Telja sig hafa breytt kauphegðun Íslendinga

Eigendur hringrásarverslanna segja þetta framtíðina í verslun hér á landi.
Eigendur hringrásarverslanna segja þetta framtíðina í verslun hér á landi. Ljósmynd/Samsett mynd

Svokallaðar hringrásarverslanir verða sífellt vinsælli hér á landi og í flestum þeirra þarf að bóka bás með margra mánaða fyrirvara. Hringrásarverslun er verslun þar sem hægt er að versla og selja af sér notaða hluti eins og fatnað, skó og heimilisvörur. Þá er það yfirleitt þannig að seljandinn leigir bás, setur upp vörurnar en þarf ekki að standa sjálfur vaktina. Þjónustan við seljandann er síðan mismikil á milli verslana.

Á sama tíma og Rauði krossinn á erfitt með að taka við meiri fatnaði og Íslendingar flytja inn heilu gámana af nánast einnota vörum frá verslunum á borð við Shein og Temu þá virðist vera mikil vitundarvakning um mikilvægi þess að endurnýta hlutina sína. Hringrásarverslanir hafa margar hverjar neitað að selja vörur frá kínversku risunum og vonast til þess að það hafi áhrif á kauphegðun landans.

Smartland tók nokkra eigendur hringrásarverslanna tali og voru þeir allir sammála um að þetta sé framtíðin í verslun. 

Hafa selt sama jakkann oftar en þrisvar

Jana Maren Óskarsdóttir og eiginmaður hennar misstu bæði vinnuna í heimsfaraldrinum. Eftir nokkra umhugsun um næstu skref sáu þau sér leik á borði. „Ég hef reynslu úr fatabúðabransanum, vann til dæmis í Gyllta kettinum í mörg ár og hef brunnið fyrir notaðan fatnað og endurnýtingu yfir höfuð. Við þekkjum þetta vel og þetta meikaði mikinn sens fyrir okkur að setja af stað eitthvað svona.“

Úr varð Hringekjan sem er stödd í miðbæ Reykjavíkur. Þar leigirðu þér fataslá, hengir upp flíkurnar þínar og færð svo kassa til að setja fleiri föt í sem geymdur er inn á lager. Starfsfólk Hringekjunnar sér svo um að fylla á fyrir fólk og heldur slánni snyrtilegri yfir leigutímann.

„Við vildum vera með þá sérstöðu að geta boðið upp á meiri þjónustu en hefur þekkst áður. Fólk getur komið, sett upp sölurýmið og þarf svo ekkert að hugsa um það meir því við sjáum að það sé snyrtilegt og fínt allan tímann.“

Hún segir helstu kosti hringrásaverslanna vera augljósa. Það er verið að nýta það sem er til og fólk er að eignast gæðavörur á lægra verði. „Maður getur gert svo æðisleg kaup. Endurnýtingin er algjör snilld og við fáum fólk inn sem er bæði að kaupa og selja. Við höfum stundum selt sömu flíkina nokkrum sinnum, ég veit til dæmis um einn jakka sem hefur komið inn fimm sinnum og það er geggjað líka.“

Jana Maren Óskarsdóttir, eigandi Hringekjunnar.
Jana Maren Óskarsdóttir, eigandi Hringekjunnar.

Er hann alltaf í fínu ástandi?

„Já, þetta er fjólublár leðurjakki. Hann er keyptur og notaður fyrir ákveðið tilefni, afmæli til dæmis, en svo er hann kominn aftur,“ segir Jana og hlær.

Hún segir íslenska hönnun vera eftirsótta í versluninni sem og vönduð merkjavara. „Svo einstakar flíkur. Ef það kemur eitthvað sem er öðruvísi þá fer það strax.“

Mikil vitundavakning er á meðal eldri kynslóðarinnar að mati Jönu. „Við fáum mikið spurningum frá þeim hópi sem vill taka þátt. Sumir eru þá að selja bara til að koma þessu í aðrar hendur.“

Þjónustan er vinsæl og hefur orðið mikil aukning hjá versluninni. „Það er orðið þannig að fólk þarf að skipuleggja með fyrirvara ef það ætlar að selja. Það eru að spretta upp alls konar möguleikar, fataleigur og netsölur til dæmis, sem sýnir það að eftirspurnin er gríðarlega mikil. Það sýnir að samfélagið er að breytast.“

Er þetta vegna þess að fólk er meðvitaðra um mikilvægi hringrásar eða er fólk að kaupa of mikið af fötum?

„Bæði er rétt myndi ég segja. Það eru auðvitað aðilar sem koma reglulega, versla mikið og finnst gott að geta skipt út.“

Er það vandamál?

„Það getur verið það. En að sama skapi þá er allt orðið svo dýrt. Ég finn alveg fyrir því, það er verið að kaupa föt fyrir skólann hér til dæmis og það munar hellingi að geta verslað svona því allt annað er að hækka. En þau sem selja getur líka búið sér til pening, hvort sem það er að safna sér fyrir utanlandsferð eða öðru.“

Það vakti athygli þegar Hringekjan tilkynnti að vörur frá hraðtískurisanum umdeilda, Shein, yrðu ekki seldar. Ákvörðunin var tekin í kjölfar þess þegar Jana sá sér ekki fært um að mæla með merkinu við viðskiptavin.

„Við höfðum séð mikla umfjöllun um framleiðandann, bæði í sambandi við eiturefni í flíkunum og hvernig fyrirtækið er rekið. Einn daginn fæ ég fyrirspurn í versluninni, er spurð út í þetta merki og ég varð að mæla gegn því að kaupa frá þessu. Þá hugsaði ég að ef ég ætlaði að segja einni manneskju þá ætti ég að segja það við alla,“ segir Jana.

„Við vildum vekja athygli á þessu. Við vorum að fá sömu flíkina kannski í mismunandi litum ennþá með verðmiðanum á og vansniðið. Helst myndi ég auðvitað bara vilja láta stoppa þetta, eða banna að flytja þessar vörur til landsins. Þetta var prinsip-mál því við viljum reyna að breyta boðskapnum, breyta hugsunarhættinum og kaupa af minni fyrirtækjum.“

Ákvörðunin vakti fljótt athygli og fengu þau góð viðbrögð. „Eftir að við gáfum út yfirlýsinguna þá fylgdi Rauði krossinn líka. Þetta vakti athygli fjölmiðla og ég held að þetta hafi skilað sér inn í samfélagið.“

Hringekjan.
Hringekjan. Ljósmynd/Eygló Gísladóttir

Frumkvöðlar í hringrásarverslun

„Við vissum ekki hvernig Íslendingar myndu taka þessu, eðlilega. Þetta var tiltölulega nýtt hugtak í kringum notaðar vörur. Það var að sjálfsögðu ekkert nýtt að kaupa sér notað en það var þá meira gert á nytjamörkuðum og verslunum eins og Spúútnik,“ segir Andri Jónsson, annar stofnenda Barnaloppunar. Hann stofnaði fyrirtækið ásamt eiginkonu sinni, Guðríði Gunnlaugsdóttur, fyrir rúmlega sex árum síðan. Í kjölfarið opnuðu þau Extraloppuna í Smáralind ásamt Brynju Dan Gunnarsdóttur.

Hjónin voru frumkvöðlar þar sem verslun sem þessi þekktist ekki hér á landi. Þau kynntust hugtakinu þegar þau bjuggu í Danmörku og eftir flutninga aftur heim ákváðu þau að slá til.

Hvernig voru fyrstu viðtökur?

„Þær voru rólegar til að byrja með, það verður að segjast eins og er. Það þurfti að vinna í því að kynna og markaðssetja okkar nafn, Loppan, sem við teljum að við höfum gert helvíti vel hingað til. Margir vinir okkar voru skeptískir og þá aðallega endurskoðandinn okkar sem hló að okkur. Hann ætlaði samt að hjálpa okkur og er sá fyrsti sem tekur upp hanskann fyrir okkur í dag,“ segir Andri hlæjandi.

„En fólk hugsaði öðruvísi á þessum tíma og þekkti þetta ekki. Við viljum meina að við höfum breytt kauphegðun Íslendinga þessi síðustu ár.“

Síðustu ár hafa samkeppnisaðilar Loppunar komið og farið að sögn Andra. „Það er greinilegt að við erum að gera eitthvað rétt fyrst það er verið að herma svolítið eftir okkur. Það er auðvitað frábært að fleiri séu að taka þátt í þessari hringrás. Við höldum að þetta sé klárlega framtíðin þegar við horfum lengra og þetta er komið til að vera.“

Í miðjum heimsfaraldri ákváðu þau að stækka húsnæði Barnaloppunnar um helming og sjá ekki eftir því í dag. Þremur árum síðar er húsnæðið nánast sprungið utan af versluninni og þau anna varla eftirspurn í Extraloppunni. „Það hefur ekki verið neitt lát á bókunum hjá okkur en það má kannski ekki segja það sama um samkeppnina. Það er meira að gera í verslunum og bókunum fer fjölgandi. Það er jákvætt vandamál að bókað sé svona langt fram í tímann því við Íslendingar hugsum öll eins, það þarf helst allt að gerast á morgun. Svo er árstíminn ekki farinn að skipta máli. Júlímánuður var einn söluhæsti mánuðurinn í Barnaloppunni frá upphafi til dæmis, sem er galið því júlí er yfirleitt rólegastur. En hann fór fram úr öllum væntingum og markmiðasetningu. Svo er staðan þannig núna að það er tveggja mánaða bið í bása hjá okkur.“

Hver heldurðu að ástæðan sé? 

„Ég vona að fólk sé ekki að kaupa sér meira nýtt í dag en það var að gera. Það fallega við verslunina okkar er að við sjáum sömu vörurnar koma inn og út úr búðinni okkar. Þetta er næstum því orðinn vettvangur til að skipta hlutunum út. Ég vona að við séum að sporna gegn þessum hraðtískuiðnaði allavega að einhverju leyti. Ég get ekki séð annað og miðað við hvernig gangurinn er í búðunum okkar að þá er fólk ekki að versla nýja vöru.“

Meira er til af ódýrari vöru en merkjavöru í verslunum þeirra en Andri telur það einfaldlega vera vegna þess að meira er til af henni. „Merkjavaran kemur til okkar aftur og aftur. Þá tala ég um nákvæmlega sömu flíkina. En hitt dugir styttra. Sem betur fer er verið að nota hana aftur en hún hefur auðvitað styttri líftíma,“ segir Andri.

Guðríður Gunnlaugsdóttir og Andri Jónsson, stofnendur Barna- og Extraloppunnar.
Guðríður Gunnlaugsdóttir og Andri Jónsson, stofnendur Barna- og Extraloppunnar.

Það er ekki skýr aldursmunur á þeim sem notfæra sér þjónustu Loppunnar en unglingarnar eru orðnir mun meðvitaðri um kosti hennar. „Það er þróunin sem við erum svo stolt af. Af hverju að borga meira fyrir flíkina þegar þú getur fengið hana ódýrari hér. Markhópurinn í Extraloppunni er til dæmis að yngjast því þau eru að átta sig á því að það er alveg hægt að kaupa merkjavöruna ódýrari hér heldur en að panta á netinu. Því oftast er ekkert að þessu.“

Andri segir verslanirnar ekki taka við vörum frá Shein. „Auðvitað kemur ein og ein inn og við getum ekki gripið allar. En við tökum þær úr umferð um leið og við sjáum þær og höfum mikið talað um þetta á samfélagsmiðlum. Þetta eru ekki vörur sem við viljum selja og eru með miklu fleiri eiturefnum, barnaþrælkun í framleiðslu og fleira. Þó þeir hafi opinberlega tekið á því þá veit maður ekki hvað er rétt. Við viljum helst ekki sjá þetta í búðinni okkar og tökum þetta úr umferð.

Það hafa allir tekið jákvætt í það að við séum að reyna að slaufa þessum merkjum. Þú ert eiginlega bara að versla þér rusl, þetta er léleg framleiðsla og einnota. Við viljum ekki sjá það og þetta er ekki það sem við stöndum fyrir. Við höldum okkar striki og vitum að við erum að gera rétt.“

Markaður í miklum vexti

„Við stofnuðum þetta þar sem okkur fannst vanta vefsíðu eins og Visteyri á Íslandi. Þar sem hægt er að selja og kaupa notaðar vörur á einfaldan hátt, taka þátt í hringrásinni eins og maður sé að versla í venjulegri netverslun,“ segir Elfa Rós Helgadóttir, einn af þremur eigendum vefverslunarinnar Visteyri. Verslunin er frábrugðin flestum öðrum hringásarverslunum vegna þess að hún er netverslun og selur notaðan fatnað, barna- og heimilisvörum og sinnir viðskiptavinum um allt land.

„Þú getur tekið þátt óháð því hvar þú ert staddur á landinu,“ útskýrir Elfa.

Hún segir marga kosti við hringrásina og er stolt af því að taka þátt í að kynna hana betur fyrir fólki hér á landi. „Þetta er líka skemmtilegur hvati til að taka til í fataskápnum og koma fötum í hringrásina. Kosturinn við okkur er að þú þarft ekki að eiga haug af flíkum til að selja, þarft ekki að safna í heilan bás og selja svo það borgi sig. Hjá okkur geturðu skráð flíkina til sölu og getur leyft þér að bíða smá þar til þú færð verðið sem þú vilt. En það er allur gangur á því hvernig fólk gerir þetta, hvort það sé að selja mikið í einu eða bara eina og eina flík.“

Elfa segir íslenska hönnun seljast vel og einnig aðra merkjavöru. „Helstu kostirnir við að versla á þennan hátt er að maður spornar auðvitað gegn sóun, getur verslað á ódýrari hátt, færð þín uppáhalds vörumerki á lægra verði sem og einstakari flíkur.“ Hún bætir þó við að hún væri til í að sjá fleiri stráka taka þátt í hringrásinni.

„Okkur finnst þessi markaður vera í miklum vexti. Hann hefur vaxið mikið frá því að við komum inn og það virðist hafa verið gríðarleg þörf á markaðstorgi eins og þessu. Við komum inn á hárréttum tíma og fengum góðar viðtökur,“ segir Elfa.

„Auðvitað erum við sem samfélag að kaupa aðeins of mikið en ég tel að hringrásin stuðli ekki að því að við kaupum okkur meira. Ég held það sé ekki málið. Fólk er aðeins að vakna upp og geta í rauninni komið vörunum nú inn í hringrásina því það finnur að þetta er orðið mun einfaldara en áður. Þetta á að vera þægilegt eins og að flokka flöskur.“

Hún telur þetta farið að komast inn í vöðvaminnið hjá fólki og að hlutirnir séu frekar endurnýttir en þeim sé fleygt.

Stofnendur Visteyri tóku einnig þá ákvörðun að banna sölu frá hraðtískufyrirtækjum á borð við Shein. Ef þær vörur fara í sölu þá eru þær fjarlægðar og seljandinn látinn vita með skýringu.

„Við tókum þá ákvörðun því við vildum vekja fólk til umhugsunar um áhrifin sem þetta hefur. Shein er að framleiða flíkur á miklu meiri hraða en aðrir og í miklu meira magni. Auðvitað er alltaf hægt að taka umræðuna um önnur fyrirtæki en þetta merki stóð út úr að okkar mati. Rannsóknir sýna einnig að mikil eiturefni eru í þessum fatnaði og fara langt fram úr Evrópuviðmiðum og við viljum auðvitað ekki selja heilsuspillandi vöru,“ segir Elfa.

Hún segir viðbrögðin í kjölfarið hafa verið mjög jákvæð. „Við bjuggumst auðvitað við gagnrýni en við fengum mun meiri lof. Það spratt upp skemmtileg umræða á samfélagsmiðlum því við vildum fá fólk til að hugsa þetta aðeins.

Mér finnst fólk vera varkárara með að kaupa þannig vörur og sérstaklega þegar þú kemur þeim ekki í endursölu þá er erfiðara að réttlæta kaupin. En þessar vörur eru líka gerðar úr þannig efnum að þetta er ekki gert til að endast, líftími fatanna er svo stuttur. En við tókum afstöðu þarna.“

Stofnendur Visteyri, Vilborg Ásta Árnadóttir, Elfa Rós Helgadóttir, Sigrún Dís …
Stofnendur Visteyri, Vilborg Ásta Árnadóttir, Elfa Rós Helgadóttir, Sigrún Dís Hauksdóttir.

Uppselt fram í desember

„Við gerðum okkur ekki alveg grein fyrir því hvað við vorum að fara út í,“ segir Heba Guðbrandsdóttir, einn stofnenda Ríteil, hlæjandi. Ríteil opnaði fyrr á þessu ári og er sannkallað fjölskyldufyrirtæki.

„Við vorum að flytja og ég sat inn í stofu og var gjörsamlega að drukkna. Ég á fjögur börn og maðurinn minn á þrjú börn. Ég var mikið að hugsa hvað ég ætti að gera við allt þetta, hvort ég ætti ekki að fara með þetta í hringrásarverslun og þá fór umræðan af stað,“ útskýrir Heba. Hún segir uppfinningaglaðan son sinn hafa verið með í mótun hugmyndarinnar og að öll fjölskyldan taki þátt í daglegum rekstri.

„Öll sjö börnin okkar eiga hlut í búðinni svo mér finnst mjög vænt um að heyra að það sé góð þjónusta. Krakkarnir eru frá 17 ára upp í 35.“

Ríteil er hringrásarverslun sem er staðsett í Kópavogi. „Umfram hinar búðirnar erum við með sérstakt uppstillingarherbergi. Þannig þú þarft ekki að vera inn í salnum til að setja upp básinn heldur í sérstöku rými og það hefur fólki fundist mjög þægilegt,“ segir Heba.

„Þegar við fórum út í þetta fannst okkur svo mikið verið að einblína á þann sem leigir út básinn og minna á kaupandann. Við vildum hafa þetta aðgengilegt fyrir þann sem er að versla því það gengur ekki að vera að selja föt ef enginn verslar við þig. Svo hjá okkur er breiðara bil á milli básanna til dæmis og það hefur tekist rosalega vel.“

Hún segir þau bjóði einnig upp á lúxusþjónustu sem er nýtt fyrirbæri í þessum geira. Þannig ná þau inn fjölda fólks sem myndi annars ekki láta sér detta það í hug að setja upp bás sjálft. „Þannig þú bókar bás, við komum heim til þín og sækjum vörurnar, gufum þær og hengjum upp, ákveðum verðin og merkjum, fyllum á og höfum básinn fínan. Það er uppselt fram í desember allavega og það komast færri að en vilja. Það var þörf á þessu,“ segir Heba.

Heba Guðbrandsdóttir.
Heba Guðbrandsdóttir.

Það hvarflaði ekki að Hebu fyrir um tíu árum síðan að kaupa sér notuð föt. Í dag er annað uppi á teningnum.

„Í dag finnst mér þetta geggjað og ég held að það hafi orðið mikil vitundarvakning núna síðustu örfáu ár. Yngri kynslóðinni finnst þetta snilld. Manni bregður í brún að sjá hvernig við erum að fara með jörðina og sjá myndir af fatahaugum erlendis. En það er snilld að geta endurnýtt fötin, þau eru ekkert endilega orðin snjáð eða ljót, oft fær maður bara leið.“

Heba segir merkjavöruna vera mun algengari en fatnaður frá ódýrari merkjum. „Trúðu mér, ég þekkti ekki helminginn af þessum merkjum. Það rignir inn geggjaðri vöru sem er yfirleitt í súpergóðu ástandi.“

Hún segir það hafi komið upp að banna vörur frá eins og frá Shein og Temu en engin ákvörðun hafi verið tekin. „Okkur finnst auðvitað ekki sniðugt að selja vörur með eiturefnum í. Það er vont fyrir okkur og alla. Þetta hefur oft komið til tals og mér finnst líklegt að við förum að hætta með það.“

Hafið þið séð mikið af þessum vörum hjá ykkur? „Eitthvað af Shein, já.“

Verslunin Ríteil.
Verslunin Ríteil.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál