Hildur Sif Hauksdóttir förðunarfræðingur og lífsstílsbloggari á H Magasín hugsar vel um húðina. Þegar hún er þreytt og illa fyrir kölluð notar hún svolítið brúnkukrem.
Hvernig hugsar þú um húðina?
„Ég reyni að finna gæðavörur með góðum og lífrænum innihaldsefnum til að bera á húðina á mér. Síðan reyni ég að drekka um þrjá lítra af vatni á dag til að hjálpa til við að bæta raka í húðinni.“
Hvernig er morgunrútínan þín?
„Morgunrútínan mín er að þvo andlitið með vatni og setja síðan gott rakakrem ásamt primer – þá er ég tilbúin í daginn! Ég er með gríðarlega þurra húð þannig ég þríf hana aðeins einu sinni á daginn upp úr andlitssápu en annars nota ég bara volgt vatn.“
Uppáhaldsdagkrem?
„Er að nota Mineral Moisterizing Cream frá Bláa lóninu sem mér finnst mjög gott og gefur góðan raka.“
Notar þú serum?
„Nei, en ég nota Organic Rosehip-andlitsolíu frá Inika á kvöldin fyrir extra mikinn raka – alveg nauðsynlegt núna í kuldanum.“
Hvernig farðar þú þig dagsdaglega?
„Myndi segja að mín daglega förðun væri litað dagkrem, hyljari, púður, sólapúður, smá maskari og highlighter – frekar einfalt! En stundum þegar ég er í stuði skelli ég á mig smá eyeliner og nude-varalit.“
Hvaða snyrtivara er í mestu uppáhaldi?
„Sú snyrtivara sem er í mínu uppáhaldi er sólapúðrið frá Inika í litnum sunkissed. Það bjargar mér alveg þessa dagana! Einnig varasalvinn frá Bláa lóninu eða Burt Bees, kemst ekki út úr húsi án þess að vera með þá með mér.“
Uppáhaldsmaskari?
„Get ekki sagt að ég eigi mér einhvern 100% uppáhalds en er að nota núna maskara frá Inika sem heitir Long Lash og líkar vel við hann – ekki skemmir að hann er alveg vegan.“
Hvert er besta bjútítrix allra tíma að þínu mati?
„Held ég verði að segja rakakennd og ljómandi húð og spilar þá highlighter-trendið þar inn í. Allar fallegar farðanir byggjast á fallegri og ljómandi húð að mínu mati.“
Hvaða snyrtivörur notar þú þegar þú ert þreytt og illa fyrir kölluð?
„Ætli það verði ekki að vera brúnkukrem – lífið er einfaldlega bara aðeins betra með örlítinn lit. Nota St.Tropez Express Mousse á líkamann og Face Tan Water frá Eco by Sonya á andlitið. Algjört snilldar combó.“