Var helgardrykkjumaður og fór í meðferð

Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari.
Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari, er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar. Jón Steinar hefur lengi talað fyrir lögleiðingu fíkniefna og hefur sjaldan verið vissari með skoðanir sínar.

„Ég vil láta lögleiða öll fíkniefni. Það eru 30 ár síðan ég byrjaði að tala um þetta, en þá var ekki mikill grundvöllur fyrir þessum skoðunum. En ég sá að öll rökin mæltu með afglæpavæðingu og lögleiðingu. Það vex bara neyslan og fullt af fólki hefur látið lífið. Það er orðið algjörlega ljóst að stríðið gegn fíkniefnum virkar ekki. Við erum komin á endastöð og verðum að hugsa þetta allt upp á nýtt,“ segir hann.

Fengið flóðbylgju af skilaboðum

„Hægt og rólega hafa viðhorf almennings breyst og ég var steinhissa á því hvers konar undirtektir ég fékk þegar ég byrjaði að tala um þetta aftur núna nýlega. Ég hef fengið fljóðbylgju af skilaboðum frá fólki sem er sammála mér og ég trúi því að smátt og smátt munum við sjá ljósið í þessum málaflokki.“

Jón Steinar segir að eina rétta leiðin sé að draga úr eftirspurn frekar en að reyna að banna framboðið og gera allt til að aðstoða fólk sem fellur í gryfju fíknar.

„Við eigum að fræða börnin okkar og unglingana og gera allt sem hægt er til að draga úr eftirspurninni. Svo eigum við að setja enn meira púður í að hjálpa þeim sem verða fíklar, en boð og bönn virka ekki. Sagan undanfarna áratugi sýnir okkur það einfaldlega. Eins og þetta er núna eru börn og unglingar sem ánetjast þessum efnum nauðbeygð til að verða sér úti um pening af því að þetta er ólöglegt og neðanjarðar.

Þá byrja þau að fremja glæpi og selja sig og það eru svo glæpamenn sem maka krókinn. Það myndi breyta miklu að gera þetta allt löglegt og ríkið gæti svo notað hluta af peningnum sem myndi sparast við löggæslu til að hjálpa þeim sem verða fíklar,” segir Jón Steinar og bætir við að það sé hámark hræsninnar að fína fólkið sem drekki áfengi vilji hörð viðurlög við notkun annarra efna. 

Ekkert annað en hræsni

„Ég er með þá tilgátu að þeir sem eru mjög mikið fyrir áfengi séu jafnvel harðari en aðrir á móti ólöglegum fíkniefnum, af því að þá geta þeir selt sér að áfengi sé nú betra og fínna efni. Það er ekkert annað en hræsni að ég og aðrir lögmenn og dómarar séu að refsa fólki fyrir fíkniefnanotkun eða brot tengd fíkniefnum, en svo förum við saman á barinn að drekka eftir að við erum búnir í vinnunni.“

Jón Steinar þekkir vandamál áfengis af eigin raun og hann þurfti á endanum að fara í meðferð.

„Ég fór í meðferð fyrir 43 árum síðan. Ég var helgardrykkjumaður og drakk nokkra daga í röð, en svo dreif ég mig í meðferð þegar þetta var orðið augljóst vandamál. Ég er mjög vel kvæntur og það var konan mín sem sá til þess að ég gerði loksins eitthvað í málunum. Ég var í viku í meðferðinni og sá þá hvar ég var staddur og hef ekki bragðað maltöl síðan.

Ég fékk loksins almennilega fræðslu um áfengi og fíkn í meðferðinni og eftir það gat ég ekki flúið þær upplýsingar sem ég fékk. Ég er þannig úr garði gerður að ég á erfitt með að ljúga að sjálfum mér og ég hef verið laus við áfengi síðan. Líf mitt batnaði stórkostlega eftir að ég hætti að drekka, bæði mitt og fjölskyldu minnar.“

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál