Samskipti fólks hafa lengi verið hugleikin Lindu Baldvinsdóttur, lífsmarkþjálfa og samskiptaráðgjafa. Linda heldur úti vefsíðunni Manngildi þar sem hún skrifar pistla og greinar með það að markmiði að aðstoða fólk við að fást við fjölbreytt verkefni lífsins með heilbrigð samskipti að leiðarljósi.
„Þar sem að heilbrigði ríkir þar er hlustað á þig,“ sagði Linda í samtali við Ásthildi Hannesdóttur í Dagmálum.
Samkvæmt Lindu eru heilbrigð samskipti oftar en ekki forsenda hamingjunnar og á það sérstaklega við þegar um samskipti í nánum samböndum er að ræða.
„Þú verður pínulítið eins og strengjabrúða. Og ef þú ert ekki þar þá verða læti,“ lýsti hún eitruðum samskiptum og sagði mikilvægt að þekkja rauðu flöggin þegar ný ástarsambönd taka að myndast. Aukin tíðni á ofbeldi í nánum samböndum sýni það svart á hvítu að um alvarlegt samfélagsmein sé að ræða.