóhólisti enn í dag og ég er alinn upp í mjög sjúku umhverfi,“ segir Þórir. „Mig vantaði væntumþykju, aðhald og umhyggju. Orsökin fyrir öllu saman var líka misnotkun sem ég varð fyrir í æsku og hélt ævinlega leyndri, fór ekki að vinna í því fyrr en 2021. Maður sem bjó í hverfinu mínu þóttist vera vinur minn og beitti mig ofbeldi. Ég fékk þau skilaboð að ég mætti ekki segja frá þessu og var fullur af sektarkennd og skömm. Það er ekki gott að ganga með það allt líf sitt að vera hræddur og reiður, geta ekki treyst neinum, og ég var rosalega einn. Þannig voru flest árin mín í neyslu nema kannski rétt fyrst. Þegar ég byrjaði að drekka var eins og það opnaðist einhver flóðgátt og ég losnaði við hömlurnar og gat farið að tala. Ég hugsaði eftir fyrsta vímugjafann minn: Þetta ætla ég að gera aftur. Ég fann fljótt minn vímugjafa, amfetamín, mér þótti gott að vera vakandi lengi. Þá gat ég talað og slegið frá mér ef þurfti en það fór mjög fljótt með mig á enn verri stað.“

Ljósmynd/Heiða Helgadóttir

Var edrú en ekki í bata og féll

Þórir á að baki tvær meðferðir og tvö tímabil edrúmennsku. Fyrra edrútímabilið var árið 2007, en þá fékk Þórir að búa í Ármúla hjá Baldri, sem hafði breytt húsnæði þar í athvarf fyrir fólk nýhætt í neyslu.

„Baldur var ótrúlega góður við mig og hans fjölskylda og hann kynnti mig fyrir Guði en ég náði einhvern veginn ekki utan um allt þetta góða, ég var að stíga upp úr svo miklu myrkri. Ég var edrú en ekki í bata,“ segir Þórir. „Ég var þurr en mér leið illa. Mig vantaði að sinna prógramminu, vera heiðarlegur. Ég var fullur af skömm, hræddur, fannst allir vera að dæma mig og ég alltaf vera skítugur. Bæði út af misnotkuninni sem ég varð fyrir og mínu fyrra líferni. Ég féll og við tóku þrjú hörmungarár. Fjölskyldan sneri baki við mér og ég fékk ekki að hitta barnið mitt. Ég var líkamlega talinn svo illa staddur að læknirinn minn setti mig á varanlega örorku og sagði að ég ætti ekki afturkvæmt á vinnumarkaðinn. Ég þvældist um, var stundum í einhverjum herbergjum, stundum hjá hinum og þessum og stundum á götunni.“

Að þessum hörmungarárum liðnum urðu tveir vendipunktar í lífi Þóris. Hann hitti mann sem hann kannaðist við í strætó á leið niðri í bæ. Hann var að kenna syni sínum á strætókerfið.

„Hann sá að ég var í hræðilegu ástandi bæði andlega og líkamlega og sagði við mig: „Þórir, það er til lausn á þessu. Ég er að vinna í Alanó-húsinu. Komdu á fund til mín. Þú getur alltaf komið til mín.“ Eftir nokkrar vikur fór ég á fund og verið var að selja lyklakippur með æðruleysisbæninni í anddyrinu og ég keypti eina. Hann tók á móti mér, faðmaði mig og sagði: „Ég er búinn að vera að bíða eftir þér.“ Hann bauð mig velkominn og ég bað hann að vera sponsorinn minn í kjölfarið. Pabbi minn bjó þá í Hveragerði og ég fékk að vera hjá honum í 2–3 vikur meðan ég tók erfiðasta hjallann í fráhvörfum. Ég svaf þar en tók strætó í bæinn á AA-fundi á hverjum degi. Edrúdagurinn minn er 17. september 2013.“

Ljósmynd/Heiða Helgadóttir

Mætti daglega á göngudeild Samhjálpar

Á þessum tíma kom Sveinn, bróðir Þóris, aftur inn í líf hans og dag nokkurn var hann að keyra hann upp Ártúnsbrekkuna.

