Auglýsingaherferð Kontor Reykjavík vekur heimsathygli 

Hér má sjá auglýsinguna sem er tilnefnd.
Hér má sjá auglýsinguna sem er tilnefnd.

Auglýsingastofan Kontor Reykjavík hefur hlotið tilnefningu til alþjóðlegu auglýsingaverðlaunanna CLIO fyrir „Tjáningarfrelsið má aldrei veikjast“, prentauglýsingu fyrir Íslandsdeild Amnesty International. Aðeins eru 25 auglýsingar frá öllum heiminum tilnefndar í þessum flokki prentauglýsinga en þeirra á meðal eru auglýsingar fyrir stórfyrirtæki á borð við McDonalds, Volvo, Chevrolet og Burger King.  

Auglýsingarnar hafa vakið mikla athygli fyrir beitta hugmynd og útfærslu en markmið herferðarinnar er að vekja athygli á því að aldrei hefur verið meira áríðandi að standa vörð um tjáningarfrelsi eins og nú á tímum kórónuveirufaraldursins.

„Við fengum þetta mikilvæga og viðkvæma verkefni í hendurnar frá Íslandsdeild Amnesty International sem fól í sér að minna almenning á að standa vörð um tjáningarfrelsið, sérstaklega núna á tímum Covid-19 þar sem stjórnvöld víða um heim hafa gerst sek um að brjóta enn frekar á tjáningarfrelsi þegna sinna. Með einföldu og áhrifaríku myndefni sem tengir vel við undirskriftina „Tjáningarfrelsið má aldrei veikjast“ (e. Protect Freedom of Expression in sickness and in health) tókst okkur að vekja athygli sem greinilega hefur teygt sig út fyrir landsteinana,“ segir Elsa Nielsen, hönnunarstjóri Kontor Reykjavík.  

Verðlaunahátíðin CLIO var stofnuð árið 1959 og er ein stærstu og virtustu auglýsingaverðlaun heims. Verðlaunað er fyrir auglýsingar sem þykja skara fram úr. Verðlaunaafhendingin í ár fer fram í kvöld, 21. apríl, í beinni útsendingu. 

Íslandsdeild Amnesty International og Kontor Reykjavík hafa átt gott samstarf og hafa áður hlotið alþjóðleg verðlaun fyrir fyrri auglýsingaherferðir. Kontor fékk einnig tvenn verðlaun á Lúðrinum, íslensku auglýsingaverðlaununum, í flokki almannaheillaauglýsinga í ár fyrir Amnesty International.  

„Við hjá Íslandsdeild Amnesty International erum ótrúlega stolt af því að þessar íslensku auglýsingar hafi vakið svona mikla athygli á erlendri grundu og eru nú tilnefndar til þessara merku verðlauna. Það er gaman að segja frá því að alþjóðaskrifstofa Amnesty International hefur áhuga á því að deila þessum auglýsingum víðar og eru þær komnar í gagnagrunn sem allar deildir samtakanna hafa aðgang að,“ segir Anna Lúðvíksdóttir, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty International. 

Einnig hefur herferðin „Tjáningarfrelsið má aldrei veikjast“ hlotið þann heiður að vera valin á sérstaka sýningu á auglýsingum í flokki almannaheilla á ACT Responsible’s 2021 CANNES LIONS. Á hverju ári eru bestu herferðirnar sem vakið hafa athygli á málefnum tengdum mannréttindum og loftslagsmálum valdar á sérstaka sýningu sem í ár verður í fyrsta skiptið á rafrænu formi.  

„Við erum óendanlega stolt af þessum flottu viðurkenningum. Það er ansi stórt fyrir litla auglýsingastofu á Íslandi að fá slíkan heiður að vera á sama stalli og  stærstu og flottustu auglýsingastofur heims sem starfa fyrir heimsþekkt vörumerki. Þetta er í raun eins og að vera tilnefnd til Óskarsins fyrir okkur auglýsingafólkið,“ segir Sigrún Gylfadóttir, annar eigandi Kontor Reykjavík. 

Auglýsingastofan Kontor Reykjavík var stofnuð í lok árs 2014 af …
Auglýsingastofan Kontor Reykjavík var stofnuð í lok árs 2014 af hjónunum Sigrúnu Gylfadóttur og Alex Jónssyni sem eru með áratuga reynslu af íslenskum auglýsingamarkaði. Á þessum stutta tíma frá stofnun hefur stofan hlotið fjölda verðlauna og þar á meðal unnið til fimm alþjóðlegra verðlauna fyrir herferðir sínar og má þar nefna virtu Epica-verðlaunin, Brand Impact Awards og verðlaun Art Dirctors Club of Europe.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál