Simbi framfleytti sér með glæpum

Sigmundur Geir Helgason eyddi tíu árum af lífi sínu í …
Sigmundur Geir Helgason eyddi tíu árum af lífi sínu í mikla fíkniefnaneyslu. Ljósmynd/Eggert

Sigmundur Geir Helgason væri líklega ekki á lífi í dag ef hann hefði ekki komist í meðferð
í Hlaðgerðarkoti fyrir tæpu einu og hálfu ári. Sigmundur Geir, sem er ávallt kallaður
Simbi, framfleytti sér með glæpum um árabil, en eftir að tveir vinir hans létust úr morfínneyslu sneri hann við blaðinu og leitaði sér aðstoðar. Hann segir mestu lækninguna vera fólgna í því að hjálpa öðrum. Gísli Freyr Valdórsson tók viðtal við hann fyrir Samhjálparblaðið og fékk Smartland leyfi til að endurbirta það hér. 

Ljósmynd/Eggert

Simbi, sem er fæddur 1984, ólst upp í Vogum á Vatnsleysuströnd. Að hans eigin sögn var hann í hálfgerðum villingabekk í grunnskóla, og hann var aðeins 14 ára gamall þegar hann byrjaði að drekka. Þegar hann var 17 ára gamall flutti hann til Hafnarfjarðar ásamt eldri bróður sínum. Ári síðar, þegar hann var 18 ára, byrjaði hann að nota fíkniefni.

„Ég hóf nám og ætlaði að mennta mig sem vélstjóri. Faðir minn og eldri bróðir eru báðir vélstjórar og ég ætlaði mér að verða það líka,“ segir Simbi þegar hann hefur að rifja upp sögu sína. Hann lauk fyrsta stigi í vélstjórn, en fór svo á sjó í Grindavík. Þá var hann byrjaður í neyslu og notaði amfetamín nær daglega.

„Ég áttaði mig ekki á því þá að þetta efni myndi stjórna lífi mínu næstu árin,“ segir Simbi.

„Ég vann þarna sem annar vélstjóri, en tók amfetamín með mér út á sjó. Það kom auðvitað að því að ég fúnkeraði ekki í vinnu, enda vakti ég heilu túrana, meira að segja á frívöktum. Að lokum var mér sagt upp, þó á góðan hátt, en það var ljóst að ég gat ekki falið neyslu mína og ekki blekkt neinn.“

Simbi tók sig þó á, hætti í neyslu í skamma stund og náði sér í aukin ökuréttindi. Í kjölfarið hóf hann að keyra hópbifreið.

„Ég þráði mikið að eiga það sem kallað er venjulegt líf, en það gekk ekki betur en svo að ég féll fljótlega aftur í neyslu. Á þessum tíma var ég einnig farinn að hafa afskipti af undirheimunum, sem heilluðu mig fyrst um sinn, svo einkennilega sem það kann að hljóma,“ segir Simbi.

Honum var sagt upp hjá rútufyrirtækinu, eftir að móðir hans hafði látið eigendur þess vita að hann væri að keyra undir áhrifum.

„Þá gerði ég mér grein fyrir því að þetta var orðið stórt vandamál,“ segir Simbi.

„Ég fór inn á Vog, en stoppaði stutt, aðeins í þrjá daga. Ég var uppfullur af egói og setti upp grímu í þeim tilgangi að blekkja alla, þó mest sjálfan mig. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að það yrði erfitt að losna við fíknina næsta áratuginn. Þessi töffari, sem ég taldi mig vera, átti ekkert erindi inn á Vog að mínu mati.“

Þá voru það aðeins undirheimarnir sem biðu og buðu upp á næstu tækifæri. Á næstu
árum lagðist hann þó nokkrum sinnum inn á Vog og í Hlaðgerðarkot, kláraði einstaka
meðferðir, en gekk oftast út eftir nokkra daga.

„Næstu tíu ár þar á eftir voru skelfileg og ég gerði hluti þá sem ég er ekki stoltur af,“ segir Simbi.

„Ég þorði aldrei að takast á við það verkefni að breytast, að tengjast inn í AA-samtökin og horfast í augu við sjálfan mig. Það er sagt í AA-samtökunum að óbreytt förum við aftur að drekka. Þetta er eitthvað sem ég kaus að heyra ekki fyrr en ég fór í mína síðustu meðferð fyrir um um einu og hálfu ári síðan. Í það skipti tók ég meðferðina loks alvarlega. Fyrstu mánuðina lét ég lítið fyrir mér fara, gerði það sem mér var sagt að gera, breytti hugsun minni og hegðun, breytti jafnvel fatastíl og seldi skartgripina mína. Samhliða lokaði ég á alla
neyslufélaga mína, eitthvað sem ég hafði aldrei gert áður.“

Framfleytti sér með glæpum


En tekst manni að viðhalda eðlilegu lífi í tíu ár í neyslu?

„Í raun ekki. Ég hélt þó húsnæði í átta ár og framfleytti mér með glæpum. Einhvern veginn var maður á ákveðnum tímapunkti búinn að sætta sig við það, en það er langt frá því að vera eðlilegt,“ segir Simbi.

Árið 2013 fékk Simbi dóm fyrir ofbeldi og sat inni í eitt ár.

„Eins mikill töffari og ég taldi mig vera, þá leið mér alls ekki vel í fangelsi,“ segir Simbi.

„Það tala sumir um íslensk fangelsi sem þægilega lúxusgistingu, en það er alls ekki raunin. Það vill enginn vera sviptur frelsinu. Þar dvaldi ég um tíma á svokölluðum meðferðargangi og reyndi að halda mér edrú. Mér tókst það þó ekki nema í skamman tíma. Ég kláraði afplánun síðar á Sogni og Vernd. Ég fékk síðan ökklaband, en fór þá beint aftur í neyslu. Innst inni var ég samt skíthræddur, enda kunni ég ekki að lifa eðlilegu lífi.“

Þú segir að þú hafir nokkrum sinnum farið í meðferð á þessu tímabili sem þú varst í neyslu. Eitthvað hlýtur þá að toga í þig, einhver vilji til að hætta. Var það raunin?

„Áður en ég fór í mína lokameðferð var ég farinn að neyta harðari efna og hafði gert um þriggja ára tímabil. Ég var kominn djúpt á kaf í morfín-neyslu, sem er stórhættuleg,“ segir Simbi.

„Síðan gerist það að ég missi tvo góða vini mína úr neyslu, þeir voru báðir morfínfíklar. Annar þeirra var æskuvinur minn. Ég hafði skutlað honum heim að kvöldi til og hann lést um nóttina. Þetta var skelfilegt.“

Umræddir vinir Simba voru báðir morfínfíklar, en þó í minni neyslu en hann sjálfur. Hann reyndi um tíma að minnka neysluna, en líkaminn brást illa við því. Um tíma þurfti hann að láta mata sig og gat sig hvergi hreyft. Þarna var hann kominn á botninn eins og
sagt er.

„Sameiginlegur æskuvinur minn og stráksins sem lést hafði samband við mig eftir að vinur okkar lést og bauð mér að búa hjá sér á meðan ég beið eftir því að komast í meðferð. Ég þáði það. Hann hjálpaði mér að reyna að komast úr morfín-neyslu, skammtaði mér morfín í tvær vikur, alltaf minni og minni skammt. Hann fór aldrei frá mér,“ segir Simbi.

„Þarna var ég samt kominn inn á sófa hjá vini mínum. Áður gat ég alltaf framfleytt mér með einhverjum hætti, en þarna hafði ég verið á sófaflakki í tæp þrjú ár. Ég var líka orðinn svo
hræddur við að takast á við lífið að ég komst varla út í búð. Það dugði ekki lengur að taka
smá skammt af örvandi efni, ég þurfti meira til að komast út í daginn og til að fara út úr húsi yfir höfuð. Þetta voru prinsipp sem ég ætlaði aldrei að brjóta. Þegar ég drakk mikið áfengi frá 14-17 ára aldri, ætlaði ég mér aldrei að nota eiturlyf. Ég leit niður á þá sem notuðu eiturlyf. Þegar ég kynntist síðan amfetamíni taldi ég að þar væri ég búinn að kynnast ástinni í lífinu. Þá leit ég niður á alla aðra, ég taldi mig vera prinsippdópista. Síðar kynntist ég róandi efnum og þau tóku mig líka, eins og allt annað. Loks kom morfínið.“

Ljósmynd/Eggert

Fékk að afplána í Hlaðgerðarkoti

Simbi komst loksins í meðferð í Hlaðgerðarkoti í byrjun árs 2017. Á þeim tíma hafði hann þó hlotið annan dóm, þá átta mánaða dóm fyrir að aka undir áhrifum.
„Þegar starfsfólkið í Hlaðgerðarkoti sá að ég var að gera eitthvað í mínum málum, óskuðu þau eftir því að ég fengi að taka út dóminn í Hlaðgerðarkoti,“ segir Simbi.

„Það var lífsbjörg fyrir mér, því að ég hefði að öllum líkindum leiðst aftur út í neyslu hefði ég þurft að afplána í fangelsi. Ég öðlaðist mikla trú í Hlaðgerðarkoti, og það að fá að afplána þar var mikið bænasvar. Ég fékk mörg bænasvör, og það hjálpaði mér að fara í gegnum meðferðina og þau verkefni sem henni fylgja. Ég tók trúna með mér í gegnum hvert einasta spor og geri enn.“

Simbi var í meðferð í Hlaðgerðarkoti í átta og hálfan mánuð. Að henni lokinni fór hann
á Sporið í fjóra mánuði og loks á Brú, þar sem hann býr nú. Bæði eru áfangaheimili í
rekstri Samhjálpar.

„Fyrstu þrír mánuðirnir í meðferðinni voru mjög erfiðir. Við lok þess tíma fékk ég
einmitt svar frá Fangelsismálastofnun um að ég mætti vera þarna áfram og afplána minn
dóm þar. Með því öðlaðist ég líka von um að ég gæti náð bata, sem síðar varð raunin.“

„Þegar ég var búinn að vera lengur í meðferðinni, fékk ég einnig tækifæri til að hjálpa öðrum sem voru að koma inn í meðferð. Ég er enn að hjálpa sumum sem lokið hafa meðferð og eru að fóta sig aftur í lífinu. Það skiptir öllu máli að fá ábyrgð, hafa verkefni að leysa og sinna. Ég var nýlega kominn inn á Sporið þegar það kom einstaklingur inn sem var að ljúka meðferð og bað mig um að hjálpa sér með næstu skref, sem ég að sjálfsögðu gerði. Hann er
í raun búinn að hjálpa mér meira en ég honum, bara með því að biðja um hjálp og
gefa mér tækifæri til að hjálpa öðrum.“

Á meðan Simbi dvaldist á Sporinu fékk hann hlutverk stallara, sem felur í sér að vera
umsjónarmanni staðarins innan handar, sinna litlu viðhaldi, samskiptum við íbúa og
fleira. Hann gegnir nú sama hlutverki á Brú.

Ljósmynd/Eggert

Mikilvægt að hafa eitthvað fyrir stafni

Spurður um lífið eftir meðferðina segir Simbi að það gangi vel. Hann ítrekar að til þess að ná árangri þurfi viðkomandi einstaklingur að breyta hugsun sinni, hefðum og venjum. Sjálfur þurfti hann, eðli málsins samkvæmt, að loka á gamla vinahópinn sinn.

En hvernig gekk að losna úr viðjum undirheimanna, það hlýtur að vera erfitt að
brjótast þar út?

„Það gekk í raun vel og það hefur bara verið jákvætt þegar ég hitti gamla félaga úti á götu,“ segir Simbi.

„Ég var orðinn það slæmur og langt leiddur. Þeir sem voru með mér í neyslu á sínum tíma þekkja þá sögu og þeir vita að ég væri líklega ekki á lífi í dag ef ég hefði ekki farið í meðferð.“

Þú varðir rúmum tíu árum í harða neyslu og það er tími sem þú færð ekki aftur. Er eftirsjá eftir þeim árum?

„Það koma auðvitað þannig tímar. Maður hugsar með sér, af hverju tók ég ekki við þessari lausn fyrir tíu árum þegar hún stóð mér til boða?“ segir Simbi.

„En ég eflist við það að vita að ég get notað reynslu mína til þess að bjarga öðrum frá þessu víti. Ég var í raun utan þjónustusvæðis í tíu ár og ég man ekki allt [frá þeim tíma]. En þetta er eitt af því sem maður þarf að gera upp samhliða því að vinna sporin. Það var erfitt, en það er þess virði, og í dag nýti ég það til góðs. Það kemur þó fyrir að fortíðin banki upp á dyrnar. Það eru þá aðallega einstaklingar sem ég kynntist á meðan ég var í neyslu. Í sumum tilvikum þarf ég að horfast í augu við fyrri misgjörðir mínar og ég þarf að vera tilbúinn til þess. Það hafa komið upp atvik sem erfitt var að gera upp, en ég sit hér edrú í dag og tala við þig.“

Simbi segir frá því að á þeim tíma sem hann var í neyslu hafi amma hans verið eini aðilinn sem aldrei gafst upp á honum. „Hún bað alltaf fyrir mér. Mér fannst það stundum hallærislegt, á meðan ég var í neyslu, þegar hún sagði reglulega við mig að hún væri að biðja fyrir mér. Það er ekki hallærislegt í dag, enda tel ég að ég sé á lífi að hluta til vegna bæna hennar,“ segir Simbi.

Ertu hræddur um að falla einn daginn?

„Ekki ef ég held áfram á þeirri braut sem ég er á núna,“ svarar Simbi.

„En maður hræðist auðvitað gamla lífið sem slíkt, þannig að eðli málsins samkvæmt er maður hræddur við að fara þangað aftur. Það mætti frekar orða það þannig að ég hef ekki áhyggjur af því að falla eða fara inn á svokallað fallbraut, en ég óttast það mjög hvað gerist ef ég fell.“

Simbi aðstoðar í dag á Samhjálparbílnum svokallaða, en það er bíll sem sækir matvæli fyrir Kaffistofu Samhjálpar, Hlaðgerðarkot og áfangaheimili í rekstri Samhjálpar, ásamt því að sinna öðrum erindum.

„Það er mikilvægt að hafa eitthvað fyrir stafni,“ segir Simbi.

„Það er erfitt að stíga fyrstu skrefin aftur inn í samfélagið. Til að byrja með fór ég á tvo til þrjá AA fundi á dag og jafnvel tvisvar í líkamsrækt á dag, bara til að hafa eitthvað fyrir stafni. Það er e.t.v. öfgakennt, en svo finnur maður jafnvægi í þessu eins og öðru.
Hver dagur verður bara betri og betri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál