Yngsti viðskiptavinurinn fjögurra mánaða og sá elsti 104 ára

Starfsmenn Snyrtistöðvarinnar.
Starfsmenn Snyrtistöðvarinnar. Ljósmynd/Aðsend

Karlar eru fjórðungur viðskiptavina Snyrtimiðstöðvarinnar segir Rósa Þorvaldsdóttir eigandi. Snyrtimiðstöðin fagnar 40 ára afmæli í dag, en hún er elsta snyrtistofa landsins. 

Snyrtimiðstöðin, við Kringluna 7, var stofnuð árið 1979 af Rósu sem rekið hefur stofuna með góðum árangri til dagsins í dag. Upphaflega hét stofan Fegrun en fyrir tuttugu og einu ári var nafninu breytt í Snyrtimiðstöðina þegar stofan bætti við sig fjölbreyttari þjónustu. 

Frá stofnun hefur Snyrtimiðstöðin boðið landsmönnum upp á fyrsta flokks meðferðir og dekur svo sem snyrti- og nuddmeðferðir ásamt fótaaðgerðum. Í dag starfa sex snyrti- og fótaaðgerðarfræðingar á stofunni sem bjóða viðskiptavinum upp á yfir 100 ára samanlagða reynslu. Sjálf er Rósa löggiltur fótaaðgerðafræðingur, sérhæfð í varanlegri förðun og háreyðingu. Ásamt því að vera kennaramenntuð og meistari í snyrtifræði. Hún hefur unnið samfellt við fagið í 40 ár.

Rósa stofnaði Snyrtimiðstöðina árið 1979.
Rósa stofnaði Snyrtimiðstöðina árið 1979. Ljósmynd/Aðsend

Karlmenn hættir að læðast meðfram veggjum

Á síðustu 40 árum hefur margt breyst, bæði hvað varðar meðferðir og tækni. Upphaflega voru níu meðferðir í boði á stofunni en nú er meðferðarlistinn hátt í þrjár blaðsíður. Áður fyrr sóttu nánast eingöngu miðaldra konur snyrtistofur en í dag eru fastir viðskiptavinir á öllum aldri. „Yngsti fasti viðskiptavinurinn var fjögurra mánaða og sá elsti 104 ára. Karlmenn eru um fjórðungur af viðskiptanum okkar. Áður fyrr læddust þeir meðfram veggjum en í dag þykir ekkert tiltökumál að karlmenn komi í snyrtingu. Vinsælustu meðferðirnar hjá þeim eru fótaaðgerð, varanleg háreyðing og húðhreinsun,“ segir Rósa. 

Fastakúnnar í 40 ár

Rósa hefur prófað ýmislegt meðfram stofurekstrinum. Hún opnaði meðal annars verslun í Kringlunni 1987, fór í kennaraháskólann 1997 rétt eftir að hún eignaðist fimmta barnið sitt. Rósa kenndi snyrtifræði í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti í tvö ár og opnaði verslun í Bandaríkjunum árið 2005. „Ég prófaði ýmislegt annað meðfram rekstrinum en endaði alltaf á sama stað. Á stofunni líður mér best, finnst fátt skemmtilegra en að hjálpa fólki með vandamál sem það ræður ekki við. Það er líka yndislegt að fá til sín fólk úr öllum stéttum samfélagsins, spjalla við þau, gefa ráð og fá ráð frá öllum þessum frábæru viðskiptavinum. Sumir þeirra hafa komið öll 40 árin og ég hef eignast marga dásamlega vini í gegnum vinnuna,“ segir Rósa

Í dag, 20. september, býður Snyrtimiðstöðin öllum þeim sem vilja fagna með stofunni að kíkja í opið hús frá kl. 15 til 18. Boðið verður upp á léttar veitingar og allir sem koma verða með í happdrætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál