Brynhildur S. Björnsdóttir er framkvæmdastjóri GG Verk ehf. Hún er gift og á fjögur börn. Hún er einnig stjórnarformaður Sjúkratrygginga Íslands. Brynhildur er í þriggja ára námi með vinnu í Harvard (Owner President Management) og mun útskrifast þaðan árið 2020.
„Það er svolítið eins og að gera upp á milli barnanna sinna – öll hafa sinn sjarma og öll bráðnauðsynleg. En ætli turnkraninn standi ekki alltaf upp úr. Tignarlegur, mikil lyftigeta og flott hönnun.“
Hvernig er að starfa í byggingariðnaðinum sem kona?
„Það er frábært. Þó ég sakni þess auðvitað að við séum ekki fleiri. En það er líka gaman að fá að spreyta sig í karllægum bransa.“
Hvað heillar þig mest við innanhússhönnun?
„Heiðarleiki og það sem er persónulegt. Mér líður ekki vel í stórum, köldum eða ópersónulegum rýmum. Ég heillast meira af þessu persónulega og jafnvel „kaotíska“ frekar en hreinum línum og „mínimalisma“. Litir gleðja mig bæði í innanhússhönnun og í persónuleikum. Litir gefa öllum víddum lífsins svo mikið gildi.“
Hvað keyptir þú þér síðast inn á heimilið?
„Ég var að koma frá Marokkó og vildi að ég hefði getað keypt heilan bílfarm af fallegum hlutum þar til að taka með heim en sætti mig við að kaupa bara eina pínulitla keramikleirskál undir Maldon-saltið. Ég hefði sennilega keypt meira ef ég hefði ekki verið á leiðinni í nám til Boston beint í framhaldinu með níðþunga ferðatösku af námsbókum.“
Hvaða ilmvatn notar þú?
„Ég er algjör lyktarfíkill. Veit ekkert betra en að smyrja mig með allskyns olíum og lyktum. Hef prófað ógrynni af ilmvötnum en kem alltaf til baka til sama ilmvatnsins og ég keypti þegar ég var 15 ára, eða SUN frá Jil Sander. Eini ókosturinn er sá að ilmvatnið hefur ekki fengist á landinu í fjölda ára en ég kaupi það í bílförmum erlendis. Enda sem betur fer alltaf ódýrasta ilmvatnið í búðinni.“
Hver er uppáhaldshönnuðurinn þinn?
„Ég er afskaplega merkjablind og kaupi satt að segja sjaldnast nýja hluti. Elska að kaupa notaða hluti með sál og eða endurnýta hluti frá fjölskyldu og vinum. Jafnvel flikka aðeins upp á hlutina sjálf og gera þá að mínu. En ætli ég sé ekki þakklátust öllum hönnuðum IKEA fyrir að hafa gert okkur öllum kleift að eiga fallega hluti – á lágu verði?“
Hvað gefur lífinu gildi?
„Fjölskylda og vinir, að reyna að gera betur í dag en í gær, að vera skotin í makanum sínum, ferðast og sjá nýja hluti, hlátursköst og trúnó.“
Hvar kjarnar þú þig heima?
„Morgunstundin – þar sem ég reyni að vakna á undan öllum og plana daginn minn. Áður en tölvupóstunum fer að rigna niður. Kjörnunin getur gerst hvar sem er – bara án símans og með kaffibolla. Það er eina „möstið“.“
Hver er uppáhaldsborgin þín?
„Berlín. Alltaf Berlín. Iðandi af mannlífi, fjölmenningu, afslöppuðu andrúmslofti, veggjakroti, list, fágun, litagleði og ótrúlegri sögu.“
Hvað heillar þig mest í þessu lífi?
„Fólk í öllum sínum myndum, stærðum, litum og gerðum. Ég elska margbreytileikann og lærdóminn sem við getum dregið af því að hlusta hvert á annað og reyna að skilja. Maður vex í hvert sinn sem maður talar við aðra manneskju – svo ég tali nú ekki þegar maður lendir á óvæntum „trúnó“. Sem ég á alveg til í að lenda á með bankastarfsmanninum, lækninum eða stöðumælaverðinum. Það er sérstakt áhugamál hjá mér.“
Áttu þér áhugamál tengt vinnunni?
„Ég elska auðvitað fallegar byggingar. Eitt af því sem ég skoða og heillast af þegar ég ferðast. En helsta áhugamálið mitt er í raun vandaðir stjórnunarhættir. Að skapa fyrirtækjamenningu þar sem öllum líður vel og verða besta útgáfan af sjálfum sér. Það er númer eitt, tvö og þrjú.“