„Ég hugsa oft um þetta samtal okkar því ég bý í Ártúnsholtinu og við að vera komin á þennan stað í dag fyllist ég þakklæti. „Þórir,“ sagði hann við mig. „Þú getur orðið edrú. Þú getur breytt lífi þínu. Þú einn getur gert það.“ Hann kom þar með þeim skilaboðum til mín að ef ég breytti hugsunarhætti mínum gæti ég eignast líf eins og hann var búinn að eignast. Þetta sat í mér og ég fór sjálfur upp í Samhjálp, sem þá var í Stangarhyl, og talaði við Þóri Haraldsson áfengisráðgjafa. Hann bauð mér að fara inn á Sporið, áfangaheimili. Ég fékk að fara þangað inn með þremur skilyrðum, að ég væri edrú og kæmi upp í Samhjálp á göngudeildina á hverjum degi, léti sjá mig og færi ekki niður í bæ. Og svona byrjaði gangan mín. Ég fór að hjálpa til á Nytjamarkaðnum og fór síðan á Samhjálparbílinn. Upp frá þessu fékk ég vonina um að ég gæti orðið edrú aftur.

Ég bjó á Sporinu fram að áramótum, eftir það flutti ég á Brú og fljótlega varð ég húsvörður þar. Ég man sérstaklega eftir því þegar ég fór í bankann í fyrsta sinn og borgaði húsaleigu. Mér fannst það rosalega merkilegt. Ég hafði ekki há laun og helmingurinn fór í leiguna en mér fannst það stórkostlegt. Á svipuðum tíma var ég farinn að hafa samband við son minn aftur og hann farinn að koma til mín aðra hvora helgi. Mér bauðst svo vinna í Gistiskýlinu við Lindargötu sem Samhjálp sá um á þeim tíma. Það hjálpaði mér gríðarlega mikið fyrstu árin að vinna þarna og ég var þakklátur fyrir að vera kominn aftur á vinnumarkaðinn. Ég náði góðu sambandi við karlana og ég varði tveimur aðfangadagskvöldum með þeim þar sem Hjálpræðisherinn var með jólaboð í Ráðhúsinu og við fórum allir saman.“

Keyrði tvisvar framhjá barnum

Þórir eignaðist þarna von og trú á að eignast nýtt líf. Hann hélt áfram að vinna á Gistiskýlinu og maðurinn sem hafði verið talinn með varanlega örorku og óvinnufær gat sér fljótt gott orð fyrir dugnað og áreiðanleika. En hvað með Natalie, hefur hún glímt við fíkn?

„Já, ég var ekki komin á góðan stað. Ég hef alltaf verið sjálfstæð og flutti ung að heiman, en ég flutti ekki út af einhverju veseni,“ segir hún. „Ég er skilnaðarbarn en átti gott heimili. Pabbi var ekki mikið í mínu lífi þegar ég var að alast upp, en við áttum samt mjög gott samband fram til hans síðasta dags. Hann lést í nóvember 2019. Hann átti við alkóhólisma að stríða um nokkurt skeið. Það er mikið um alkóhólisma í fjölskyldu minni. Þegar ég var átján ára fór ég á fjölskyldunámskeið hjá SÁÁ og það gaf mér smá drifkraft. Einn eðlilegasti hlutur í heimi í umhverfi mínu var að byrja að drekka, „allir drukku“ og ég byrjaði um fermingaraldur.

