Hætti að eiga bíl til að forðast vesen

Stefán Ingvar Vigfússon, grínisti og meðlimur í uppistandshópnum VHS, segir hlátur lengja lífið. Draumastarfið hans, fyrir utan uppistand, væri að vera fyndna manneskjan á skrifstofunni. Að vinna á einhverri skrifstofu þar sem hans eina starf væri að labba um og djóka eitthvað í liðinu. 

Hvernig hugar þú að heilsunni þinni?

„Stærsta áskorun mín er að huga að andlegu hliðinni. Mér hættir rosalega til samanburðar við fólk í kringum í mig og svona sérstaklega þegar það er mikið að gerast. Núna gengur rosalega vel hjá VHS og þá þarf ég að passa mig á að líta ekki of stórt á mig og þegar illa gengur eða þegar lítið er að gerast hjá mér þarf ég að minna mig á að ég er ekki bara einhver skítur á skóm samfélagsins. Það er eilífðarverkefni, þetta er breyskleiki sem ég er ekkert viss um að ég losni nokkurn tíma við, en ég reyni þá bara að taka honum og sjálfum mér eins og ég er. Heilsa honum og skilja hann.

Hvað líkamlega heilsu varðar þá geng ég rosalega mikið og hjóla á milli staða. Síðan erum við Hófí, kærastan mín, í badminton saman einu sinni í viku. Það getur alveg verið hörkuæfing og er líka gott fyrir sambandið. Okkur finnst mjög gaman að leika okkur saman þannig að þetta er bara fullkomið.“

Hvað gerir uppistand og hlátur fyrir heilsuna okkar?

„Það er náttúrulega talað um að hlátur lengi lífið, ég trúi því. Uppistand er stórkostlegt listform. Ég þekki það að halda sýningar fyrir marga, fyrir fáa og fyrir myndavél með enga áhorfendur í salnum. Þegar stór hópur fólks kemur saman og hlær verða töfrar. Það verður samsömun sem verður hvergi annars staðar en í leikhúsinu, það er allir saman í liði, lítið samfélag sem byggir á gleði. Uppistand er töfrabragð.“

Hvaða æfingar gerir þú til að koma þér í form?

„Það er badmintonið og gangan og síðan vel ég bara það besta. Stundum tek ég tímabil þar sem ég er voða duglegur að gera armbeygjur, upphífingar og lyfta lóðum, en ég mætti vera talsvert duglegri. Ég skrifaði það einmitt í pistil um daginn að ég væri kominn á þann aldur að ég þurfi að fara að taka heimilislækninum mínum alvarlega þegar hann segir mér að fara að hreyfa mig.“

Hvað borðar þú að jafnaði daglega?

„Við borðum hafragraut í morgunmat velflesta morgna, það þykir mér vera mesti sigur lífs míns. Síðan er restin af deginum kaós. Ég reyni að borða tvo til þrjá ávexti á dag en það gengur ekki alltaf. Úff. Ég borða mikið af pizzu, ef Dominos myndi bjóða mér spons þá gæti ég sennilega keypt mér stærri íbúð á svona hálfu ári.“

Hvað er það skemmtilegasta sem þú veist í lífinu?

„Brandarar! Ég hugsa um brandara allan daginn alla daga. Mér finnst ekkert skemmtilegra en að fínpússa brandara og að láta fólk hlæja. Ef ég gæti þá væri ég með uppistand fimm kvöld í viku, minnst. Draumastarfið mitt, fyrir utan uppistand, væri að vera fyndna manneskjan á skrifstofunni, vinna á einhverri skrifstofu þar sem mitt eina starf væri að labba um og djóka eitthvað í liðinu.“

En það leiðinlegasta?

„Vesen. Ég hætti að eiga bíl alveg svona 90% til þess að forðast vesen og bílar eru vesenismaskínur. Síðasti bíll sem við áttum bilaði þannig að hann drap á sér ef hann fór undir 10 km/klst. Ég fór með hann á verkstæði sem sagði mér að ég ætti að kaupa hraðamótor og ég hafði samband við varahlutasölu og bað um hraðamótor, sölumaðurinn sagði mér að það væri ekkert til í heiminum sem heitir hraðamótor en ég gæti verið að leita að hægagangsrofa. Ég var í svona þrjár vikur með þetta hringlandi um í hausnum og endaði á því að vera í kontakt við einhvern í Keflavík sem sagðist geta selt mér hraðamótorinn en síðan hætti hann að svara í símann og sendi mér svo SMS um að það væri svo mikið að gera að hann gæti ekki selt mér þennan varahlut.“

Hvað var að gerast þegar þú hlóst síðast?

„Ég var að spjalla við Hófí núna í morgun! Við vorum bara eitthvað að djóka og lágum í kasti!“

En þegar þú grést?

„Ég var í kvíðakasti í gær og fór að hágráta, það var svo sem ekkert að gerast, ekkert sem ég gat borið kennsl á alla vega.“

Hvert er uppáhaldssnjallforritið þitt?

„Ticket to ride á ipadinum mínum, þar spila ég lestaspilið fræga við tölvuna. Ég elska spil og Ticket to ride er í miklu uppáhaldi.“

Hvert er uppáhaldsleikhúsið?

„Tjarnarbíó! Þar höfum við í VHS sýnt frá fyrsta degi, þar þykir mér vera mesta gróskan, mesta nýsköpunin og mesta þorið. Ég elska Tjarnarbíó og alla sem þar vinna.“

Áttu þér uppáhaldsleikstjóra?

„Una Þorleifsdóttir, öll verk úr hennar smiðju hreyfa svakalega við mér. Konan við þúsund gráður og Harmsaga eru mér báðar afar minnisstæðar og hafa veitt mér mikinn innblástur. Hún var kenndi mér í listaháskólanum og var fagstjóri sviðshöfundarbrautar, sem mér fannst rugl nett.“

Hvað heitir uppáhaldsmyndlistamaðurinn þinn?

„Helena Margrét Jónsdóttir.“

Ef þú gætir keypt þér hvaða æfingagalla sem er – hvað myndir þú velja þér?

„Einhvern ruglaðan Versace-æfingagalla. Ég er almennt ekki fyrir merkjavörur, en ég er viss um að ég myndi stunda meiri líkamsrækt klæddur í Versace.“

Hvað gerir þú fyrir sjálfan þig daglega til að fjárfesta í þér?

„Ég byrja alla daga á því að fara í bað í svona hálftíma-klukkutíma. Það gerir rosalega mikið fyrir daginn minn.“

Hvað gefur lífinu gildi?

„Heilbrigð sambönd, það skiptir öllu máli að geta treyst fólki og vita að það muni ekki ganga á mörkin þín. Að umkringja sig góðu fólki, sama hver birtingarmynd þeirra sambanda er, sama hve miklum tíma þú eyðir með því og í hvaða formi samskiptin eiga sér stað, það gerir lífið margfalt innihaldsríkara.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál