Á dögunum mætti raunveruleikastjarnan Bethenny Frankel upp á spítala með skartgripi að andvirði 148 milljónir króna, en Frankel skartaði meðal annars 9,5 milljón króna Rolex-úri við spítalasloppinn.
Frankel hefur verið að glíma við langvinn einkenni eftir að hafa fengið kórónuveiruna og glímir við POTS heilkenni (e. Postural orthostatic tachycardia syndrome) sem veldur truflunum á starfsemi ósjálfráða taugakerfisins.
Í myndskeiði sem Frankel birti á TikTok deildi hún skartgripunum sem hún var með, en hún er stödd á sjúkrahúsinu í New Orleans um þessar mundir þar sem hún reynir að komast til botns í viðvarandi heilsufarsvandamálum sínum.
Eftir að hafa sýnt Gucci-skóna sína og hálsmen frá Grikklandi sýndi Frankel Rolex-úr að andvirði 9,5 milljónum króna, en það er úr rósagulli með demöntum.
Því næst sýndi Frankel glæsilegan hring frá Spinelli Kilcollin sem kostar 7.800 bandaríkjadali, eða sem nemur rúmri milljón króna. Þá skartaði raunveruleikastjarnan einnig gylltu armbandi frá Tiffany & Co. sem kostar um 10.500 bandaríkjadali, eða rúmlega 1,4 milljónir króna.
Dýrasti skartgripur Frankel var hins vegar risastór trúlofunarhringur sem unnusti hennar, Paul Bernon, gaf henni. Hann er metin á heila milljón bandaríkjadala, eða 136,2 milljónir króna.