Það var drukkið um helgar og svo fór það að verða meira og meira og stjórnleysi að taka yfir, sérstaklega eftir grunnskóla þegar ég var farin að vinna og bjó ein. Ég fann alveg að þetta var ekki í lagi og ég var farin að hugsa, það hlýtur að vera eitthvað meira í þessu lífi en þetta. Auk þess var þetta farið að verða það kostnaðarsamt að ég náði varla að standa undir því. Lífið var farið að fara niður á við og mig farið að hungra í að vita meira, finna einhvern tilgang. Ég fór ekki í meðferð, því ég sá ekki fyrir mér að ég gæti tekið mér frí til þess, kunni ekkert á þessar leiðir. Ég er mjög ábyrgðarfull og sá ekki leið til að borga reikningana mína á meðan ég væri í margra mánaða meðferð og vissi ekkert hvað ég átti að gera. Ég sagði við vinkonur mínar: „Ég á eftir að hætta að drekka, ég veit ekki hvernig eða hvenær en sá dagur mun koma.“

Fljótlega eftir þetta var mér boðið á leikrit í Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu í Hátúni, þetta var í febrúar árið 1999. Ég man að þennan dag leið mér hræðilega illa. Ég ætlaði eiginlega að hætta við að fara en fannst þetta samt spennandi og dreif mig. Mér fannst mjög sniðugt að verið væri að nýta húsið í eitthvað annað en messu, hafði ekki hugmynd um að þetta væri á vegum kirkjunnar. Leikritið snerist um lífið, hvernig okkur getur liðið og erfiðleikar leikið okkur grátt. Það var verið að sýna þunglyndi, kvíða, drykkju og bara hvernig hversdagsleikinn getur sligað okkur. Svo var sýnt hvernig allt breyttist þegar þessir einstaklingar tóku við Guði. Okkur var sagt hvernig Jesú hafði dáið fyrir syndir okkar og að hann gæti létt allar okkar byrðar. Hann gæti gefið okkur frið, betra líf og eilíft líf. Ég var eiginlega uppnumin. Hugsaði, ef þetta er satt þá vil ég þetta. Ég hafði haldið að Jesú væri bara ævintýri.

Þeim sem vildu var boðið að koma fram og taka þetta skref að taka við Guði. Ég þorði sko ekki og sat sem fastast í sætinu en hjartað í mér barðist og eitthvað innra með mér hrópaði: Ég vil þetta. En ég bara gat ekki gengið fram. Ég var svo meyr og gráti næst. En þarna fann ég að eitthvað gerðist. Lífið hjá mér breyttist og ég fann að ég vildi vita meira og upp frá þessu hætti ég að drekka og reykja. Mig langaði ekki lengur í bæinn að djamma og vinir mínir og vinkonur skildu ekkert í þessu. Þau reyndu að fá mig með og ég reyndi að taka þátt og fór meira að segja einu sinni niður í bæ og ætlaði að hitta þau á bar en ég keyrði tvisvar sinnum framhjá. Ég gat ekki farið inn. Ég var komin með ógeð á þessu. Það var kominn nýr andi. Nýtt líferni hafði tekið við af gömlu. Ég fór að sækja samkomur í Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu og það var tekið óskaplega vel á móti mér og ég er þar enn.“

Ljósmynd/Heiða Helgadóttir

„Vá hvað hún er falleg“

En hvernig kynntust þið?

„Ég var alltaf að þvælast í Samhjálp og Natalie kom þangað að vinna og ég tók á móti henni. Ég man að ég hugsaði; vá hvað hún er falleg,“ segir Þórir og horfir hlýjum augum á konu sína.

En þér, Natalie, hvernig leist þér á hann?

„Það var ekkert svoleiðis,“ segir hún brosandi. „Ég var bara að koma í vinnu og síst af öllu að hugsa eitthvað á þeim nótum. Ég hóf störf 2014 en kynntist Þóri svo sem ekki mikið. Hann kom reglulega við, en til að gera langa sögu stutta gerðist ekkert á milli okkar fyrr en í janúar 2017.“

„Já, ég var með augun á henni,“ skýtur Þórir inn í.

„Ég var ekkert að pæla í þessu, en þegar ástin kviknar milli okkar var hann fluttur af áfangaheimilinu Brú í íbúð sem hann tók á leigu. Við fórum að hittast og ég ákvað bara að leita til Guðs með þetta. Ég vissi eitthvað um hann, alls ekki allt um fortíð hans. Hafði lesið viðtal við hann en sá bara hvað hann var búinn að vera duglegur og kominn vel af stað í lífinu. Hann var búinn að vera þrjú og hálft ár edrú þegar við fórum að vera saman. En ég þurfti vissulega að hugsa mig um hvort ég væri tilbúin í þetta samband. Svo kolféll ég fyrir honum.“

Ljósmynd/Heiða Helgadóttir

Treysti Guði

En varaði þig einhver við honum eða að taka saman við hann?

„Nei, ég vildi bara leggja þetta í hendur Guðs og talaði því ekki við aðra um það. Ég var sannfærð um að ef Hann vildi að þetta yrði maðurinn minn myndi Hann leiða mig áfram; ef ekki myndu dyrnar lokast. Þórir var svo kurteis og almennilegur alltaf við mig og gaf mér tíma. Í raun var mjög auðvelt að kynnast honum og mér leið rosalega vel með honum.“

„Ég var á mjög góðum stað andlega á þessum tíma,“ bætir Þórir við. „Ég vildi byrja allt upp á nýtt, læra allt upp á nýtt og losna við þær hömlur sem höfðu haldið aftur af mér áður. Eftir að við tókum saman var ég enn að vinna í Gistiskýlinu og það var farið að taka svolítið í, sérstaklega að vera á næturvöktum. Þá bauðst mér vinna í Ráðhúsinu, sem ég var hræddur við að taka því ég hafði hrærst svo lengi í að vinna með fólki með fíknisjúkdóma að þetta var of „heilbrigt“ – ég vissi ekki hvort ég myndi funkera þarna. En konan mín sagði: „Þetta er ekki spurning, þú tekur þessari vinnu og átt eftir að læra svo mikið þarna,“ og ég sé svo sannarlega ekki eftir því.“

Lamaður eftir vinnuslys

Og þar hefur hann verið síðan. En lífið bauð enn og aftur upp á óvæntan snúning. Áfall sem setti allt úr skorðum um tíma.

„Þetta hefur ekki alltaf verið dans á rósum. Fyrir tveimur og hálfu ári lenti ég í rosalegu vinnuslysi. Ég féll niður um tvo og hálfan metra af stillans í Ráðhúsinu og var fluttur á gjörgæslu. Það var tvísýnt í byrjun hvort ég hefði lamast eða ekki því ég missti allan mátt í fótunum. Lá á gjörgæslu og gat ekki hreyft mig. Natalie og Sandra systir hennar komu upp á gjörgæslu og Natalie fékk rétt að hitta mig, ég gat ekki hreyft mig né talað við hana. Til mikillar blessunar fékk ég mátt í fæturna aftur daginn eftir, en mikið hafði verið beðið fyrir mér bæði hjá Samhjálp, í kirkjunum og á sjúkrahúsinu þar sem Natalie bað fyrir mér. Ég stóð bara upp daginn eftir. Ég hafði fengið svona rosalegt mænusjokk. Taugarnar höfðu lamast við sjokkið.“

„Það fyrsta sem hann sagði við lækninn var: „Ekki gefa mér neitt eitur“,“ segir Natalie. Þóri var auðvitað efst í huga að ekki mætti vekja neina fíknivaka með verkjalyfjum.

„Ég var kominn heim tveimur dögum seinna, en upp frá þessu hófst rosalegt tímabil hjá mér,“ segir hann. „Ég var mjög verkjaður í líkamanum og gat rétt svo gengið um gólf heima. Kvíði, vonleysi og reiði helltust yfir mig. Ég velti fyrir mér hvort ég kæmist út á vinnumarkaðinn aftur eða hvort af þessu hlytist varanleg örorka. Mér leið illa að kyssa konuna mína bless á hverjum morgni þegar hún var að fara í vinnuna og sonurinn í skólann og eftir sat ég einn heima, kvalinn af sársauka. Andlega hliðin hrundi. Ég var pirraður og reiður og ýmsir skapgerðarbrestir komu í ljós. Já, ég fór á virkilega slæman stað. Ég var kominn á fallbraut.“

„Þakkaðu fyrir að þú getur gengið“

„Þetta gerðist í október 2020,“ segir Natalie. „Ég var alltaf að segja honum: „Þórir, þakkaðu fyrir að þú getir gengið. Þú átt eftir að ná þér.“ Hann náði sér frekar fljótt, þ.e. að standa upp og svona, en hausinn á honum var bara ekki á réttum stað og hann var mjög verkjaður í líkamanum í mjög langan tíma. Hann fór aðeins að vinna um miðjan desember en krassaði alveg. Í janúar var hann sendur aftur í veikindafrí, fór aftur til vinnu of snemma, krassaði í annað sinn og fór aftur í veikindafrí. Brestirnir, reiðin og biturleiki brutust út. Þetta var rosalega erfiður tími og mér leist bara ekkert á hann stundum. Hann var hins vegar mjög passasamur með lyfin. Þeir vildu bara senda hann heim með alls konar lyf en hann tók það ekki í mál. Í rauninni kom gamli maðurinn upp, allt nema neyslan. Frá barnæsku og til þrjátíu og eitthvað ára var hans heimur neysla og blekking. Honum var ekki tamt siðferði og þolinmæði og þarna helltust yfir hann alls konar venjur og vondar leiðir út úr vandanum.“

Ferlið sem Þórir lýsir er auðvitað ekkert nýtt. Fólk sem þjáist af áfallastreitu þekkir svona bakslög. Ný áföll vekja upp gömul og stundum þarf að byrja upp á nýtt að vinna úr vondum tilfinningum. En hvað varð Þóri til bjargar?

„Ég fékk annað tækifæri hjá konunni minni og fór að vinna markvisst í mér. Hún á heiður skilinn fyrir hvernig hún tókst á við þetta tímabil. Ég fór til sálfræðings og þerapista. Tók sjálfan mig almennilega í gegn. Ég hef verið undanfarið ár hjá VIRK starfsendurhæfingu, vann með sjúkraþjálfara og kírópraktor og fór á AA-fundi og í ræktina. Ég gafst upp með báðum höndum og fór að leita Guðs, sem mætti mér á stórkostlegan hátt og ég er enn þar í dag. Ég fór að treysta og trúa því að ég gæti eignast og haldið í gott líf og skilaði skömminni, hún tilheyrir mér ekki lengur.“

„Þetta gamla „ég kann ekki neitt, get ekki neitt, er ekki nógu góður“ var svo ríkt í honum, fórnarlambshlutverkið. „Af hverju ertu með mér?“ spurði hann oft. Við þurftum að fara í hjónabandsráðgjöf,“ segir Natalie og röddin brestur. „Þetta var ofboðslega erfiður tími. En ég gafst ekki upp. Trú mín var sterk. Ég var alltaf að hvetja hann og uppörva. Segja honum hvernig Guð sér hann. Að auðkenni hans þyrfti að vera í Guði, Hann er jú skaparinn. Eins og segir: „Ef einhver er í Kristi er hann skapaður á ný, hið gamla varð að engu, sjá nýtt er orðið til,“ (2.Kor. 5:17). Ég þurfti líka að horfa framhjá öllu því sem var í gangi. Guð sýndi mér hann eins og Hann sér hann og þá gat ég verið miskunnsöm og fyrirgefið og elskað hann til lífs. Eins og í byrjun sá ég alltaf þetta hjarta sem hann hafði og ég vissi að hann vildi ekki vera svona. Við fórum í massífa hjónabandsvinnu og að þrýsta okkur nær Guði og trúa því hver Hann segir okkur vera, ekki láta aðstæður og kringumstæður stjórna lífi okkar. Þá komst að kærleikur, heiðarleiki og virðing. Grunnurinn okkar var líka sterkur í sambandinu.”

Beið eftir stóra skellinum

„Á tímabili var ég fullviss um að ég myndi missa allt frá mér,“ segir Þórir. „Ég var ekki kominn að því að ætla að fara detta í það en ég var kominn mjög langt niður. En í dag er ég á mínum besta stað í lífinu, betri en ég hef nokkru sinni verið. Ég stunda AA-fundi og samkomur og læt gott af mér leiða og hjálpa öðrum. Ég er kominn aftur í vinnuna hægt og rólega og í dag er ég í 75% vinnu. Mér finnst ég andlega sterkari en ég var.“

„Þegar við byrjuðum saman var hann enn að læra einhvern veginn á lífið,“ segir Natalie, „ekki það að ég sé með það á hreinu en þá meina ég að hans tími í neyslu og rugli var búinn að vera svo langur. Honum fannst hann ekki eiga neitt gott skilið og um leið og honum var farið að líða vel varð hann hræddur við að missa það. Ég sagði honum að ég væri ekkert að fara en hann beið alltaf eftir því eða bjóst við því, því hann var svo vanur sjálfur að hlaupa alltaf í burtu. Var alltaf í viðbragðsstöðu, hvenær kemur skellurinn. Allt hafði gengið mjög vel hjá okkur og rétt fyrir slysið var mikið álag í vinnunni, það vantaði starfsfólk og hann vann út í eitt. Í rauninni var sjálfsmynd hans líka mjög bundin vinnunni og þegar hún fór hrundi allt. Ég var alltaf að reyna að segja honum að horfa á það sem hann hefði og að hann yrði að byggja upp sjálfsmynd óháða starfinu. Í dag get ég sagt að þessi reiði og sársauki, sem var alltaf þarna þótt við sæjum það ekki þá og ég áttaði mig ekkert alveg á, er nú farinn. Það er komin lækning. Öll þessi vinna tekur tíma og það tekur tíma að sleppa öllu.“

Þórir á einn sautján ára strák, Natalie á tuttugu og tveggja ára dóttur og son sem er tólf ára. Dóttir hennar er flutt að heiman með tengdasyni og eiga þau ársgamlan yndislegan dreng.

„Við erum orðin amma og afi,“ segir Þórir. „Það er best í heimi. Ég upplifi það mjög sterkt. Ég var ekki til staðar fyrir strákinn minn þegar hann var lítill en núna fæ ég að ganga í gegnum þetta allt og sá litli er svo hrifinn af mér. Það er stórkostlegt og að vera kominn á þann stað sem ég er á í dag er kraftaverki líkast.“

„Von fyrir alla“

Þórir segist þakka Samhjálp og þeim stuðningi sem hann mætti þar það líf sem honum hefur tekist að byggja upp. Hann nýtur mikillar virðingar og velvildar í vinnunni, enda sinnir hann nú af alúð og natni húsinu þar sem hann leitaði skjóls þegar hann var einn á reiki um götur Reykjavíkur. Er það ekki svolítið skrítinn snúningur á lífinu?

„Það er náttúrlega alveg magnað og það segir manni það að allt er hægt, enginn er vonlaus. Allir eiga séns og með því að framkvæma einn dag í einu getur maður verið edrú með hjálp Guðs og treyst honum. Þrátt fyrir storma lífsins veitir Hann styrk og kraft til að halda áfram. Trúin er gjöf og ég sagði já takk við þeirri gjöf,“ segir Þórir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál